Erlent

Petersen hættir við að gefa kost á sér sem alríkisdómari

Atli Ísleifsson skrifar
Matthew Petersen hefur starfað sem einn af fulltrúum Repúblikana í alríkiskjörstjórn landsins.
Matthew Petersen hefur starfað sem einn af fulltrúum Repúblikana í alríkiskjörstjórn landsins. Vísir/Getty
Bandaríski lögmaðurinn Matthew Petersen hefur tilkynnt að hann muni ekki gefa kost á sér til að gegna embætti alríkisdómara.

Þetta gerir hann eftir að slæleg og vandræðaleg svör hans við spurningum þingnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings vöktu mikla athygli og fóru í mikla dreifingu á netinu.

„Það hefur orðið mér ljóst á síðustu dögum að tilnefning mín hefur truflandi áhrif [á skipun dómara],“ sagði Petersen í yfirlýsingu sinni. Trump hefur þegar samþykkt beiðni lögmannsins.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði tilnefnt Petersen sem nýjan alríkisdómara í District of Columbia, en hann hefur starfað sem einn af fulltrúum Repúblikana í alríkiskjörstjórn landsins.

Donald Trump hefur tilnefnt fjölda manna í tóm dómarasæti í Bandaríkjunum og við lok hans fyrsta kjörtímabils gæti hann hafa tilnefnt allt að 30 prósent allra alríkisdómara landsins. Langflestir þeirra sem Trump hefur tilnefnt hingað til eru hvítir karlar og eru margir þeirra umdeildir.

Þá hafa nokkrir verið taldir óhæfir í störf dómara af lögmannasamtökum Bandaríkjanna.

Sjá einnig: „Þetta mun hafa afleiðingar 40 fram í tímann“

Petersen átti í miklum vandræðum með að svara spurningum öldungadeildarþingmanns Repúblikana, John Kennedy, þar sem í ljós kom að hann hafði svo gott sem enga reynslu af dómarastörfum eða starfsháttum dómstóla, auk þess að hann gat ómögulega svarað spurningum um lögfræði.

Sjá má myndband af svörum Petersen að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×