Innlent

Austurland einangrað

Gissur Sigurðsson skrifar
Næsthæsta viðvörun er nú í gildi fyrir Vestfirði, Norðurland og Suðausturland
Næsthæsta viðvörun er nú í gildi fyrir Vestfirði, Norðurland og Suðausturland Veðurstofan
Það er kolófært víða á landinu og vegir lokaðir nema um suðvestanvert landið. Vegagerðin segir vísbendingar um að það verði ekki hægt að hefja mokstur fjallvega og langleiða á Norður- og Austurlandi fyrr en á laugardagsmorgun, en eftilvill fyrr á Vestfjörðum, vegna óveðurs.

Þannig eru nú Austurland og Austfirðir einangruð landleiðina frá öðrum landshlutum, sömuleiðis Norðurland og það sama á við um Vestfirði líka, og horfur á innanlandsflugi eru slæmar.

Appelsínugul viðvörun, næsthæsta viðvörun, er nú í gildi fyrir Vestfirði, Norðurland og Suðausturland, en gul viðvörun fyrir Austurland og Austfirði, miðhálendið og sunnan- og vestanvert landið.

Sjá einnig: „Næstu tvo sólarhringa verður nær samfellt hríðarveður með skafrenningi“

Gul viðvörun verður á öllu landinu á morgun. Spáð er norðan 15 til 23 metrum á sekúndu á landinu í dag með snjókomu og sumstaðar stórhríð en að úrkomulaust verði um sunnan og suðvestanvert landið, en að það geti jafnvel orðið ofsa veður með hviðum upp í 50 metra á sekúndu suðaustanlands með sandfoki, og svo er gul viðvörun fyrir allt landið á morgun.

Nánast engin umferð var á vegum landsins í nótt nema hvað einhverjir vegfarendur lentu í vandræðum á Fagradal, á milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða, í gærkvöldi en björgunarsveitarmenn greiddu úr því.

Mikil snjóflóðahætta er á norðanverðum Vestfjörðum og er óvissustig þar í gildi. Nokkur hætta er líka á utanverðum Tröllaskaga og á Austfjörðum, en þónokkur snjóflóð hafa fallið utan byggða á þessum slóðum síðastliðna sólarhringa og meðal annars lokað vegum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×