ÍBV spilar á morgun seinni leik sinn gegn HC Gomel í Áskorendakeppni Evrópu. Leikurinn fer fram í Eyjum.
ÍBV vann fyrri leik liðanna í Hvíta-Rússlandi, 27-31, og stendur því ansi vel að vígi í einvíginu.
Leikurinn, sem hefst klukkan 13.00 á morgun, er aðeins annar leikurinn sem ÍBV spilar í Eyjum en það tók sinn tíma að leggja nýtt parket á íþróttahúsið í Eyjum.
„Við vorum klárlega betri en þeir ytra og erum betri í handbolta en þeir. Þetta er samt stórhættulegt lið. Þeir eru sterkir og berjast. Spila 5-1 vörn sem er nokkuð góð hjá þeim. Þeir fengu ekki mikla markvörslu í fyrri leiknum og þetta er langt frá því að vera komið,“ segir varkár þjálfari ÍBV, Arnar Pétursson.
„Auðvitað erum við samt í góðri stöðu og setjum að sjálfsögðu þá kröfu á okkur að við eigum að klára þetta. Verkefnið er samt verðugt og stórt.“

