Bandaríski tæknirisinn Microsoft tilkynnti í gær að HoloLens, gleraugu fyrir viðbótarveruleika (e. augmented reality), verði sett í sölu í 29 löndum í Evrópu. Þrefaldast þannig fjöldi þeirra landa þar sem HoloLens er til sölu en áður voru gleraugun seld í tíu löndum. Eitt þessara landa er Ísland, að því er tæknifréttasíðan TechCrunch greinir frá.
„Við teljum að tækniheimurinn sé að fara í þessa átt,“ sagði Lorraine Bardeen, yfirmaður HoloLens-deildar fyrirtækisins þegar stækkunin var kynnt í Lundúnum og bætti því við að með HoloLens væri hægt að færa öll forrit notenda inn í raunveruleikann.
„Viðbótarveruleiki mun hjálpa fyrirtækjum og einstaklingum að klára mikilvæg verkefni fljótar og á öruggari og hagkvæmari hátt,“ sagði Bardeen enn fremur.
Viðbótarveruleiki er frábrugðinn sýndarveruleika að því leyti að myndir og forrit birtast notandanum fyrir framan það sem raunverulega er til staðar í stað þess að öllu sjónsviði manns sé skipt út fyrir eitthvað annað. Gott dæmi um viðbótarveruleika, sem lesendur kannast ef til vill margir við, má finna í snjallsímaleiknum Pokémon Go.
Með þessu skrefi þykir TechCrunch Microsoft vera að veðja á viðbótarveruleikann sem raunhæfan framtíðarmöguleika í stað skjáa. Sölutölur HoloLens hafa þó ekki verið gerðar opinberar. Eitt er þó víst, gleraugun eru ekki ódýr og kostar ódýrasta útgáfan 3.000 Bandaríkjadali vestanhafs.
Microsoft HoloLens kemur til Íslands
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Mest lesið


Fyrsta íslenska grænkera ostagerðin í hættu
Viðskipti innlent

Jaguar Land Rover stöðvar sendingar vegna tollahækkana
Viðskipti erlent


Verðfall á Wall Street
Viðskipti erlent

Leiðtogar ESB íhuga háa sekt á X og Musk
Viðskipti erlent

Talaði gegn eigin ráðgjöfum um tollana
Viðskipti erlent

Lítið sem ekkert fékkst upp í kröfur í þrotabú bakarísins
Viðskipti innlent

Eldrauð Kauphöll: Bandaríkjamenn horfi fram á lakari lífskjör
Viðskipti innlent

Kínverskir ferðamenn aldrei fleiri: Beint flug hefjist von bráðar
Viðskipti innlent