Erlent

Trump vill gera „drauga-veiðimann“ að dómara

Samúel Karl Ólason skrifar
Brett Talley, hefur skrifað nokkrar hrollvekjur og hefur farið víða um til að leita að draugum.
Brett Talley, hefur skrifað nokkrar hrollvekjur og hefur farið víða um til að leita að draugum. Vísir/GEtty
Maðurinn sem Donald Trump hefur valið sem alríkisdómara í Alabama hefur verið lögmaður í þrjú ár og hefur aldrei flutt mál fyrir dómi. Lögmaðurinn, sem heitir Brett Talley, hefur skrifað nokkrar hrollvekjur og hefur farið víða um til að leita að draugum. Það sem meira er, þá vinnur eiginkona hans í Hvíta húsinu og tók Talley það ekki fram í skrá yfir mögulega hagsmunaárekstri.

Talley skrifaði þó í þá skrá að hann hefði verið meðlimur í Tuscaloosa Paranormal Research Group. Það er hópur fólks sem gistir í gömlum byggingum yfir nótt og reynir að finna drauga með „vísindalegum aðferðum“ eins og það er orðað á heimasíðu TPRG.

Gagnrýni vegna vals Trump á Talley hefur einnig snúið að því að hann virðist vera mjög pólitískur. Hann hefur margsinnis gagnrýnt demókrata á samfélagsmiðlum og á bloggsíðu sinni skrifaði hann grein í janúar 2013 um að allir ættu að ganga til liðs við samtök byssueigenda í Bandaríkjunum. Sömuleiðis hefur hann skrifað um stjórnmál í aðsendum greinum til fjölmiðla.



Lögmannafélag Bandaríkjanna segir Talley vera óhæfan til starfsins en verði hann staðfestur af öldungadeildinni gæti hann verið dómari til æviloka.



Dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings er búin að samþykkja Talley í starfið og var kosið eftir flokkslínum þar sem repúblikanar eru fleiri en demókratar. Öldungadeildin í heild sinni mun einnig þurfa að kjósa um Talley. Samkvæmt frétt BBC er talið líklegt að hann verði staðfestir af þinginu.

Trump hefur skipað mikinn fjölda dómara á fyrsta ári sínu eða um tvöfalt fleiri en Barack Obama gerði á sínu fyrsta ári sem forseti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×