Erlent

Segir brottreksturinn til marks um áhrif sín

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Starfsmaður Twitter fagnaði síðasta degi sínum hjá fyrirtækinu með því að eyða reikningi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Ellefu mínútur liðu þar til fyrirtækið opnaði aftur á aðgang Trump að samfélagsmiðlinum en Trump sjálfur heldur því fram að hann hafi unnið forsetakosningarnar í fyrra vegna Twitter.

Trump sagði 41,7 milljónum fylgenda sinna að atvikið sé til marks um að skilaboð hans séu að berast víða og hafi áhrif.

Mikil fagnaðarlæti brutust út víða eins og Guardian hefur tekið saman: „Í friðsamar ellefu mínútur virtist sátt og samlyndi ríkja yfir heiminum með brottrekstri Donald Trump frá Twitter.“

Twitter segir atvikið til rannsóknar innan fyrirtækisins.

Lengi hefur verið kallað eftir því að Twitter loki á aðgang Trump. Það hefur meðal annars verið gert vegna yfirlýsinga forsetans varðandi Norður-Kóreu, sem hægt er að túlka sem stríðsyfirlýsingu.

Þá skrifaði forsetinn að hann hefði verið að hlusta á sendiherra Norður-Kóreu hjá Sameinuðu þjóðunum og sagði: „Ef hann endurskoðar hugsanir Litla eldflaugamannsins [Kim jong-Un], verða þeir ekki til staðar mikið lengur!“

Þetta hefur víða verið túlkað sem hótun gagnvart Norður-Kóreu og jafnvel hótun kjarnorkustríðs. Samkvæmt reglum Twitter má ekki hóta ofbeldi, en gagnrýnendur forsetans gagnrýndu Twitter fyrir að leyfa Trump að hóta kjarnorkustríði.

Eins og bent er á í frétt Washington Post hefur Trump skrifað tíst um Norður-Kóreu sem auðvelt er að túlka sem hótanir. Þar að auki hefur hann tíst myndbandi af sér beita mann sem merki CNN í stað höfuðs ofbeldi.

Þar var forsetinn sagður kynda undir ofbeldi gegn starfsmönnum fjölmiðla.

Forsvarsmenn Twitter tjáðu sig um þá ákvörðun að eyða ekki tísti Trump um „Litla eldflaugamanninn“ í september né loka aðgangi hans með því að segja að fyrirtækið tæki tillit til þess að hann væri forseti Bandaríkjanna. Almenningur hefði hag af því að sjá yfirlýsingar hans á samfélagsmiðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×