„Ég heyrði ekki spurninguna því ég var að horfa á brjóstin á þér“ Tryggvi Páll Tryggvason skrifar 11. desember 2017 15:03 Fjölmiðlakonur krefjast aðgerða vegna kynferðislegrar áreitni. Vísir/Getty 238 fjölmiðlakonur hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þær lýsa reynslu sinni af kynferðislegri áreitni, óviðeigandi snertingum og óvelkomnum athugasemdum í starfi til þess að sýna samfélaginu hvernig viðmóti þær mæti í vinnunni. Krefjast þær aðgerða og eftirfylgni af hálfu íslenskra fjölmiðla. Alls fylgja 72 sögur fjölmiðlakvenna yfirlýsingunni.Ein konan greinir frá því að hún hafi eitt sinn unnið með manni sem þótti erfiður í glasi. Eftir að konan héld starfsmannafögnuð heima hjá sér hafi viðkomandi samstarfsmaður orðið eftir, dáinn áfengisdauða á sófanum.„Ég henti yfir hann teppi, hringdi í yfirmann okkar og tjáði honum málavexti, enda átti fréttamaðurinn að vera á vaktinni þann morguninn. Svo fór ég sjálf niður í mitt rúm að sofa. Á hádegi vaknaði ég við að maðurinn sat á rúminu hjá mér ég veit án gríns ekki hvað hann hafði verið lengi þar. Hann bað um að fá að snerta á mér brjóstin, hann hafði alltaf langað að „kreista þau“ ég sneri því upp í grín en hann hélt áfram um stund og suðaði í mér að leyfa honum bara aðeins. Hann fór síðan á vaktina góðum fimm tímum of seinn. Var ekki skammaður. Ég lét síðan eins og ekkert hefði í skorist. Vildi ekki eyðileggja neitt eða vera leiðinleg,“ skrifar konan.Greindi lesbíum frá sameiginlegu áhugamáli Þá segir önnur konu frá því að hún hafi verið í boði með konu sinni þar sem þekktur fjölmiðlamaður hafi kynnt sig fyrir þeim og tjáð þeim að þau ættu sameiginlegt áhugamál.„[S]agði að þar sem við værum lesbíur ættum við og hann nú sameiginlegt áhugamál: að sleikja píkur. Algjörlega óumbeðið fór hann að tala við okkur á mjög grófan hátt og spyrja okkur óviðeigandi spurninga um kynlífið okkar. Þegar við báðum hann að hætta varð hann pirraður og kallaði okkur teprur,“ skrifar konan.„Annar karl í boðinu, sem er háttsettur í þjóðfélaginu, steig inn í samtalið og skammaði hann, en hann hélt enn áfram og fannst ekkert athugavert við það sem hann var að segja. Konan mín og hinn karlinn gengu í burtu en þegar ég ætlaði að fara á eftir þeim króaði hann mig af og kom með romsu um hvað FreeTheNipple væri fáránleg pæling. Komst loksins undan þessu og þegar ég sagði nokkrum í boðinu í því sem við höfðum lent virtist það ekki koma neinum á óvart. Hann væri þekktur fyrir að vera óviðeigandi.“Slegin út af laginu í viðtali Ein kona segir frá því að eitt sinn hafi hún verið að taka krefjandi viðtal við forstjóra stofnunar, sem tekist hafi að slá hana út laginu með óviðeigandi svari.„Spurningarnar voru gagnrýnar og erfiðar og þá allt í einu sagði forstjórinn: „Fyrirgefðu, ég heyrði ekki spurninguna því ég var að horfa á brjóstin á þér.“ Hann sló mig algjörlega út af laginu, sem var líklega tilgangurinn með ummælunum. Hef ekki mætt í flegnum fötum síðan.“Þá skrifar ein kona að hún hafi starfað á vinnustað þar sem klúrar athugasemdir hafi verið daglegt brauð en ein ummæli frá yfirmanni hennar hafi alltaf setið í henni.„[Þ]að situr alltaf í mér þegar yfirmaður minn sagði mér frá draumnum sínum liðna nótt, hann sagðist hafa verið að „taka mig” á hljóðmixernum. Ég brást við með flissi og sé alltaf eftir að hafa ekki svarað fyrir mig og farið lengra með málið, en ég var eiginlega bara orðlaus.Ein kona greinir frá því að hún og tökumaður hafi verið á leið í viðtal þegar hann hafi snarhemlað.„Ég hélt að eitthvað hefði komið fyrir eða að barn hefði hlaupið fyrir bílinn en nei ó nei, hann sagðist þurfa að horfa á rassana og brjóstin á stelpum sem voru þarna á gangi, þær væru svo helvíti ríðulegar - ullabjakk.“ „Hva, ertu með svona þrönga píku“ Önnur kona segir frá því að ritstjóri á fjölmiðli sem hún starfaði á hafi verið einstaklega óviðurkvæmilegir, hreykt sér að kynlífi sínu og reynt að koma kynferðislegum athugasemdum að í umræðunni. Segir hún að í eitt skipti hafi fjöldi typpamynda verið í myndakerfi fjölmiðilsins vegna umfjöllunar sem verið var að vinna að. Lýsti konan efasemdum um að sumar myndirnar væru raunverulegar. „Ritstjórinn kom að sjálfsögðu hlaupandi, kíkti á myndina og spurði mig: „Hva, ertu með svona þrönga píku?“ Þetta sagði hann yfir alla ritstjórnina. Ég verð sjaldan kjaftstopp, en það gerðist þarna. Sami ritstjóri spurði mig ítrekað, þegar ég tók viðtöl við karlmenn, hvort ég hefði sofið hjá þeim. Þá bað hann oft sérstaklega um að ég fengi kvenkyns viðmælendur til að vera í þröngum fötum við myndatökur. Ég veit að þessi ritstjóri hafði engan áhuga á mér kynferðislega og finnst mikilvægt að halda því til haga að kynferðisleg áreitni felst ekki bara í því að einhver reyni að komast yfir mann. Hún felst líka í óviðurkvæmilegum athugasemdum og ógeði sem maður þarf stundum að þola.“ Horfði á gróft klám í vinnutölvunni Þá segir ein kona að einn samstarfsmaður hennar hafi verið að horfa á gróft klám í vinnutölvunni sinni, en sá hinn sami hafi verið þekktur fyrir að horfa á klámfengið efni á vinnutíma. Honum virtist vera alveg sama þó að aðrir sæju hvað hann væri að horfa á en myndefnið setti konuna úr jafnvægi. „Ég setti strax ofan í við manninn og gekk eftir útsendingu á fund yfirmanns hans, sagði að mér væri slétt sama hvað hann gerði heima hjá sér, en að horfa á klám í vinnunni væri ólíðandi. Maðurinn var mildilega tekinn á teppið í framhaldinu. Ögn síðar fann hann sér viðhlæjendur, taldi að það væri nú aldeilis viðkvæmnin í sjónvarpskonunni, uppdiktaði einhverja sögu og kvað það hafa verið algera tilviljun að rata inn á klámsíðu. Blaðamaður nokkur sem hlustaði ákvað að skrifa þessa ,,tilviljun” með háði inn á síðu eins stærsta dagblaðs landsins. Ritstjórinn gerði ekki athugasemd og fullyrti eftir á að þetta hefði farið framhjá sér. Mjög ófaglegt og niðurlægjandi umhverfi. Sem betur fer væri þetta ekki liðið í dag.“Allar 72 sögurnar má lesa hér fyrir neðanVísir/Getty1. Ég vann einu sinni með manni sem er þekktur fyrir að vera „erfiður“ í glasi. Eftir starfsmannafögnuð heima hjá mér var hann einn eftir, brennivínsdauður á sófanum. Ég henti yfir hann teppi, hringdi í yfirmann okkar og tjáði honum málavexti, enda átti fréttamaðurinn að vera á vaktinni þann morguninn. Svo fór ég sjálf niður í mitt rúm að sofa. Á hádegi vaknaði ég við að maðurinn sat á rúminu hjá mér ég veit án gríns ekki hvað hann hafði verið lengi þar. Hann bað um að fá að snerta á mér brjóstin, hann hafði alltaf langað að „kreista þau“ ég sneri því upp í grín en hann hélt áfram um stund og suðaði í mér að leyfa honum bara aðeins. Hann fór síðan á vaktina góðum fimm tímum of seinn. Var ekki skammaður. Ég lét síðan eins og ekkert hefði í skorist. Vildi ekki eyðileggja neitt eða vera leiðinleg. 2. Var í boði með konunni minni þegar þekktur fjölmiðlamaður kynnti sig fyrir okkur og sagði að þar sem við værum lesbíur ættum við og hann nú sameiginlegt áhugamál: að sleikja píkur. Algjörlega óumbeðið fór hann að tala við okkur á mjög grófan hátt og spyrja okkur óviðeigandi spurninga um kynlífið okkar. Þegar við báðum hann að hætta varð hann pirraður og kallaði okkur teprur. Annar karl í boðinu, sem er háttsettur í þjóðfélaginu, steig inn í samtalið og skammaði hann, en hann hélt enn áfram og fannst ekkert athugavert við það sem hann var að segja. Konan mín og hinn karlinn gengu í burtu en þegar ég ætlaði að fara á eftir þeim króaði hann mig af og kom með romsu um hvað FreeTheNipple væri fáránleg pæling. Komst loksins undan þessu og þegar ég sagði nokkrum í boðinu í því sem við höfðum lent virtist það ekki koma neinum á óvart. Hann væri þekktur fyrir að vera óviðeigandi. 3. Saga af viðhorfi: Fyrir nokkrum árum bað ég karlkyns samstarfsfélaga um ráð fyrir launaviðtal. Hann var aðalgaurinn. Fyrirmynd. Hann nefndi tölu sem var langt fyrir neðan launin sem ég var með á þeim tíma og sagðist halda að þau væru góð fyrir konu í mínu starfi. 4. Ég hef helst orðið fyrir áreitni af einstaka viðmælanda sem hefur fundist gott að spjalla við mig og viljað eitthvað ansi mikið meira. Það var nokkrum sinnum gjörsamlega óbærilegt. Get ekki enn mætt þessum sömu einstaklingum. Eða þið vitið, nenni því ekki. Hef falið mig í Hagkaup. Já. Satt. Áreitni af hálfu samstarfsfélaga fyrir nokkrum árum er svo fjandi flókin að ég kem henni í ekki í orð. Ég fylgist með hér á síðunni og sé til. Ást og friður. 5. Kannski frekar saga af viðhorfi en af áreitni: Einu sinni var ég að ræða það við vinnufélaga að ég væri óviss með fjármögnun náms sem ég var að fara í erlendis. Einn viðstaddra, eldri maður, stakk upp á því að ég dansaði súludans meðfram námi. Sonur hans væri nefnilega í skóla í útlöndum og hefði í sig og á með því að spila á gítar í verslunarmiðstöðvum. 6. Hef oft lent í alls konar. Segi kannski frá því seinna. Eitt sinn var ég að taka krefjandi viðtal við forstjóra stofnunar. Spurningarnar voru gagnrýnar og erfiðar og þá allt í einu sagði forstjórinn: „Fyrirgefðu, ég heyrði ekki spurninguna því ég var að horfa á brjóstin á þér.“ Hann sló mig algjörlega út af laginu, sem var líklega tilgangurinn með ummælunum. Hef ekki mætt í flegnum fötum síðan. 7. Ég get ekki kvartað undan samstarfsmönnum mínum, þeir eru æði. EN það eru vissir viðmælendur og gestir sem koma við sem hafa truflað mig. Á meðan að strákunum er heilsað af virðingu, fæ ég oft „Hæ sæta,“ eða eitthvað í þeim dúr, ef að menn yfirleitt yrða á mig. Mér finnst allt í lagi að vera heilsað á þennan hátt í einhverjum tilvikum, ef ég hef þessi tengsl við þá að þetta sé bara vinaleg krúttkveðja. En oft eru það menn sem ég þekki ekki neitt og þá er þetta leiðinleg áminning þess að ég nýt ekki sömu virðingar og þeir. 8. Einn fjölmiðlamaður bauðst til að skutla mér á djammið í staðinn fyrir að fá að ríða mér. Ég hafnaði þessu boði og fannst það ekki viðeigandi og benti viðkomandi á það. Þá svaraði hann: „Hva, getur þú ekki riðið mér eins og hverjum öðrum?“ Ég hef ekki fengið fleiri ljósmyndaverkefni hjá viðkomandi miðli eftir að ég sagði nei. 9. Fór að hugsa, eftir marga áratugi í bransanum. Ekki man ég sérstaklega eftir kynferðislegri áreitni, nema ef vera skyldu sóðasímtöl að kveldi frá miðaldra fullum körlum, þegar maður var enn með númerið sitt í símaskránni, og menn sem gengu alltof langt á skemmtistöðum. Þetta er samfélagslegt vandamál sem við erum að taka á í sameiningu stelpur. #metoo Húh! Viðmót frá karlmönnum, tja það er annað, sérstaklega á mínum yngri árum. Ég lærði til að mynda snemma að halda símtólinu í góðri fjarlægð frá eyranu þegar karlar hringdu (eipuðu) og byrjuðu „samtalið:“ „Heyrðu vinan…“ Ekki orð frá mér og þá kom: „Ertu þarna?“ „Já,“ var svarið. Og þetta var endurtekið alloft eða alveg þangað til maðurinn á línunni varð það rólegur að unnt var að ræða við hann skynsamlega. Það er nefnilega ekki hægt að rífast við vegg sem ekki svarar. Ég var veggurinn. Það getur vel verið að þessi viðbrögð viðmælenda minna hafi ekkert með kyn mitt að gera, samstarfsmenn mínir af karlkyninu fá líka svona ofbeldis símtöl. Fréttamál mín hafa verið á öllum sviðum, allt frá „grjóthörðu“ efni og yfir í mýkri málin og aldrei ætlast til þess hjá mínu fyrirtæki annað en að við stelpurnar værum færar í öll mál. Já, man ekki eftir öðru en að mér hafi verið treyst í öll fréttamál. Ég hef þó kynnst yfirmönnum og viðmælendum af karlkyninu sem áttu ekki góða daga í samskiptum við konur, mig þar með talið. Mér fannst þeir alltaf bara eiga svo bágt með sig og óöruggir. Vorkenndi þeim meira en annað. Kannski er það meðvirkni 10. Ég fagna þessari síðu. Ég var í 7 ár hjá fyrirtæki þar sem klúr komment voru daglegt brauð en það situr alltaf í mér þegar yfirmaður minn sagði mér frá draumnum sínum liðna nótt, hann sagðist hafa verið að „taka mig” á hljóðmixernum. Ég brást við með flissi og sé alltaf eftir að hafa ekki svarað fyrir mig og farið lengra með málið, en ég var eiginlega bara orðlaus. 11. Atvikin sem helst hafa angrað mig varða „kvennaviðmótið“ sem ég hef stundum fengið frá kollegum og viðmælendum af gagnstæðu kyni. Ég sé sennilega örlítið tregari en kynbræður þeirra - verandi kona og allt það. Þetta var sérstaklega ljóst þegar ég skrifaði viðskiptafréttir. Eitt sinn fóru ég og samstarfsmaður saman á fund þar sem málefni lífeyrissjóða voru til umræðu. Ákváðum að skipta efninu á milli okkar og taka mismunandi vinkla. Eftir fundinn spyr ég hvað hann ætli að taka - ég velji þá eitthvað annað. Áður en hann svarar segir hann: „Ég veit ekki hvort þú hafir skilið það sem var verið að fjalla um þarna. Það varðar.... (löng útskýring) og ég ætla að taka það.“ Sátum bæði fundinn frá upphafi til enda og hann hafði minni starfsreynslu hjá fjölmiðlinum en ég. Sami maður sagði að það væri svo heppilegt að vera kona á þessum vettvangi - gagnlegt að geta verið í flegnu. (Þess vegna fær maður nefnilega upplýsingar) 12. Ég kærði mann sem hafði áreitt mig í tvö ár, að því að virtist vegna fréttar sem karlkyns kollegi minn skrifaði nokkrum árum fyrr. Kolleginn heyrði aldrei frá manninum, sem tók aftur á móti upp á því að senda mér ítrekuð skilaboð þar sem hann kallaði mig hóru, hótaði mér refsingu og beindi sjónum að börnunum mínum. Skilaboðin einkenndust fyrst og fremst af kvenfyrirlitningu, enda var hann ekki að ráðast að mér sem blaðamanni heldur sem konu. 13. Þegar átak stjórnmálakvenna var til umfjöllunar spurði samstarfsmaður mig hvenær fjölmiðlakonur ætluðu að stofna hóp. Ég sagði það vera góða spurningu en minntist þess ekki að hafa verið beint áreitt í starfi. Tveimur klukkutímum seinna þurfti ég ítrekað að biðja annan kollega um að hætta þegar hann ætlaði að lýsa fyrir mér kynlífsathöfn sem hann hafði stundað með konu sem ég þekki. Ég reyndi að labba í burtu en hann greip í mig eins og til að fara í gamnislag. Þegar ég svo loks skokkaði í burtu tók hann sig til og hrópaði yfir fréttastofuna að ég gæti gert þetta við einn tiltekinn samstarfsfélaga okkar sem er náinn vinur minn. Ég skalf smá og fannst ég standa nakin á miðju gólfinu. Öðrum virtist finnast þetta fyndið. 14. Ég hef átt margar fyrirmyndir í fjölmiðlum og hafði samband við nokkrar þeirra fyrir mörgum mörgum árum til þess að efla tengslanet og spyrja hvað best yrði fyrir mig að gera. Ein fyrirmyndin, miklu eldri en ég og giftur, tók vel á móti mér og ég mátti fylgjast með honum í vinnunni. Ég hitti hann tvisvar yfir kaffibolla og hann var mjög ræðinn og ráðagóður. Svo fór hann að hringja ansi oft í mig og ég hætti svo að svara honum þegar hann hringdi eitt sinn úr baði og sagðist hafa verið að hugsa um mig. 15. Ég man ég eftir a.m.k. tveimur skiptum þar sem yfirmenn á öðrum miðlum buðu mér starf og völdu að gera það við aðstæður þar sem áfengi var haft um hönd. Því fylgdi að ég væri nú alveg frábær blaðamaður en svo kom fljótt í ljós að markmiðið með því að taka þetta upp við þessar aðstæður var viðreynsla. Í annað skiptið var viðkomandi meira en 20 árum eldri en ég en starfið var mjög spennandi. Ég fylgdi því aldrei eftir því mér þótti þetta svo ofsalega óþægilegt. 16. Takk fyrir að stofna til þessarar síðu. Þetta er þörf umræða og löngu tímabær. Þegar harðgiftur eldri fréttastjóri, sem ég leit upp til og hafði ávallt átt góð og fagleg samskipti við, lætur af störfum kveður hann mig með þeim orðum að hann langi í sleik við mig í kveðjuskyni. Nýja starf hans kallaði á töluverð samskipti við fjölmiðla og mér fannst ávallt vont að þurfa að eiga samskipti við hann eftir þetta, en neyddist til þess starfs míns vegna. 17. Eiginlega allar vinnusögur sem ég á eru af ákveðnum tökumanni. Þegar ég var nýbyrjuð að vinna á fréttastofunni var hann alltaf að strjúka á mér axlirnar og standa óþægilega þétt upp við mig. Ég bað hann um að snerta mig aldrei aftur mjög hátt yfir alla fréttastofuna og síðan þá er hann með stöðugar aðfinnslur að öllu sem ég geri. Samstarfskonur hafa kvartað undan símtölum á nóttunni og enginn gerir neitt. Stundum var hann að leysa af pródúsenta yfir sumartímann og þá var hann stöðugt að áreita skriftur og promter-stelpurnar. Einu sinni kom ég inn í útsendingarherbergi og þá var hann að þrábiðja stelpu um að setjast í fangið á sér af því að það væru engir stólar lausir. Stelpan var á menntaskólaaldri og að leysa af á promter. Henni var greinilega brugðið og reyndi að koma sér undan og inn í útsendingu. Ég varð brjáluð og sagði honum að láta stelpurnar í friði og að enginn hefði gaman að þessu. Hann varð pirraður á mér og sagði að ég hefði engan húmor. Hann var bara sko aðeins að djóka í stelpunum. Létta stemninguna á vaktinni. Ég er ennþá reið við sjálfa mig að hafa ekki tekið þetta atvik lengra. 18. Á einum vinnustað var ég eini kvenkyns blaðamaðurinn og þar ríkti mjög karlægur grófur húmor sem stundum gekk ansi langt. Ritstjórinn var sjálfur mannanna verstur. Ef fólk kvartaði var það kallað væl eða fólk var „kellingar“ í niðrandi merkingu. Oft var sagt að hinn og þessi kvenkyns viðmælandi væri ríðileg. Þessi menning var þó bara ein af ástæðum þess að ég yfirgaf þennan vinnustað. Það var farið fram á mikla vinnu fyrir lág laun. 19. Ég held að mörgum okkar þyki við bæði heppnar og finnist kannski yfir litlu að kvarta ef við höfum ekki lent í ofbeldi eða líkamlegri áreitni í vinnunni. En það er auðvitað af nógu að taka ef á að fara að taka saman óviðeigandi athugasemdir og meint hrós fyrir útlit í gegnum tíðina. Að ekki sé talað um erfiða og illskiljanlega baráttu fyrir að fá greitt sömu laun og karlkyns kollegar okkar fyrir sömu vinnu. Karlkyns ritstjóri fréttastofu sem ég vann hjá færði mig til í starfi, að mér forspurðri. Hann boðaði mig á sinn fund degi fyrir mánaðarmót, hringdi í mig og sagði að fundurinn gæti ekki beðið. Ég var því viðbúin því að hann ætlaði að segja mér upp störfum og hann lét að því liggja að það hefði staðið til en aðrir samstarfsmenn hefðu hvatt hann til að gera það ekki. Hann sagðist því ætla að gefa mér eitt tækifæri. Ég hafði þarna unnið við fjölmiðla í 12 ár. Það fyrsta sem hann sagði á fundi okkar um fyrirhugaðar breytingar var að ég væri með allt of há laun (ég veit fyrir víst að karlkyns samstarfsfélagar mínir voru með sambærileg laun eða hærri). Þar sem hann gæti ekki lækkað launin mín yrði ég að standa mig og taka að mér meiri ábyrgð fljótlega til að réttlætanlegt væri að greiða mér þessar himinháu upphæðir í hverjum mánuði. Að lokum sagði hann að ég væri í raun mjög heppin, og taldi svo upp nöfn þó nokkurra fjölmiðlakvenna sem hafa staðið sig afar vel í sínum störfum en áttu, að hans sögn, það allar sameiginlegt að hafa fengið sitt fyrsta tækifæri undir hans leiðsögn. 20. Fyrsta starfið sem blaðamaður var á litlum fjölmiðli þar sem eingöngu voru karlar í ritstjórn. Þeir tóku mér afskaplega vel og kenndu mér margt. Á fjölmiðlinum hafði hins vegar starfað lausapenni sem hafði beðið um fastráðningu áður en ég var ráðin og ekki fengið. Hann tók ráðningu minni ekki vel. Hann kallaði mig aldrei annað en „stelpuna“. Dæmi: „Á ég að skrifa um þetta, eða ætlar stelpan að gera það?“ Ég hitti þennan mann aldrei, því hann var ekki með aðstöðu á skrifstofunni, en var stundum í tölvupósts- eða símasambandi við hann. Eitt sinn þegar ég var á vettvangi elti hann mig og tók myndir af bílnum sem ég var á og sendi yfirmanni mínum, því hann var viss um að ég væri að svíkjast undan í vinnunni. Yfirmaður minn gerði rétt og sagði mér frá þessu, og þessi maður fékk ekki fleiri verkefni hjá miðlinum. 21. Ég gæti tilheyrt mörgum svona hópum og komið með sögur, t.d. í banka-, sölustörfum, skrifstofustörfum og sem þjónn. Langoftast hafði það að gera að vín var haft um hönd og giftir menn gengu óþægilega langt, „fulli karlinn sem er bara alltaf svona“ eða miklu eldri karlar að strjúka mér um rassinn þegar ég þjónaði til borðs og spyrja mig hvort ég gæti ekki hitt þá eftir vinnu. 22. Eftir samfagnað eitt haustið fór stór hluti hópsins niður í bæ á skemmtistað. Þar leitaði ein stór fyrirmynd mín, giftur og miklu eldri, stanslaust á mig, sama hvað ég færði mig úr stað og forðaðist hann. Hann elti mig eins og bráð og hætti ekki fyrr en annar karl setti mig í hálfgert skjól og annar kom honum heim í leigubíl. Það sáu þetta allir og ég var reyndar ánægð með félaga mína þarna. Þegar hann var svo farinn sagði ein samstarfskona mín: „Það lendir alltaf einhver í honum í hvert sinn. Núna varst það þú.“ 23. Í starfi mínu í dag, þar sem ég ræð mér sjálf og mínum verkefnum, gerist öðru hverju að (einmitt) miklu eldri menn í félagsskap með eintómum körlum kalla mig sætu stelpuna með myndavélina og ég hef oft verið beðin um að koma skilaboðum til yfirmanns míns (sem er ekki til) ef menn eru ósáttir við eitthvað eða vilja fá að tala við einhvern karl. Ég vil taka fram að langflestir sem ég hef haft það tækifæri að vinna með og fá innsýn inn í verkefni og störf hjá eru yndislegt fólk, konur og karlar á öllum aldri, og mikil fagmennska hefur ríkt og ég bæði rekið mig á og fundið styrkleika mína. 24. Eitt mjög nýlegt dæmi. Þekktum manni er boðið í viðtal til mín og samstarfs manns míns. Þegar hann mætir í hús fer ég og tek á móti honum. Hann heilsar mér með þeim orðum hvað ég sé rosalega sæt. Og talar bara um það þar til ég bið hann um að hinkra frammi þar til röðin komi að honum. Eftir smástund kemur hann inn í stúdíóið til okkar og byrjar að taka af mér myndir með þeim orðum að ég sé svo sæt. Samstarfsmaður minn var sem betur fer fljótur að átta sig á aðstæðunum og leiddi manninn fram með þeim orðum að við myndum sækja hann þegar til þess kæmi. Viðtalið fór svo fram og ég lét sem ekkert væri, enda erum við ekki vanar að vera með vesen. 25. Flestir, ef ekki allir, samstarfsmenn mínir í dag eru blessunarlega yndislegir og bera virðingu fyrir okkur fréttakonum. Hlutirnir voru örlítið erfiðari þegar ég starfaði sem skrifta, en þá voru einn eða tveir sem komu reglulega óþægilega nálægt manni og hlógu svo að því að þeim hafi tekist að láta mig roðna. Nú eða þeir sem sögðust vera með skriftublæti. Ef ég var fín í vinnunni þá báðu þeir mig að snúa mér í hring eða sögðust alls ekki geta unnið með mig svona. Alls kyns bögg varð bara hluti af starfinu en ég veit að skriftustarfið er nú orðið mun betra í dag. Sem fréttamaður hef ég hins vegar lent í alls konar skrýtnu með viðmælanda. Eitt sinn tók ég viðtal við mann á áttræðisaldri sem er fyrrum alþingismaður. Viðtalið var tekið fyrir utan heimili hans en hann heimtaði að ég kæmi með sér aðeins inn fyrir til að ræða málin áður en viðtalið byrjaði. Ég reyndi fyrst þetta kurteisa „ég er á skónum, eigum við ekki bara að fara yfir þetta í anddyrinu“ en hann hélt nú ekki og hlammaði sér í hægindastól svo ég settist á móti honum. Þá setti hann vinstri löppina upp á stólarminn, og sat útglenntur beint á móti mér, á meðan hann spurði mig hvaða gráður ég væri með og hvaðan fallega nafnið mitt kæmi. Ég fraus og varð eiginlega orðlaus. Það eina sem ég hugsaði um allan tímann var að leyfa honum ekki að slá mig útaf laginu, horfa beint í augun á honum og aldrei niður á útglennt klofið. Ég næ að koma honum út úr húsi 10-15 mínútum síðar (hann sat útglenntur allan tímann) og þegar viðtalið er að hefjast segir tökumaður við mig að ég ætti að fara aðeins nær honum með míkrafóninn. Þá segir viðmælandinn „Æ, já gott að fá þig nær, núna í dag þorir maður varla að brosa til kvenmanns þá er það orðið áreiti, svo endilega komdu nær“ og glotti mikið. Þetta var hrikalega óþægilegt viðtal. Ég er ýmsu vön en þetta situr í mér og ég sé ennþá eftir því í dag að hafa ekki látið gamla manninn heyra það. 26. Ég vann lengi vel á mjög karlægum vinnustað. Var nánast eina konan. Ég var sem betur fer laus við áreitni samstarfsmanna í minni deild (aðeins einn sem fór yfir strikið í samskiptum) en hins vegar átti ég mjög erfitt með hversu karlægt umhverfið var og lítið gert úr mér þegar ég reyndi að brydda upp á mikilvægi fjölbreytileika og að kynin skiptu bæði máli, ekki bara karlar. Ég var þessi sem var með vesen, vissi ekkert um hvað ég var að tala og lifandi sönnun þess að það var miklu betra að hafa bara karlmenn á þessum vinnustað. Það var ekki sagt beinum orðum (ekki langt frá því þó) en það var augljóst á viðbrögðunum sem ég fékk þegar jafnréttismál báru á góma. 27. Fyrrverandi framkvæmdastjóri fjölmiðlafyrirtækis áreitti svo margar kvenkyns starfskonur, (með því að kommenta á vaxtarlag, segjast hafa verið að hugsa um viðkomandi við undirritun starfsmannasamnings, senda óviðeigandi skilaboð á Facebook, reyna við á árshátíð rétt áður en konan hans mætti á svæðið og svo mætti lengi telja) að ég hefði nánast mátt taka það persónulega að hafa ekki lent í honum þannig. (Augljóslega grín!) Sögurnar eru ótalmargar og hafa gengið um í fjöldamörg ár en hann komst upp með að halda starfi sínu jafnvel eftir að ég heyrði að hann hafi látið konu fjúka sem vildi ekki sofa hjá honum. 28. Fyrir nokkrum árum veiktist ég alvarlega og fitnaði mikið í framhaldinu. Eftir það fékk ég stanslausar athugasemdir um útlitið mitt og klæðaburð og það þykir enn fyndnara þegar sem flestir eru í kring og geta hlegið með að mér.Ein athugasemdin var á þessa leið frá yfirmanni mínum: „Hvernig gengur að bera allt ljósmyndadótið þitt með svona rosalega stóran rass, það hlýtur að vera rosalega erfitt?“ Aðrir ljósmyndarar tóku myndir á íþróttaviðburðum og höfðu stundum myndir af bakhlutanum á mér með í myndaveislum „því það var svo ógeðslega fyndið hvað ég er með ógeðslega stórt rassgat.“ Eftir að ég fékk viðeigandi sjúkdómsgreiningu og lyf grenntist ég aftur. Ég hef setið nokkra fundi undanfarið útaf mínum málum og það er enn verið að minnast á útlitið á mér. Hvað ég sé breytt, hvað ég sé orðin grönn og hvað hafi nú eiginlega gerst fyrir mig með handahreyfingum og undrunarsvip á andlitum og bætt við „og það eru allir að tala um það.“ Ég er ekki að mæta á þessa fundi til að tala um útlitið mitt. Ég mæti á þessa fundi til að vonast til þess að ná til yfirmanna svo þeir taki almennilega á málum þannig að fólk sé ekki í hættu, líði illa eða þurfi að flýja þennan starfsvettvang vegna eineltis og ofbeldis. 29. Einu sinni tók ég viðtal við eldri mann sem hafði dottið út af þingi. Þegar viðtalinu var að ljúka vildi hann endilega leyfa mér að hlusta á lag sem var honum kært. Á meðan ég sat og hlustaði á þetta lag færði hann sig nær og fór að strjúka á mér hendurnar. Ég gerði mig líklega til að fara en hann ítrekaði að ég yrði að heyra lagið. Ég dreif mig síðan út, en þá byrjaði hann að hringja á eftir mér inn á ritstjórnina og segja mér að koma aftur, því ég hefði gleymt einhverju. Ég afþakkaði það og henti viðtalinu. 30. Þegar ég vann blaðamannaverðlaunin fyrir nokkrum árum fékk ég að heyra frá karlkynskollega að ég hefði unnið vegna þess að ég var kona. Ekki vegna þess að ég leiddi eitt stærsta fréttamál ársins. 31. Ég var fyrsta árs nemi í Blaða- og fréttamennsku þegar ég vann frétt fyrir stúdentavefinn um e-ð mál sem tengdist einum stærsta kaupsýslumanni landsins, þá tæplega sjötugum. Ég beið eftir því að hann og dóttir hans (hans hægri hönd) kæmu út af fundi og spjallaði stuttlega við hann, á göngu, og bað hann svo að stoppa svo ég gæti tekið mynd á símann minn. Þegar ég tók svo aðra mynd, til vara, glotti hann, blikkaði mig og spurði hvort mig langaði svona mikið í mynd af honum á náttborðið mitt? Og dóttur hans virtist ekkert þykja þetta óþægileg athugasemd. Í lokaverkefni mínu í þessu námi tók ég m.a. útvarpsviðtal við gagnkynhneigðan, einhleypan karl heima hjá honum (hann tók á móti mér í náttbuxum og hlírabol) en uppgötvaði við klippingu að mig vantaði svar við einni „krúsjal“ spurningu frá honum svo ég bað um að fá að koma heim til hans aftur til að taka upp þetta eina svar. Hann svaraði því til að það væri sjálfsagt, hann vissi að þetta væri samt bara yfirskin til að fá að hitta hann aftur. Ég snöggreiddist og sagðist aldeilis engan áhuga hafa á honum og ef hann gæti ekki haldið okkar samskiptum á faglegum nótum þá myndi ég bara sleppa þessu. En þá hafði hann „vitaskuld“ bara verið að grínast og ég alltof viðkvæm. Hef aldrei þolað það síðan ef það er haft í flimtingum að ég hafi annars konar áhuga á karlkyns viðmælendum en faglegan þegar ég sækist eftir því að tala við þá. 32. Hann var giftur. Og ritstjóri á stórum fjölmiðli. Samskipti okkar hófust þegar hann sendi mér póst og spurði hvort að ég væri ekki vel ritfær. Ég (kokhraust) hélt það nú. Ég fór að skrifa fyrir hann. Og póstarnir frá honum fóru frá því að vera ópersónulegir til þess að mér væri hrósað fyrir útlit mitt og kynþokka. Gott og vel. Ég féll fyrir þessum manni. Ég harðneitaði að eiga í sambandi við hann nema hann kæmi sér út úr hjónabandinu (sem hann gerði svo að lokum). Ástæða skilnaðar okkar nokkru seinna var einmitt af sömu ástæðu: Hann sagðist vera ritstjóri og bauð þokkafullum konum að skrifa hjá sér...og er sennilega enn við sömu iðju. 33. Ég átti ég að mæta í ljósmyndaverkefni fyrir dagblað 9 um morgun. Ég samþykkti að taka að mér verkefnið og spáði svo ekkert meira í því fyrr en ég fékk símtal frá yfirmanni mínum klukkan 1 um nótt en ég átti að mæta í verkefnið morguninn eftir. Í símtalinu að þá sagði hann mér að hann hefði séð á Facebook að ég væri ennþá vakandi og húðskammaði mig fyrir að vera ennþá vakandi vegna þess að ég væri fyrir að fara að vinna fyrir blaðið og til þess væri ætlast að ég myndi mæta í verkefnin úthvíld svo ég myndi ekki skila af mér sama drasli og venjulega. Ég var þá 38 ára gömul og hafði aldrei mætt of seint og hafði ég aldrei ekki skilað mér í verkefni fyrir miðilinn á þeim 3 árum sem ég starfaði fyrir þau. 34. Virtur og harðgiftur eldri útvarpsmaður, sem gistir á sama hóteli og ég vinnu okkar vegna, ræðst fyrirvaralaust á mig þar sem við erum samferða í lyftunni og treður tungunni á sér ofan í kok á mér samtímis því sem hann þuklar á mér. Nauðar í mér að hann verði að fá að sofa hjá mér þó hann sé giftur. Mér rétt tekst að slíta mig lausa úr krumlum hans og flýja inn á herbergi logandi hrædd eftir árásina. Hafði fram til þessa aldrei átt annað en vinsamleg og fagleg samskipti við manninn, en óttaðist hann lengi á eftir. 35. Einu sinni voru ég og tökumaður að aka á leið í viðtal þegar hann snarhemlaði. Ég hélt að eitthvað hefði komið fyrir eða að barn hefði hlaupið fyrir bílinn en nei ó nei, hann sagðist þurfa að horfa á rassana og brjóstin á stelpum sem voru þarna á gangi, þær væru svo helvíti ríðulegar - ullabjakk. 36. Ég hef íhugað í allan dag hvort ég eigi að setja inn mínar sögur. Þetta er jú lítið samfélag og það er merkilegt hvað maður er í raun upptekinn af því að vernda þá sem fara langt yfir strikið í áreitni. Einu sinni var eitthvað starfsmannapartý sem endaði á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Þar, úti á miðju gólfi og fyrir framan fjölmörg vitni, kom samstarfsmaður minn, á aldri við foreldra mína, og tróð tungunni ofan í kokið á mér. Sauðdrukkinn og leiðinlegur auðvitað. Ég fékk sjokk og þáverandi kærasti varð náttúrulega alveg brjálaður og það sauð næstum upp úr en ég dró hann í burtu til að gera nú ekki meira mál úr þessu. Ég man hvað ég kveið því að hitta hann á vaktinni aftur. En viti menn, hann lét eins og ekkert væri. Ég bara skildi ekki að hann skyldi ekki vera gjörsamlega miður sín yfir ósæmilegri hegðun. Og eiginlega er það verra, einhvern veginn eins og hegðun þeirra hafi ekki verið neitt óviðeigandi á nokkurn hátt og tilfinningar mínar skipti engu máli. Nokkrum árum síðar bauð hann mér vinnu. Sem ég þáði. Það finnst mér einhvern veginn svo lýsandi fyrir þetta skrítnu stöðu sem maður er í stundum. Og ég hef oft hugsað um það og verið með samviskubit yfir því. Í öðru tilfelli var ég ásamt tveimur karlmönnum eftirlegukind í samkvæmi, sem var ekki vinnutengt en ég vann með öðrum þeirra um skamma hríð. Báðir menn miklu eldri en ég. Ég ákveð svo að drífa mig heim og það þarf að taka lyftu niður úr húsinu. Þá kemur þessi samstarfsmaður askvaðandi og drífur sig inn í lyftuna með mér. Skömmu eftir að lyftan er lögð af stað ýtir maðurinn á takka sem stoppar lyftuna, pinnar mig upp við vegg og treður tungunni ofan í mig og segist vilja ríða mér. Ég var logandi hrædd og gjörsamlega frosin og man ekki alveg hvernig það atvikaðist að lyftan fór aftur af stað og ég reif mig lausa og hljóp út. Á sama hátt og í fyrra tilvikinu kveið ég mikið fyrir því að sjá hann í vinnunni, en surprise, surprise, hann lét eins og hann þekkti mig ekki. Sem betur fer stóð nálægð við hann á vinnustað ekki lengi yfir. Þetta atvik sat í mér lengi því þarna upplifði ég mig í raunverulegri hættu. Þriðja sagan er meira svona absúrd. Ég var að fara til útlanda í vinnuferð, bara ég og tökumaður sem var giftur og með börn. Sá átti að sjá um að bóka hótel. Ég treysti því bara. Ég man ekki nákvæmlega hvenær það kom svo í ljós að hann bókaði EITT HERBERGI fyrir okkur bæði „því það var bara eitt laust!“ Mér varð frekar brugðið en það var mjög mikilvægt að við yrðum á þessu tiltekna hóteli svo ég ákvað nú að finna út úr þessu á staðnum. Ég var með hnút í maganum þar til við gengum inn í herbergið og okkur að óvörum og greinilega honum til óánægju var búið að troða litlum barnakojum í anddyri herbergisins. Ég sagði nú strax HJÚKK ég sef þá hér en vonbrigði hans leyndu sér ekki. Alla ferðina var hann svo að gefa í skyn að við ættum nú bara að sofa bæði í rúminu og reyndi að hella mig fulla við hvert tækifæri. Ég gerði mér upp mikla þreytu og fór heim á undan honum en þurfti einu sinni segja honum að vera í sínu rúmi þegar hann kom heim. Síðar frétti ég að hann væri að vinna í því að koma með mér til útlanda í aðra vinnuferð. Þá fór ég á fund yfirmanna og sagði bara hell no að ég fari með honum út aftur og það var bara tekið gott og gilt. Jæja þá er þetta komið út í kosmósið. Þetta eru þær sögur sem eru bein áreitni, en hef auðvitað oft upplifað skeytingarleysi eða að síður sé tekið mark á mér á hinum og þessum vinnustöðum. 37. Oft var talað um að einhverjir væri að fá það eða að frétt væri svo góð að það væri hægt að runka sér yfir henni, talað um að sleikja píkur eða sjúga belli til að ná frétt og annað í þeim dúr. Orðbragð á ritstjórn oft mjög ósæmilegt eins og tala um guggur sem þyrfti að negla eða hversu ríðuleg hin og þessi var. Svo var það myndatökumaðurinn sem tók alltaf fókus af konum með því að súmma inn á brjóstin á þeim eða talaði ekki um annað en rassa, píkur og brjóst á hinum og þessum sem maður var að taka viðtal við. Nú eða samstarfsfélaginn sem káfar alltaf á mér þegar hann er í glasi og klípur í allar konur sem hann kemst nærri. Eða þessi sem rassskellti mig fast á miðjum degi á fréttastofunni, bara svona upp úr þurru. Eða fréttamennirnir sem skiptust á sögum um júllur og mældu allar fréttir í skálastærður (þessi frétt var ekki nema 34A). Listinn er langur. Staðan hefur samt skánað helling síðustu 4-5 ár eða svo og þakka ég það umræðunni síðustu ár. 38. Ritstjóri á fjölmiðli sem ég vann einu sinni á var mjög oft einstaklega óviðurkvæmilegur. Hreykti sér að kynlífi sínu og reyndi ítrekað að koma að kynferðislegum athugasemdum, sem yfirleitt voru úr takti við umræðuna sem var í gangi. Einu sinni var fjöldi mynda af typpum inni í myndakerfinu hjá okkur, vegna umfjöllunar sem annar blaðamaður var að vinna. Ég rakst á þessar myndir og varð á að segja um eina þeirra að ég teldi að þetta hlyti nú að vera feik. Enginn væri með svo stórt typpi. Ritstjórinn kom að sjálfsögðu hlaupandi, kíkti á myndina og spurði mig: „Hva, ertu með svona þrönga píku?“ Þetta sagði hann yfir alla ritstjórnina. Ég verð sjaldan kjaftstopp, en það gerðist þarna. Sami ritstjóri spurði mig ítrekað, þegar ég tók viðtöl við karlmenn, hvort ég hefði sofið hjá þeim. Þá bað hann oft sérstaklega um að ég fengi kvenkyns viðmælendur til að vera í þröngum fötum við myndatökur. Ég veit að þessi ritstjóri hafði engan áhuga á mér kynferðislega og finnst mikilvægt að halda því til haga að kynferðisleg áreitni felst ekki bara í því að einhver reyni að komast yfir mann. Hún felst líka í óviðurkvæmilegum athugasemdum og ógeði sem maður þarf stundum að þola. 39. Ég á svo margar svona sögur en það er eiginlega fyrst að renna upp fyrir mér núna, við það að lesa sögurnar ykkar, hvað maður hefur látið mikið yfir sig ganga. Get t.d. nefnt samstarfsfélagann sem tjáði mér það í glasi, fullur fyrirlitningar, að ég ætti ekkert að vera að skrifa pistla; það væri öllum skítsama um skoðanir mínar. Skömmu seinna gekk hann upp að mér í vinnunni og kyssti mig rembingskossi beint á munninn til að óska mér til hamingju með afmælið. Ég var svo hissa að ég bara fraus en varð svo öskureið því mér fannst hann hafa smættað mig og tekið eitthvað frá mér með valdi, á meðan ég átti engin svör eða úrræði vegna hegðunar hans. Mig langar líka að nefna annað, því mér finnst það til marks um það hversu erfitt þetta er viðfangs, og það er þegar giftir samstarfsfélagar hafa verið að reyna fyrir sér. Ég hef svo sem ekki kippt mér upp við viðreynslurnar sem slíkar en það er ömurleg tilfinning að hitta svo konurnar þeirra og upplifa þá tilfinningu að ég sé einhvern veginn samsek af því að maðurinn þeirra káfaði á mér. Og líka að upplifa að þurfa að þegja um það til að valda þeim ekki vandræðum heima fyrir. Þá þykir mér sorglegt að það er ekki kynferðislega áreitnin sem hefur sviðið mest; maður er (því miður) orðinn vanur henni frá unga aldri. Það sem hefur verið sárast er að upplifa að vera mismunað varðandi laun og stöður vegna þess að maður er kona. Fokk that shit. 40. Þegar ég var nýbyrjuð fór ég í tökur með eldri tökumanni, við vorum að taka viðtal við unga konu, ekki tvítuga, sem var meðal annars mjög falleg. Þegar út í bíl var komið sagði hann eitthvað um það hvað hann væri til í að ríða henni. Ég benti honum á að mér þætti óþægilegt að heyra svona, hann mætti eiga þetta alveg fyrir sjálfan sig, og svo spurði ég, því ég þekki fyrrverandi konuna hans: Er ekki yngri strákurinn ykkar jafngamall henni? Þá kom aðeins á hann, að ég skildi nefna hana, og hann sagði mér sko að hann væri með reglu að fara ekki neðar en strákarnir hans væru gamlir. Ég hló bara. Þegar ég kom aftur í hús talaði ég við pródúsentinn minn, þarna var ég búin að vera að vinna þarna í stuttan tíma, og „vildi ekki vera með vesen.“ Svo ég spyr hvort ég geti séð tökumannavaktirnar, og hagað tökunum mínum eftir því því að ég hefði lent í óþægilegu atviki. Pródúsentinn spyr mig með hverjum, og fyrst vil ég ekki segja - en hann spyr hvort það hafi verið þessi kall. Og þá fæ ég nokkrar sögur af viðbjóði af honum - og að stelpurnar vilji helst ekki vinna með honum. Ég hneykslast á því að maðurinn haldi vinnunni, en hagræði tökum mínum í kringum vaktir tökumannanna allan tímann sem ég er þarna. Veit til þess að hann er ennþá vinnandi, og að hegðun hans er alræmd og allir vita hvað er í gangi. 41. Fyrir allnokkrum árum var samstarfsmaður minn að horfa á gróft klám í vinnutölvunni sinni, eins og ekkert væri eðlilegra. Hann var þekktur af því að horfa á klámfengið efni á vinnutíma. Ég var á vakt og rak í þetta augun, en á leiðinni á mína vinnustöð þurfti ég í opnu rými að ganga framhjá manninum sem sneri baki í mig og skjárinn því fram. Honum var slétt sama þótt fólk væri í kringum hann. Myndefnið setti mig verulega úr jafnvægi og jók enn á óþægindin að ég var á leið í beina útsendingu. Ég setti strax ofan í við manninn og gekk eftir útsendingu á fund yfirmanns hans, sagði að mér væri slétt sama hvað hann gerði heima hjá sér, en að horfa á klám í vinnunni væri ólíðandi. Maðurinn var mildilega tekinn á teppið í framhaldinu. Ögn síðar fann hann sér viðhlæjendur, taldi að það væri nú aldeilis viðkvæmnin í sjónvarpskonunni, uppdiktaði einhverja sögu og kvað það hafa verið algera tilviljun að rata inn á klámsíðu. Blaðamaður nokkur sem hlustaði ákvað að skrifa þessa ,,tilviljun” með háði inn á síðu eins stærsta dagblaðs landsins. Ritstjórinn gerði ekki athugasemd og fullyrti eftir á að þetta hefði farið framhjá sér. Mjög ófaglegt og niðurlægjandi umhverfi. Sem betur fer væri þetta ekki liðið í dag. 42. Þegar ábyrgð mín og viðvera við sjónvarpsþátt sem ég vann við vað meiri en um var samið langaði mig í eðlilega launahækkun, sérstaklega þegar ég frétti hvað strákurinn sem sat við hliðina á mér fékk mikið. Sá samstarfsmaður stendur þétt við bakið á mér í gegnum þetta allt. Ég bið um fund með dagskrárstjóra - segi að ég vilji hækkun á launum, því þegar við erum tvö föst í þættinum sé jafnræðið það mikið hvort eð er. „Hann er búinn að vinna hér svo lengi.“ Við erum með jafnlanga reynslu af vinnu við fjölmiðla, ég er með stúdentspróf ekki hann auk þess sem fyrirtækið borgaði MBA-námið hans. Þau ætla að hugsa málið og ég fæ nýjan fundartíma, á afmælinu mínu. Þegar ég kem á hann er dagskrárstjórinn hvergi sjáanlegur, hann gleymdi fundinum. Fulltrúi hans segir að það sé bara alls ekki hægt að hækka launin mín og spyr svo: „Veistu hvað eru margar stelpur sem myndu vilja vera í þessari vinnu?“ Ég sagði þá bara að það yrði þá lítið mál að finna einhverja í minn stað og tilkynni að ég ætli að vinna út mánuðinn og sé svo farin. 43. Fyrir 11 árum hóf ég störf sem blaðamaður og fór að vinna hjá stóru fjölmiðlafyrirtæki. Ég var vöruð við ákveðnum ljósmyndurum sem voru víst pervertar. Þetta var bara sagt við mig eins og ekkert væri eðlilegra um leið og mér var bent á hvar mötuneytið og prentarinn var staðsettur. Innan mánaðar byrjaði áreitni sem snérist um að benda mér á í hverju ég var ef ég var að tala fyrir framan hóp af fólki: „Er þér ekki kalt í klofinu í þessu stutta pilsi?“ og „Leyfðu mér að sjá hvað stendur á rassgatinu á þér“ (gallabuxur með lógó) - ég endaði á því að forðast að tala ef ákveðnir pervertar voru á svæðinu. Ég sagði upp starfi mínu hjá þessu fyrirtæki þegar mér var neitað um launahækkun eftir meira en ár í starfi á svipuðum tíma og 23 ára strákur án stúdentsprófs var ráðinn á tímarit á sama fjölmiðli með 25% hærri laun en ég, sem var með lengri starfsaldur og háskólagráðu. Mér var tjáð að ef laun mín yrðu hækkuð um 10 þús kall gæti fyrirtækið farið á hausinn, það stæði nefnilega svo illa. Komst að því síðar að flestir karlar þarna voru með þreföld laun á við mig. Svo þegar ég fór að skrifa pistla og fréttir á öðrum fjölmiðli og eitthvað af því fékk góðan lestur þá komu athugasemdir frá körlum á ritstjórn: „Magnað hvað fólk nennir að lesa mikið rugl“ og „Fólk smellir bara því þú ert sæt.“ Ef Alþingisrásin var í gangi voru þingkonur í pontu kallaðar: „Feitar mellur“ og „hórur“ og ALLTAF kallaðar „kerlingar.“ Og hlegið að klæðaburði. Þegar ég gerði athugasemdir við þetta var ég sögð viðkvæm, kölluð femínisti (eins og það sé móðgun lol) og þeir urðu fúlir og jaðarsettu mig þannig að þeir hættu að tala við mig. Þegar ég gekk inn á ritstjórn var sagt: „úú, passið ykkur, femínistinn er mættur.“ Ég sagði upp stuttu síðar. 44. Skrifaði langa fréttaskýringu með karlkyns samstarfsmanni sem vakti talsverða athygli. Útvarpsmaður hafði samband við samstarfsmanninn og spurði hvort við værum til í að koma í viðtal um greinina. Í viðtalinu yrti útvarpsmaðurinn varla á mig, heldur beindi öllum spurningum til samstarfsmannsins. Án djóks, ég þurfti að grípa fram í fyrir þeim svo ég fengi að segja nokkur orð í viðtalinu. Þess má geta að ég er með talsvert lengri fjölmiðlareynslu en samstarfsmaðurinn. 45. Alþekkt er að konur er smættaðir í útlit sitt og það er vel þekktur veruleiki fjölmiðlakvenna í sjónvarpi. Reynsla, menntun eða fagmennska er aukaatriði – útlitið fyrst og fremst. Karlar komast upp með allskonar útlit – konur ekki. Þegar ég starfaði á sjónvarpsstöð fyrir nokkrum árum varð mér fljótt ljóst að karlkyns yfirmönnum og valdatýpum þar var full alvara með að konur ættu fyrst og fremst að vera sætar og mjóar. Ummæli og staðhæfingar þess eðlis voru margoft höfð við í fullri alvöru. Til dæmis komu einu sinni nemar í fjölmiðlafræðinni í starfskynningu, var náttúrulega hent í fulla vinnu í nokkra daga frítt. Jæja, ein ung kona þar skaraði fram úr svo eftir var tekið, enginn byrjendabragur á hennar framlagi. Ég benti yfirkörlum á þetta – það var þörf á fleira starfsfólki í afleysingar. Þeir drógu seiminn en sögðu svo alveg kaldir að hún myndi allavegana aldrei fara í sjónvarpið. Hún væri feit og ekkert fyrir augað. Ég varð bara kjaftstopp. Þarna voru yfirmennirnir karlar og höfðu það eitt til málanna að leggja við mig og aðrar konur sem þarna störfuðu hvernig við ættum að líta út. Efnislegar ráðleggingar engar - bara ábendingar um útlit og klæðaburð. Þetta er svo svívirðilegt viðhorf karla sem fara með völdin í faginu. Algerlega óþolandi, niðurlægjandi og skemmandi. 46. Þegar ég var nýbyrjuð að vinna í fjölmiðlum gefa tveir karlkyns kollegar út sjálfshjálpargrínbók. Þar var stungið upp á að ef ég vildi ná langt í þessu, „verða frægari,“ ætti ég að vippa í í eitt „goodshit hálftíma kynlífsmyndband,“ og ekki væri verra ef einn gamall fjölmiðlamaður myndi joina. Þetta fannst mér gríðarlega óþægilegt og fáránlegt, og í alvöru jaðra við áreitni - ef þetta hefði verið sagt við mig beint væri það tvímælalaust áreitni - en af því þetta var gefið út á prenti var ég bara húmorslaus og leiðinleg að þykja þetta ekki upphefjandi heiður. Þess má þó geta að annar mannana sem þetta skrifaði hefur sett sig í samband og vill biðjast afsökunar, og segir að brandarinn sé ósmekklegur og ekki fyndinn, og yrði aldrei prentaður í dag. Hinn heldur ennþá á lofti gríntjáningarfrelsinu og jákórinn jarmar með. 47. Ég man vel eftir tökumanninum sem við fréttakonurnar forðuðust að bóka en þurftum þess auðvitað þegar enginn annar var laus. Það fannst bara öllum konunum óþægilegt að vera nálægt honum. Tökumennirnir voru alltaf bílstjórarnir þegar við fórum út í viðtöl og mér er sérstaklega minnistæð saga frá samstarfskonu minni sem var varla sest inn í bílinn til hans í nístandi frosti og hann horfði glottandi á hana og spurði: Viltu fá heitt í rassinn? Þetta var sumsé hans leið til að spyrja hvort hún vildi að hann kveikti á sætishitaranum. 48. Ég fór líka fyrir nokkrum árum erlendis í vinnuferð með tökumanni og hann hætti ekki að tala um hvað það hefði nú verið fáránlegt af pródúsentinum að panta tvö hótelherbergi fyrir okkur - við þyrftum auðvitað bara eitt. Eftir nokkrar svona athugasemdir snöggreiddist ég og sagði honum að þetta djók hans væri ógeðslega óviðeigandi í vinnuferð og bað hann að hætta þessum perrakommentum. Hann hélt sig á mottunni gagnvart mér eftir það en sögurnar eru ansi margar og hann gengur bara á línuna. Ömurlegt dæmi. 49. Giftur íþróttafréttamaður sem var að fjalla um stórmót erlendis fyrir nokkrum árum fyrir sinn miðil leiddist greinilega töluvert á kvöldin og byrjaði að spjalla við mig í gegnum Facebook. Allan tímann reyndi hann að koma inn einhversskonar kynferðislegum athugasemdum eða reyndi að fá spjallið þannig að það myndi snúa um kynlif. Ég hafði engan áhuga á því og náði að eyða þessu með tímanum. Svo vorum við á sama leik í úti á landi og þegar ég er komin heim að þá fékk ég símtal frá honum um hvort hann mætti koma í heimsókn? Ég spurði undrandi: Í heimsókn, af hverju í ósköpunum ættir þú að koma í heimsókn? Já, hann svaraði að það gæti verið gott að hafa góða að til að hjálpa mér að komast að hjá fjölmiðlafyrirtækinu sem hann starfaði hjá. 50. Ég vann með reynslumiklum fréttamanni sem var virtur út á við í sínu fagi. Hann gaf og gefur sig enn út fyrir að vera mikill femínisti og talsmaður kvenfrelsis. Hann bað mig gjarnan um að horfa á sjónvarpsfréttir sem hann hafði unnið áður en þær færu í loftið svo ég gæti komið með hugmyndir að úrbótum ef ég vildi. Mér brá því nokkuð þegar ég heyrði frá karlkyns samstarfsmönnum mínum að hann talaði mikið niðrandi um konur og hversu ríðulegar þær væru. Þetta gerði hann jafnvel þegar viðkomandi kona var aðeins einum glervegg frá þeim þannig að allir viðstaddir sáu konuna á meðan hann var að tala niðrandi um hana. Við þetta bættist síðan að tökumenn, sem voru allir karlkyns, fóru að tala um hvað það væri óþolandi að fara með þessum fréttamanni í viðtöl því hann væri stöðugt að tala um hvernig hann langaði að ríða konunum sem hann var að taka viðtal við. Mörgum fannst líka óþægilegt að hann var mikið að setja hendina ofan í buxurnar sínar til að hagræða limnum bara svona á meðan hann var að spjalla við fólk. Honum var á endanum sagt upp. Uppgefin ástæða var skipulagsbreytingar en ég veit að hluti af ástæðunni var sá fjöldi fólks sem hafði kvartað undan honum. 51. Helsta áreitnin, sem ég hef orðið fyrir í störfum mínum á fjölmiðlum hefur verið í gegnum tölvupósta og símtöl í kjölfar þess að ég hef skrifað skoðanapistla um jafnrétti og femínisma. Hér er eitt dæmi (b.t.w.: ég geymi ALLA þessa pósta og stafsetningin er sendandans): Heil og sæl, það versta við ykkur Femínista er að þið virðist vita lítið. Þið þurfið að ríða meira og þá vitiði kannski meira. Þegar ég var í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku fyrir nokkrum árum vorum við í starfsnámi á fjölmiðlum. Á einum staðnum, sjónvarpsstöð, spurði gamalreyndur fréttakarl: Eru ekki bara miðaldra kellingar í þessu námi? Svona kellingar sem enginn er að fara að ráða í vinnu á fjölmiðli? (N.b. hann var miklu meira en miðaldra ..) Svo hló hann og hló, enda rosa fyndinn. Ég (sem var 38 ára og pottþétt miðaldra í hans augum) benti þessum hressa kalli á að á hans vinnustað ynnu nánast engar miðaldra konur, þetta væri akkúrat hópurinn sem vantaði í þessa starfsgrein og þess vegna alveg ljómandi gott að þær væri að læra þetta fag. Svarið var: Af hverju? Konur á þessum aldri eiga ekkert erindi á skjáinn. 52. Mig langar fyrst að þakka öllum konum sem hafa deilt reynslusögum hér á þessari síðu. Að segja frá er óendanlega mikilvægt. Og að finna samkenndina hér á þessum vettvangi er ómetanlegt. Það er ástæða til að ítreka hvað það skiptir miklu máli að fá þessar sögur fram. Í samtölum undanfarið við konur í þessum hópi hef ég fundið að sumar eru hikandi að stíga fram og þá er ástæðan oft hræðsla við að aðrar konur í hópnum gætu þekkt viðkomandi geranda í þeirra sögum, enda er fjölmiðlaheimurinn tiltölulega lítill og mörg sambönd hafa orðið til innan hans. Mig langar svo að minna á að það er einmitt þvert á móti full ástæða til að stíga fram og segja frá, jafnvel þótt vitað sé að kona tengd geranda sögunnar muni lesa hana. Hún gæti hafa lent í því sama, eða einhverju miklu verra af hálfu sama karlmanns – og fyrir vikið fundið fyrir auknum styrk til að takast á við afleiðingar af því með því að sjá að hún er ekki ein. Karlar sem grípa í kynfæri kvenna, horfa stanslaust á brjóst, eru með dónakjaft, vilja bara tala um kynlíf, kalla konur ríðulegar, setja allt mögulegt í kynferðislegt samhengi, koma með óviðeigandi athugasemdir, senda óumbeðin skilaboð með kynferðislegum undirtón eða almennt hafa orðið uppvísir að einhvers konar kynferðislegri áreitni eða ofbeldi …þeir gera þetta ekki bara einu sinni. Það er miklu frekar undantekning ef þetta eru stök tilvik. Þetta er hegðunarmynstur sem þeir tileinka sér og einmitt þess vegna skiptir máli að segja frá. Við getum sótt svo ótrúlega mikinn styrk í það að vita að við erum ekki einar. Ástarkveðjur og höldum áfram að deila. 53. Á mínum vinnustað stóðu yfir framkvæmdir í sumar sem ollu því að hér þurfti að færa til skrifborð og fólk sat þröngt um tíma þar til þessu var lokið. Eitt sinn var búið að raða fjórum samstarfskonum mínum upp á stórt borð þar sem þær sátu allar í röð með sínar tölvur og síma. Ég sagði eitthvað á þá leið að þetta væri eins og símaver. Kemur þá karlkyns kollegi (undir fertugu btw) og bætir við „Hey já, þetta er bara svona eins og klámlína!“ og hló svo að eigin brandara, fannst hann mjög fyndinn. Enginn annar hló og ekki veit ég hvaða brautir það voru sem tengdust í heilanum á honum og urðu til þess að þessi athugasemd kom upp í huga hans. Því síður skil ég hvernig honum gat fundist við hæfi að tala svona um samstarfskonur sínar. Það fauk í mig og ég spurði hvort honum fyndist þetta virkilega fyndið? „Uh já“ var svarið og svo gekk hann í burtu með hendur í vösum. 54. Í 5-6 ár hef ég fengið óviðeigandi athugasemdir um útlitið mitt þegar ég mæti í vinnuna.Ég fæ einkaskilaboð á Facebook um hvað það sé gaman að horfa á mig í mínum störfum, að það sé ekki hægt að hætta að horfa á rassinn á mér og að þeir vinirnir sitji allir saman og tali um það, hvort að hann megi koma í heimsókn og taka mig og hvort ég fái það örugglega ekki reglulega í rassinn Hann addar mér reglulega á Snapchat þar sem hann sendir mér myndir af vinum sínum ber að ofan, hvort að þeir megi mæta í heimsókn. Mér finnst mjög óþægilegt að mæta starfsins vegna þegar hann er í vinnunni eða þegar ég er að störfum þar sem hann vinnur.Ég sé hann stundum með vinum sínum og þá er svona „skítaglott“ á þeim þar sem þeir mæla mig út.Þegar ég starfs míns vegna þarf að mæta þar sem hann er fæ ég yfirleitt skilaboð sama kvöld. Það sem mér hefur þótt verst í þessu er að ég hef ekki getað farið neitt til að kvarta yfir þessu. Það hefur yfirleitt ekki verið gert neitt þegar kvartanir á borð við þessar eru lagðar fram svo þarna er „önnur kynslóð“ áreitis að alast upp 55. Ég held að grímulausasta kynbundna mismununin sem ég hef lent í hafi verið þegar ég var rétt um tvítugt. Ég fékk skemmtilega vinnu á vinnustað sem gaf m.a. út vikublað. Ég var ráðin til aðstoðar við ýmis störf og þegar mér ofbauð hversu lítið var skrifað um íþróttaleiki kvenna og benti á það, fékk ég leyfi til þess að skrifa fréttir um íþróttir kvenna. Eftir nokkurn tíma var skipt um yfirmann. Hann var ekki búinn að vera lengi á staðnum þegar hann kom til mín og sagði mér að ég þyrfti að þrífa klósettið. Ég sagði honum að það væri ekkert frekar í mínum verkahring heldur en hinna karlmannanna á vinnustaðnum ( ég var eina konan). Yfirmaðurinn tjáði mér þá að sá sem væri með lægstu launin ætti að þrífa klósettið. Ég þá tvítug sneri upp á mig og sagði honum að ég væri ekki með lægstu launin heldur karlkyns nemi sem var þar í námi. Yfirmaðurinn horfi á mig undrandi og spurði er X með minni laun en þú og hann er fyrirvinna á sínu heimili. Daginn eftir hækkaði hann launin hjá nemanum yfir mín laun. Þá var ég orðin launalægst í fyrirtækinu og klósettið mitt. Ég stóð með sjálfri mér og sagði upp þann dag. 56. Þegar ég er búin að vinna hjá fjölmiðlasamsteypu í 4 mánuði kallar dagskrárstjóri mig inn á fund, og skipar mér að hætta að skrifa pistla fyrir annan fjölmiðil. Þegar ég réð mig var það hluti af samkomulaginu að ég fengi að halda því áfram. Hann segir að þetta sé alveg ótækt, ég segist ætla að pæla í þessu, enda á leiðinni í tökur. Þegar ég kem aftur í hús er hann ekki við, svo ég skrifa póst. Bendi á að strákarnir innan fyrirtækisins séu með aukagigg innan annara fjölmiðla. Einn fréttamaður mæti einu sinni í viku á útvarpsstöð annars miðils að fara yfir fréttir vikunnar, útvarpsmaður skrifaði fréttaskýringar fyrir fréttablað, íþróttafréttamaður skrifaði íþróttapistla fyrir dagblað, pistlahöfundur reki sinn eigin fjölmiðil, og svo mætti lengi telja. Viðbrögðin? „Ef þú ætlar að vera svona hysterísk yfir þessu, má þá bjóða þér að skrifa í okkar blað?“ Uh, nei takk. 57. Ég er búin að vega margt og meta síðan þessi hópur var stofnaður, og í raun síðan #metoo fór af stað. Mig langar að segja frá mörgu, en bara einfaldlega meika það ekki því ég nenni ekki shitstormi (þó að hann verði bara í hausnum á mér). En varðandi yfirmenn ætla ég að segja eina sögu: Ég hef unnið fyrir nokkra ritstjóra/fréttastjóra. Flestir hafa verið góðir yfirmenn og ég hef ekki yfir neinu að kvarta varðandi glerþak, kvenfyrirlitningu eða áreitni. Að einum undanskildum. Dæmin eru nokkur, en ég ætla að taka eitt sem stakk mig sérstaklega. Einu sinni mætti ég til vinnu klukkan sex á laugardagsmorgni og var enn að vinna klukkan 22 um kvöldið (það var víst verið að mynda einhverja ríkisstjórn). Ég spurði þáverandi ritstjóra, svolítið hátt, hvernig ég fengi þessa yfirvinnu borgaða, í formi peninga eða frís. Hann svaraði, yfir alla ritstjórnina: „Mín kæra, veistu hvernig ég launa þér þetta? I'm gonna make you a star.“ Ég fékk hvorki yfirvinnu né frí. 58. Maginn í hnút og óþægindatilfinning upp eftir framanverðum hálsinum þannig að erfitt verður að kyngja. Dofi í fótleggjum og þyngsli fyrir brjóstinu. Kaldar hendur og þurrkur í munni. Ónot í útlimum og stífar axlir. Til skiptis kökkur í hálsi og tilfinning eins og þú þurfir að gubba. Höfuðið eins og það sé að springa en samt kemurðu ekki upp orði. Stjórnlaus grátur sem kannski kemur ekki fyrr en seinna. Að vera föst, eins og negld við gólfið, og koma ekki upp orði. Vandræðalegt bros til að reyna að fela að varir og tennur titra. Þetta eru bara örfá dæmi um hvernig líkaminn getur brugðist við kynferðislegri áreitni. Hún þarf ekki að vera líkamleg til að upplifunin sé sterk Leikskólabarn í galsa knúsar mömmu sína í opnu rými og fer svo í gríni að tromma á magann á mömmunni. Það er líka bara fyndið. Barnið heldur gríninu áfram, lyftir peysunni hennar mömmu aðeins upp og purrar til að halda nú örugglega áfram að vera fyndið. „Hey þetta er mallinn hennar mömmu hahaha.“ Karlmaður sem stendur hjá glottir og horfir fast í augu móðurinnar og segir: „Ég hef nú séð þetta allt áður.“ Galsinn hverfur úr huga móðurinnar og grínið er búið. Sakleysið sem einkenndi bumbuslátt barnsins á maga mömmu sinnar er ekki lengur í aðalhlutverki í þessari senu. En mamman lætur ekki á neinu bera, kyngir bara og reynir að bíða eftir að maðurinn fari. Karlmaðurinn, sem mamman hafði nokkrum árum áður átt í sambandi við, þurfti að minna á að hann hefði séð þennan líkama í öðru samhengi. Hann sá glitta í nakið hold – mallann sem barninu þótti fyndið að leika að – og náði að smokra óviðeigandi kynferðislegri vísun inn í saklausan barnsleik. Leikskólabarnið hefur ekki hugmynd um hlutgervingu kvenlíkamans né neina vitneskju um það að kynferðisleg áreitni getur verið munnleg, orðbundin, táknræn. Það hvorki gaf orðum karlmannsins gaum né skildi þau eða gat sett þau í samhengi. Það gat ekki vitað hvað mömmu leið illa eða vitað um ónotatilfinninguna sem fylgdi í kjölfarið. Það vissi heldur ekki að mamma fór að gráta þegar það var sofnað og að hún forðast enn augnaráð mannsins ef hann verður á vegi hennar. Allt í einu var saklaus leikur barnsins gerður að einhverju allt öðru. Það eina sem mig langaði að gera var að toga bolinn hratt og örugglega niður aftur þessa örfáu sentimetra og koma mér og barninu burt. 59. Saga af kynbundinni mismunun: Var að vinna á lítilli ritstjórn þar sem karlamenning og fjölskyldutengsl voru áberandi. Þrátt fyrir þetta var fjölmiðillinn kynntur út á við sem miðill fyrir konur og fjölskyldur. Helstu yfirmenn voru allir náskyldir, og besti vinur eins þeirra var síðan fréttastjóri þrátt fyrir að hafa minni reynslu af hardcore fréttamennsku en konur sem unnu undir honum. Þessir karlmenn fóru svo iðulega alltaf saman í mat og í ræktina, og datt aldrei í hug að bjóða konum með. Þegar við konurnar vöktum athygli á þessu, að við almennu blaðamennirnir fengjum ekki að vera með þegar valdastrákarnir fóru reglulega saman í 2ja tíma hádegismat, var bara hlegið að okkur. 60. Giftur samstarfsfélagi falast eftir dansi á árshátíð fjölmiðilsins og notar dansinn til að þukla látlaust á rassinum á mér þrátt fyrir að ég væri stöðugt að færa hendur hans af rassinum og upp á bakið á mér Harðgiftur eldri rithöfundur fer í framhaldi af samtali okkar að senda mér ógrynni óviðeigandi tölvupósta þar sem hann tjáir greddu sína í minn garð. Reyni fyrst að hunsa póstana, en við það verður hann aðeins ennþá ágengari. Á endanum bið ég hann vinsamlegast að hætta þessum sendingum og þá úthúðar hann mér fyrir hversu merkileg með mig ég sé. Ég hef ekki treyst mér til að taka viðtal við hann aftur þó liðin séu 14 ár frá þessum samskiptum. 61. Þegar karlkyns yfirmaður minn skildi ekkert í þessari #freethenipple-væðingu og ákvað að vera fyndinn á hverjum degi á meðan þær fréttir riðu yfir með óviðurkvæmilegum athugsemdum um myndir af brjóstum á miðlinum sem og hvort og hvenær ég og fleiri konur á vinnustaðnum værum að taka þátt í þessu 62. Eitt sinn kom til starfa hjá fyrirtækinu maður sem hafði verið rekin úr stjórn félagasamtaka vegna þess að hann átti yfir höfði sér kæru fyrir nauðgun. Hann entist ekki lengi í starfi sem blaðamaður og var rekinn. Stuttu seinna var hann ráðinn sem blaðamaður á miðil sem gefur sig út fyrir að tala máli þolenda. 63. Þegar ég vann með nafntoguðum ljósmyndara sem var einnig þekktur fyrir að reyna við allt sem hreyfðist þá fór ég nokkrum sinnum með honum í ferðalög sem blaðamaður. Í eitt skipti þurfti ég að bíða eftir honum á einhverjum stað á meðan hann fór á strippbúllu. Í annað sinn fundum við ekkert hótel og eina sem bauðst var eitt herbergi sem við þurftum að deila. Hann ætlaði að sofa á sófanum en ég vaknaði við það að hann var kominn upp í og reyndi að káfa á mér. Ég ýtti honum stanslaust í burtu en hafði ekki í mér að gera meira mál úr þessu en það enda var hann kollegi og „vinur.“ Ég svaf ekki dúr þessa nótt en næsta dag átti auðvitað að láta sem ekkert hefði í skorist. 64. Ég var ungur blaðamaður á ritstjórn útbreidds dagblaðs. Ljósmyndararnir, sem voru allir eða nær allir karlmenn, voru með stórt dagatal með berum konum á. Mér fannst þetta verulega óþægilegt. Ég bar þetta upp við karlkyns ritstjóra sem hlógu að mér og spurðu hvort ég væri eitthvað viðkvæm fyrir fallegum myndum af fallegum konum. Skömmu síðar var mér gefið, í viðtali við ljósmyndara fyrir blaðið, lítið dagatal af nöktum karlmönnum - mun smekklegri myndir en voru á ljósmyndadeildinni (og grein um dagatalið var birt í fjölmiðlinum). Ég hengdi þetta upp í básnum mínum og fékk skammir fyrir. Mér fannst óþægilegt að hafa þessar myndir þarna, sem voru þó mun minna klámfengnar og meira listrænar en þær sem voru hjá ljósmyndurunum. Ég sagði við ritstjórann (karl) sem setti út á dagatalið mitt að ég skyldi taka mitt niður þegar ljósmyndurunum yrði gert að taka sitt niður. Hann fór og enginn tók nein dagatöl niður. Næsta ár kom nýtt dagatal upp á vegg hjá ljósmyndurunum en ég sóttist ekki eftir að endurtaka leikinn. 65. Mín upplifun af #metoo framtakinu hefur verið sú að það snúist fyrst og fremst um kynferðilega áreitni og ofbeldi. En ég sé á færslum í þessum hópi að margar deila frásögnum af því sem þær telja kynbundna mismunun. Því eftirfarandi: Ég get ekki fullyrt að um kynbundna mismunun hafi verið að ræða en grunurinn er all nokkur enda engar aðrar skýringar fengist. Um það þegar mér og samstarfskonu minni var fyrirvaralaust sparkað úr starfi af hjá rótgrónum miðli fyrir nokkrum misserum. Þetta var á miðjum vinnudegi, á miðju sumri, og við báðar á kafi í að vinna okkar þætti. Fyrirvaralaust, óvænt, án þess að nokkurn tíma hefði verið sett út á störf okkar eða aðra framgöngu á vinnustaðnum. Engar skýringar hafa fengist frá stjórendum um hvers vegna, en sumar síðari tíma skýringar samstarfsmanna hafa snúið að því að „rýma“ hafi þurft fyrir yngri starfsmönnum. Sé sú raunin má velta fyrir sér hvers vegna tveimur konum á sextugsaldri var einum fórnað. Á vinnustað þar sem karlar á okkar aldri hafa í stórum hópum fengið að eldast og blómstra í sínum störfum á ýmsum deildum (og sumir hafa ekki einu sinni blómstrað heldur bara hangið út á einhvers konar velvilja kk stjórnenda - karlarnir eru jú fyrirvinnur !). Og konur á okkar aldri eru sárafáar hvert sem litið er yfir starfsmannahóp þeirra sem birtast og hljóma út á við vegna starfa sinna í miðlinum. 66. Fréttastofan ákvað að fara út á land yfir nótt til að hrista saman hópinn. Skoða einhver fyrirtæki, borða saman, fara á smá námskeið og svona, þið vitið hópeflisferð. Eftir mat var spiluð smá tónlist og sumir dönsuðu, aðrir bara að spjalla. Einn, sem er búinn að vera lengi í bransanum og vel þekktur, var hins vegar á þeim buxunum að hann mætti káfa á öllum konunum. Hann reyndi að kyssa þær, kleip í þær, greip í brjóstin á þeim og var bara all over með hendurnar á konunum. Við reyndum að forðast hann eða gerðum lítið úr þessu, hlógum að honum og gerðum grín en svo sat hann þarna, og náði að toga mig til sín, setti mig í fangið á sér (hann er svolítið stór) og tróð höndinni upp undir pilsið, alla leið. Þetta var ömurlegt. Fyrir framan alla og enginn gerði neitt, eða sagði neitt. Mér tókst svo loks að losna undan honum og fór þá bara upp á herbergi. 67. Ég hef verið blessunarlega laus við kynferðislega áreitni á fjölmiðlum en samt eitthvað. Hér koma nokkur dæmi: Á einu blaðinu í gamla daga var alltaf ágætis andrúmsloft og fínt að vera þó að takkana vantaði á ritvélarnar og svona. Ég man eftir einum eldri blaðamanni, hann átti það til að strjúka manni um rassinn og slíkt. Seinna var ég aftur á sömu ritstjórn og hann og fann ekki fyrir neinu svona frá honum. Við vorum að skemmta okkur vinnufélagarnir á Kaffi Reykjavík þegar við hittum einn mikils metinn í bransanum og reyndar ágætis vin í dag. Hann var einn að djamma og drekka áfengi og slóst í hópinn. Við fórum að dansa saman og áður en ég veit af er hann kominn með tunguna upp í mig og segir svo, komum heim til þín. Ehhh...nei! Ég var fljót að yfirgefa samkvæmið. Ein. Þetta var aldrei rætt og ég varð aldrei vör við aðra tilburði en það má líka kannski segja að ég hafi að mestu hætt að fara út með strákunum. Þetta var gjarnan ein kona með hóp af karlmönnum, við vorum svo fáar í fréttamennsku á þessum árum. Allt var svo mikið á þeirra forsendum, líka þegar samstarfsfélagarnir voru að hittast og það var svona eftir á séð ekkert létt finnst mér. Nokkrum árum síðar fórum við út að skemmta okkur allir á annarri ritstjórn og sátum síðla kvölds á litlum bar í miðborg Reykjavíkur. Allir við glas og heilmikið spjall og gaman. Eftir góða stund segir fréttastjórinn mér að koma og setjast í fangið á honum sem ég gerði – hlýddi bara alveg blint, fyrir framan konuna hans. Ég veit ekki hvað ég var að hugsa. Ég man að mig langaði ekki til að sitja þarna fyrir framan blandaðan hóp af góðum samstarfsmönnum og vinum og mig langaði til að fara en var eitthvað svo lömuð og þorði ekki. Þess í stað sat ég þarna eins og dúkka í langan tíma að mér fannst því ég þorði ekki að fara, alveg heilalaus og stjörf og horfði á konuna hans kraumandi af illsku. Maður á náttúrulega aldrei að láta bjóða sér og öðrum svona. Þetta er svona það helsta sem ég man. Ég man reyndar eftir einu atviki í viðbót en ég man það samt ekki nógu vel til að geta komið því frá mér. Hvað einelti varðar þá hef ég orðið vör við það á fjölmiðlum en það hefur væntanlega ekkert með kynferðislega áreitni að gera. Og svo man ég auðvitað eftir allskonar dæmum á kvöldin, síðla dags eða nóttunni, til dæmis alókunnugur maður sem gekk framhjá mér á götu kom upp að mér að aftan og stakk hendinni upp í klofið á mér aftan frá. Alókunnugur maður sem maður var bara að ganga framhjá á götu! Man ekki hvort hann sagði eitthvað en ég sá aldrei framan í hann eða neitt. Maður reyndi bara að hrista þetta af sér. Í seinni tíð hef ég orðið fyrir miklu harkalegri kynferðislegri áreitni en í fjölmiðlageiranum á þessum árum. 68. „Áttu kærasta?“ spurði fréttastjórinn í viðtalinu þegar ég sótti um mitt fyrsta starf í fjölmiðlum sem fólst í því að snúa textavélinni fyrir fréttaþuli. Þegar ég var í beinni útsendingu að stjórna umræðuþætti í sjónvarpi og kollegi minn hvíslar því að mér úr myndstjórn að áhorfandi hefði hringt til að spyrja af hverju ég væri með rass framan á mér (Brjóstaskora sjáanleg). Þegar þjóðþekkt, virt eldri kona var í viðtali í morgunsjónvarpinu og ég tók símtöl frá fólki sem fannst bara í lagi að hringja inn og kvarta yfir því að þessi „gamla, hrukkótta kona“ væri í sjónvarpinu þeirra. Sjónvarpsstjórinn sem sá ástæðu til að hafa samband við fréttastjóra vegna hárs fréttakvennanna. Hrokkið hár fór sérstaklega illa í hann. Auglýsingin fyrir fréttatímann sem tveir af fjórum fréttamönnum stöðvarinnar fengu að taka þátt í. Ég þótti ekki nógu sæt til að vera með. Ég hlyti að gera mér grein fyrir að fréttakonan sem fékk að vera með í auglýsingunni liti jú út eins og súpermódel. Karlþulurinn, sem jafnframt var yfirmaður minn, og lét mig ítrekað lækka stólinn ef við vorum jafnhá í settinu. Ah já! Svörin sem ég fékk þegar ég benti á að engin kona hafi verið viðmælandi í umræðuþætti, fréttatíma eða á prenti hjá samsteypunni okkar: „Ég pæli aldrei í því hvort viðmælandi er karl eða kona“ - „Ekki tók ég eftir því“. Algengasta svarið var þó þögn og augum ranghvolft. Samstarfsfélagi minn, sem kallaði mig iðulega öfgafemínista af einhverri ástæðu, og fannst normalt að horfa á klám í vinnutölvunni sinni í opna vinnurýminu. Þegar kvenkynsfréttastjóri var ráðinn bað hún hann að láta af þessu. „Hvern okkur viltu láta reka?“ spurði kallinn á útvarpsstöðinni og benti á kallana tíu við borðið þegar ég spurði hvers vegna það væri bara ein kona að vinna á stöðinni. Á eftir fylgdi ærandi þögn en þetta var fyrsti starfsmannafundurinn sem ég tók þótt í. Ritstjórnin, þar sem enginn karlanna virtist heyra tillögur mínar fyrstu vikurnar, en tóku svo undir ef karl við borðið bar upp sama efni. Ég hef hlegið með sjálfri mér og öðrum vegna þessara kalla, en þetta er bara ekkert fyndið. Þetta er bæði fáránlegt og lítillækkandi. Vonandi hafa hlutirnir breyst. 69. Ég vann með þekktum sjónvarpsmanni, miklum húmorista sem komst upp með alls konar út á grínið. Það var frekar þröngt á milli skrifborða og eitt sinn kitlaði hann mig þegar hann labbaði framhjá mér á leið að sínu borði. Þegar ég kipptist við og sagði; „Ekki kitla mig,“ svaraði hann; „Hva, kitlar þig? Er ekki búið að ríða þetta úr þér?” 70. „Ég hélt alltaf að þú værir svo heimsk,“ sagði karlmaður sem stundum kom fram í fjölmiðlum eitt sinn við mig þegar ég hitti hann á bar að kvöldlagi. Þegar ég spurði af hverju hann hefði haldið það, svaraði hann; „Af því þú brosir svo oft. En svo fattaði ég að það er af því að þú ert líklega bara svona hamingjusöm.” 71. Eftir að ég hafði unnið sem aðstoðardagskrárgerðarmaður í mörg ár og hafði náð góðum tökum á ferlinu og gert að mér fannst marga góða hluti fór ég á fund dagskrárstjóra með hugmynd sem ég óskaði eftir að fá að spreyta mig á sem dagskrárgerðarmaður. Hann horfði á mig tómum augum og mjög vandræðalega kom sér hjá því að svara mér. Veit ekki hvort honum fannst hugmyndin svona glötuð eða hvort það var af því ég var kona. Sagðist ætla að hugsa málið. Hann er enn að hugsa málið. 72. Saga af barnum: Mætti útgefanda fjölmiðlafyrirtækis, sem kommentaði á leðurbuxurnar mínar, bauð mér vinnu með þeim orðum að hann ætlaði að gera mig að valdamestu fjölmiðlakonu landsins og bað mig um að koma með sér heim að skoða gögn. MeToo Tengdar fréttir Tjaldið fellur: Konur úr sviðslistum og kvikmyndagerð segja frá ofbeldi og kynferðislegri áreitni 548 konur hafa deilt reynslusögum af kynferðisofbeldi, áreitni og mismunum innan leiklistarstéttarinnar á Íslandi. 27. nóvember 2017 20:01 Þögnin rofin: Konur úr réttarvörslukerfinu segja frá ofbeldi, áreiti, niðurlægingu og smánun Konur sem starfa eða hafa starfað innan réttarvörslukerfisins sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í kvöld undir yfirskriftinni Þögnin rofin en 156 konur skrifa undir yfirlýsinguna og henni fylgja 45 reynslusögur. 7. desember 2017 21:37 Konur í tónlist rjúfa þögnina: Í stað launa fyrir verkefni með hljómsveit mátti hún sofa hjá meðlimi sveitarinnar 333 konur hafa skrifað undir yfirlýsingu KÍTÓN, félags kvenna í tónlist þar sem þær krefjast þess að geta unnið vinnu sína án áreitni, ofbeldis eða mismunar. 7. desember 2017 15:41 Fjölmiðlakonur rjúfa þögnina: „Við þegjum ekki lengur“ Fjölmiðlakonur hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þær lýsa reynslu sinni af kynferðislegri áreitni, óviðeigandi snertingum og óvelkomnum athugasemdum í starfi. Krefjast þær aðgerða. 11. desember 2017 14:15 Mest lesið Allir starfsmenn VG missa vinnuna seinna á árinu Innlent Enginn megi vera krýndur formaður Innlent „Þetta er einhver samfélagsmiðlasýki“ Innlent Vesturbæjarlaug lokað tímabundið vegna netbilunar Innlent Minntust Ásgeirs á Lífskviðunni Innlent Sleðar bannaðir á opnunartíma: „Leið eins og maður væri ekki velkominn“ Innlent Geitabóndi hannaði sitt eigið geitavesti Innlent „Já, líklega hef ég verið undrabarn“ Innlent Þýðir ekki að fara á taugum segir borgarstjóri og hyggur á endurkjör Innlent Þarf að taka fjölskylduna inn í myndina Innlent Fleiri fréttir Allir starfsmenn VG missa vinnuna seinna á árinu Vesturbæjarlaug lokað tímabundið vegna netbilunar Geitabóndi hannaði sitt eigið geitavesti „Þetta er einhver samfélagsmiðlasýki“ Minntust Ásgeirs á Lífskviðunni Enginn megi vera krýndur formaður Þingmenn búast við formannsslag og Lífskviða Ásgeirs Sleðar bannaðir á opnunartíma: „Leið eins og maður væri ekki velkominn“ Segist ekki muna eftir atburðunum Þyrlan sótti veikan skipverja Sleginn í höfuðið með áhaldi Kyngreint sæði notað í fyrsta skipti í Íslandssögunni Þarf að taka fjölskylduna inn í myndina Guðlaugur Þór boðar tíðindi innan skamms og áfall í Eyjum Óvenjulegt mál með hörmulegum afleiðingum Áslaug Arna boðar til fundar Þýðir ekki að fara á taugum segir borgarstjóri og hyggur á endurkjör Meiriháttar líkamsárás í miðbænum „Já, líklega hef ég verið undrabarn“ Svarar gagnrýni á að Listaháskólinn útiloki ákveðna hópa Íhugar formannsframboð Lögðu fram tilboð sem var ekki svarað Fjórir fluttir með þyrlu eftir árekstur Guðrún íhugar framboð og Guinness-æði skekur íslenska djammið Lýsa yfir miklum vonbrigðum með stöðu viðræðna „Ég get horft í augun á ykkur“ Eldur í bíl í Strýtuseli Valt inn á byggingarsvæði eftir árekstur við strætó Anna, Anna og Sveinbjörn aðstoða ríkisstjórnina Hrikalega spenntur að spreyta sig á nýjum vettvangi Sjá meira
238 fjölmiðlakonur hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þær lýsa reynslu sinni af kynferðislegri áreitni, óviðeigandi snertingum og óvelkomnum athugasemdum í starfi til þess að sýna samfélaginu hvernig viðmóti þær mæti í vinnunni. Krefjast þær aðgerða og eftirfylgni af hálfu íslenskra fjölmiðla. Alls fylgja 72 sögur fjölmiðlakvenna yfirlýsingunni.Ein konan greinir frá því að hún hafi eitt sinn unnið með manni sem þótti erfiður í glasi. Eftir að konan héld starfsmannafögnuð heima hjá sér hafi viðkomandi samstarfsmaður orðið eftir, dáinn áfengisdauða á sófanum.„Ég henti yfir hann teppi, hringdi í yfirmann okkar og tjáði honum málavexti, enda átti fréttamaðurinn að vera á vaktinni þann morguninn. Svo fór ég sjálf niður í mitt rúm að sofa. Á hádegi vaknaði ég við að maðurinn sat á rúminu hjá mér ég veit án gríns ekki hvað hann hafði verið lengi þar. Hann bað um að fá að snerta á mér brjóstin, hann hafði alltaf langað að „kreista þau“ ég sneri því upp í grín en hann hélt áfram um stund og suðaði í mér að leyfa honum bara aðeins. Hann fór síðan á vaktina góðum fimm tímum of seinn. Var ekki skammaður. Ég lét síðan eins og ekkert hefði í skorist. Vildi ekki eyðileggja neitt eða vera leiðinleg,“ skrifar konan.Greindi lesbíum frá sameiginlegu áhugamáli Þá segir önnur konu frá því að hún hafi verið í boði með konu sinni þar sem þekktur fjölmiðlamaður hafi kynnt sig fyrir þeim og tjáð þeim að þau ættu sameiginlegt áhugamál.„[S]agði að þar sem við værum lesbíur ættum við og hann nú sameiginlegt áhugamál: að sleikja píkur. Algjörlega óumbeðið fór hann að tala við okkur á mjög grófan hátt og spyrja okkur óviðeigandi spurninga um kynlífið okkar. Þegar við báðum hann að hætta varð hann pirraður og kallaði okkur teprur,“ skrifar konan.„Annar karl í boðinu, sem er háttsettur í þjóðfélaginu, steig inn í samtalið og skammaði hann, en hann hélt enn áfram og fannst ekkert athugavert við það sem hann var að segja. Konan mín og hinn karlinn gengu í burtu en þegar ég ætlaði að fara á eftir þeim króaði hann mig af og kom með romsu um hvað FreeTheNipple væri fáránleg pæling. Komst loksins undan þessu og þegar ég sagði nokkrum í boðinu í því sem við höfðum lent virtist það ekki koma neinum á óvart. Hann væri þekktur fyrir að vera óviðeigandi.“Slegin út af laginu í viðtali Ein kona segir frá því að eitt sinn hafi hún verið að taka krefjandi viðtal við forstjóra stofnunar, sem tekist hafi að slá hana út laginu með óviðeigandi svari.„Spurningarnar voru gagnrýnar og erfiðar og þá allt í einu sagði forstjórinn: „Fyrirgefðu, ég heyrði ekki spurninguna því ég var að horfa á brjóstin á þér.“ Hann sló mig algjörlega út af laginu, sem var líklega tilgangurinn með ummælunum. Hef ekki mætt í flegnum fötum síðan.“Þá skrifar ein kona að hún hafi starfað á vinnustað þar sem klúrar athugasemdir hafi verið daglegt brauð en ein ummæli frá yfirmanni hennar hafi alltaf setið í henni.„[Þ]að situr alltaf í mér þegar yfirmaður minn sagði mér frá draumnum sínum liðna nótt, hann sagðist hafa verið að „taka mig” á hljóðmixernum. Ég brást við með flissi og sé alltaf eftir að hafa ekki svarað fyrir mig og farið lengra með málið, en ég var eiginlega bara orðlaus.Ein kona greinir frá því að hún og tökumaður hafi verið á leið í viðtal þegar hann hafi snarhemlað.„Ég hélt að eitthvað hefði komið fyrir eða að barn hefði hlaupið fyrir bílinn en nei ó nei, hann sagðist þurfa að horfa á rassana og brjóstin á stelpum sem voru þarna á gangi, þær væru svo helvíti ríðulegar - ullabjakk.“ „Hva, ertu með svona þrönga píku“ Önnur kona segir frá því að ritstjóri á fjölmiðli sem hún starfaði á hafi verið einstaklega óviðurkvæmilegir, hreykt sér að kynlífi sínu og reynt að koma kynferðislegum athugasemdum að í umræðunni. Segir hún að í eitt skipti hafi fjöldi typpamynda verið í myndakerfi fjölmiðilsins vegna umfjöllunar sem verið var að vinna að. Lýsti konan efasemdum um að sumar myndirnar væru raunverulegar. „Ritstjórinn kom að sjálfsögðu hlaupandi, kíkti á myndina og spurði mig: „Hva, ertu með svona þrönga píku?“ Þetta sagði hann yfir alla ritstjórnina. Ég verð sjaldan kjaftstopp, en það gerðist þarna. Sami ritstjóri spurði mig ítrekað, þegar ég tók viðtöl við karlmenn, hvort ég hefði sofið hjá þeim. Þá bað hann oft sérstaklega um að ég fengi kvenkyns viðmælendur til að vera í þröngum fötum við myndatökur. Ég veit að þessi ritstjóri hafði engan áhuga á mér kynferðislega og finnst mikilvægt að halda því til haga að kynferðisleg áreitni felst ekki bara í því að einhver reyni að komast yfir mann. Hún felst líka í óviðurkvæmilegum athugasemdum og ógeði sem maður þarf stundum að þola.“ Horfði á gróft klám í vinnutölvunni Þá segir ein kona að einn samstarfsmaður hennar hafi verið að horfa á gróft klám í vinnutölvunni sinni, en sá hinn sami hafi verið þekktur fyrir að horfa á klámfengið efni á vinnutíma. Honum virtist vera alveg sama þó að aðrir sæju hvað hann væri að horfa á en myndefnið setti konuna úr jafnvægi. „Ég setti strax ofan í við manninn og gekk eftir útsendingu á fund yfirmanns hans, sagði að mér væri slétt sama hvað hann gerði heima hjá sér, en að horfa á klám í vinnunni væri ólíðandi. Maðurinn var mildilega tekinn á teppið í framhaldinu. Ögn síðar fann hann sér viðhlæjendur, taldi að það væri nú aldeilis viðkvæmnin í sjónvarpskonunni, uppdiktaði einhverja sögu og kvað það hafa verið algera tilviljun að rata inn á klámsíðu. Blaðamaður nokkur sem hlustaði ákvað að skrifa þessa ,,tilviljun” með háði inn á síðu eins stærsta dagblaðs landsins. Ritstjórinn gerði ekki athugasemd og fullyrti eftir á að þetta hefði farið framhjá sér. Mjög ófaglegt og niðurlægjandi umhverfi. Sem betur fer væri þetta ekki liðið í dag.“Allar 72 sögurnar má lesa hér fyrir neðanVísir/Getty1. Ég vann einu sinni með manni sem er þekktur fyrir að vera „erfiður“ í glasi. Eftir starfsmannafögnuð heima hjá mér var hann einn eftir, brennivínsdauður á sófanum. Ég henti yfir hann teppi, hringdi í yfirmann okkar og tjáði honum málavexti, enda átti fréttamaðurinn að vera á vaktinni þann morguninn. Svo fór ég sjálf niður í mitt rúm að sofa. Á hádegi vaknaði ég við að maðurinn sat á rúminu hjá mér ég veit án gríns ekki hvað hann hafði verið lengi þar. Hann bað um að fá að snerta á mér brjóstin, hann hafði alltaf langað að „kreista þau“ ég sneri því upp í grín en hann hélt áfram um stund og suðaði í mér að leyfa honum bara aðeins. Hann fór síðan á vaktina góðum fimm tímum of seinn. Var ekki skammaður. Ég lét síðan eins og ekkert hefði í skorist. Vildi ekki eyðileggja neitt eða vera leiðinleg. 2. Var í boði með konunni minni þegar þekktur fjölmiðlamaður kynnti sig fyrir okkur og sagði að þar sem við værum lesbíur ættum við og hann nú sameiginlegt áhugamál: að sleikja píkur. Algjörlega óumbeðið fór hann að tala við okkur á mjög grófan hátt og spyrja okkur óviðeigandi spurninga um kynlífið okkar. Þegar við báðum hann að hætta varð hann pirraður og kallaði okkur teprur. Annar karl í boðinu, sem er háttsettur í þjóðfélaginu, steig inn í samtalið og skammaði hann, en hann hélt enn áfram og fannst ekkert athugavert við það sem hann var að segja. Konan mín og hinn karlinn gengu í burtu en þegar ég ætlaði að fara á eftir þeim króaði hann mig af og kom með romsu um hvað FreeTheNipple væri fáránleg pæling. Komst loksins undan þessu og þegar ég sagði nokkrum í boðinu í því sem við höfðum lent virtist það ekki koma neinum á óvart. Hann væri þekktur fyrir að vera óviðeigandi. 3. Saga af viðhorfi: Fyrir nokkrum árum bað ég karlkyns samstarfsfélaga um ráð fyrir launaviðtal. Hann var aðalgaurinn. Fyrirmynd. Hann nefndi tölu sem var langt fyrir neðan launin sem ég var með á þeim tíma og sagðist halda að þau væru góð fyrir konu í mínu starfi. 4. Ég hef helst orðið fyrir áreitni af einstaka viðmælanda sem hefur fundist gott að spjalla við mig og viljað eitthvað ansi mikið meira. Það var nokkrum sinnum gjörsamlega óbærilegt. Get ekki enn mætt þessum sömu einstaklingum. Eða þið vitið, nenni því ekki. Hef falið mig í Hagkaup. Já. Satt. Áreitni af hálfu samstarfsfélaga fyrir nokkrum árum er svo fjandi flókin að ég kem henni í ekki í orð. Ég fylgist með hér á síðunni og sé til. Ást og friður. 5. Kannski frekar saga af viðhorfi en af áreitni: Einu sinni var ég að ræða það við vinnufélaga að ég væri óviss með fjármögnun náms sem ég var að fara í erlendis. Einn viðstaddra, eldri maður, stakk upp á því að ég dansaði súludans meðfram námi. Sonur hans væri nefnilega í skóla í útlöndum og hefði í sig og á með því að spila á gítar í verslunarmiðstöðvum. 6. Hef oft lent í alls konar. Segi kannski frá því seinna. Eitt sinn var ég að taka krefjandi viðtal við forstjóra stofnunar. Spurningarnar voru gagnrýnar og erfiðar og þá allt í einu sagði forstjórinn: „Fyrirgefðu, ég heyrði ekki spurninguna því ég var að horfa á brjóstin á þér.“ Hann sló mig algjörlega út af laginu, sem var líklega tilgangurinn með ummælunum. Hef ekki mætt í flegnum fötum síðan. 7. Ég get ekki kvartað undan samstarfsmönnum mínum, þeir eru æði. EN það eru vissir viðmælendur og gestir sem koma við sem hafa truflað mig. Á meðan að strákunum er heilsað af virðingu, fæ ég oft „Hæ sæta,“ eða eitthvað í þeim dúr, ef að menn yfirleitt yrða á mig. Mér finnst allt í lagi að vera heilsað á þennan hátt í einhverjum tilvikum, ef ég hef þessi tengsl við þá að þetta sé bara vinaleg krúttkveðja. En oft eru það menn sem ég þekki ekki neitt og þá er þetta leiðinleg áminning þess að ég nýt ekki sömu virðingar og þeir. 8. Einn fjölmiðlamaður bauðst til að skutla mér á djammið í staðinn fyrir að fá að ríða mér. Ég hafnaði þessu boði og fannst það ekki viðeigandi og benti viðkomandi á það. Þá svaraði hann: „Hva, getur þú ekki riðið mér eins og hverjum öðrum?“ Ég hef ekki fengið fleiri ljósmyndaverkefni hjá viðkomandi miðli eftir að ég sagði nei. 9. Fór að hugsa, eftir marga áratugi í bransanum. Ekki man ég sérstaklega eftir kynferðislegri áreitni, nema ef vera skyldu sóðasímtöl að kveldi frá miðaldra fullum körlum, þegar maður var enn með númerið sitt í símaskránni, og menn sem gengu alltof langt á skemmtistöðum. Þetta er samfélagslegt vandamál sem við erum að taka á í sameiningu stelpur. #metoo Húh! Viðmót frá karlmönnum, tja það er annað, sérstaklega á mínum yngri árum. Ég lærði til að mynda snemma að halda símtólinu í góðri fjarlægð frá eyranu þegar karlar hringdu (eipuðu) og byrjuðu „samtalið:“ „Heyrðu vinan…“ Ekki orð frá mér og þá kom: „Ertu þarna?“ „Já,“ var svarið. Og þetta var endurtekið alloft eða alveg þangað til maðurinn á línunni varð það rólegur að unnt var að ræða við hann skynsamlega. Það er nefnilega ekki hægt að rífast við vegg sem ekki svarar. Ég var veggurinn. Það getur vel verið að þessi viðbrögð viðmælenda minna hafi ekkert með kyn mitt að gera, samstarfsmenn mínir af karlkyninu fá líka svona ofbeldis símtöl. Fréttamál mín hafa verið á öllum sviðum, allt frá „grjóthörðu“ efni og yfir í mýkri málin og aldrei ætlast til þess hjá mínu fyrirtæki annað en að við stelpurnar værum færar í öll mál. Já, man ekki eftir öðru en að mér hafi verið treyst í öll fréttamál. Ég hef þó kynnst yfirmönnum og viðmælendum af karlkyninu sem áttu ekki góða daga í samskiptum við konur, mig þar með talið. Mér fannst þeir alltaf bara eiga svo bágt með sig og óöruggir. Vorkenndi þeim meira en annað. Kannski er það meðvirkni 10. Ég fagna þessari síðu. Ég var í 7 ár hjá fyrirtæki þar sem klúr komment voru daglegt brauð en það situr alltaf í mér þegar yfirmaður minn sagði mér frá draumnum sínum liðna nótt, hann sagðist hafa verið að „taka mig” á hljóðmixernum. Ég brást við með flissi og sé alltaf eftir að hafa ekki svarað fyrir mig og farið lengra með málið, en ég var eiginlega bara orðlaus. 11. Atvikin sem helst hafa angrað mig varða „kvennaviðmótið“ sem ég hef stundum fengið frá kollegum og viðmælendum af gagnstæðu kyni. Ég sé sennilega örlítið tregari en kynbræður þeirra - verandi kona og allt það. Þetta var sérstaklega ljóst þegar ég skrifaði viðskiptafréttir. Eitt sinn fóru ég og samstarfsmaður saman á fund þar sem málefni lífeyrissjóða voru til umræðu. Ákváðum að skipta efninu á milli okkar og taka mismunandi vinkla. Eftir fundinn spyr ég hvað hann ætli að taka - ég velji þá eitthvað annað. Áður en hann svarar segir hann: „Ég veit ekki hvort þú hafir skilið það sem var verið að fjalla um þarna. Það varðar.... (löng útskýring) og ég ætla að taka það.“ Sátum bæði fundinn frá upphafi til enda og hann hafði minni starfsreynslu hjá fjölmiðlinum en ég. Sami maður sagði að það væri svo heppilegt að vera kona á þessum vettvangi - gagnlegt að geta verið í flegnu. (Þess vegna fær maður nefnilega upplýsingar) 12. Ég kærði mann sem hafði áreitt mig í tvö ár, að því að virtist vegna fréttar sem karlkyns kollegi minn skrifaði nokkrum árum fyrr. Kolleginn heyrði aldrei frá manninum, sem tók aftur á móti upp á því að senda mér ítrekuð skilaboð þar sem hann kallaði mig hóru, hótaði mér refsingu og beindi sjónum að börnunum mínum. Skilaboðin einkenndust fyrst og fremst af kvenfyrirlitningu, enda var hann ekki að ráðast að mér sem blaðamanni heldur sem konu. 13. Þegar átak stjórnmálakvenna var til umfjöllunar spurði samstarfsmaður mig hvenær fjölmiðlakonur ætluðu að stofna hóp. Ég sagði það vera góða spurningu en minntist þess ekki að hafa verið beint áreitt í starfi. Tveimur klukkutímum seinna þurfti ég ítrekað að biðja annan kollega um að hætta þegar hann ætlaði að lýsa fyrir mér kynlífsathöfn sem hann hafði stundað með konu sem ég þekki. Ég reyndi að labba í burtu en hann greip í mig eins og til að fara í gamnislag. Þegar ég svo loks skokkaði í burtu tók hann sig til og hrópaði yfir fréttastofuna að ég gæti gert þetta við einn tiltekinn samstarfsfélaga okkar sem er náinn vinur minn. Ég skalf smá og fannst ég standa nakin á miðju gólfinu. Öðrum virtist finnast þetta fyndið. 14. Ég hef átt margar fyrirmyndir í fjölmiðlum og hafði samband við nokkrar þeirra fyrir mörgum mörgum árum til þess að efla tengslanet og spyrja hvað best yrði fyrir mig að gera. Ein fyrirmyndin, miklu eldri en ég og giftur, tók vel á móti mér og ég mátti fylgjast með honum í vinnunni. Ég hitti hann tvisvar yfir kaffibolla og hann var mjög ræðinn og ráðagóður. Svo fór hann að hringja ansi oft í mig og ég hætti svo að svara honum þegar hann hringdi eitt sinn úr baði og sagðist hafa verið að hugsa um mig. 15. Ég man ég eftir a.m.k. tveimur skiptum þar sem yfirmenn á öðrum miðlum buðu mér starf og völdu að gera það við aðstæður þar sem áfengi var haft um hönd. Því fylgdi að ég væri nú alveg frábær blaðamaður en svo kom fljótt í ljós að markmiðið með því að taka þetta upp við þessar aðstæður var viðreynsla. Í annað skiptið var viðkomandi meira en 20 árum eldri en ég en starfið var mjög spennandi. Ég fylgdi því aldrei eftir því mér þótti þetta svo ofsalega óþægilegt. 16. Takk fyrir að stofna til þessarar síðu. Þetta er þörf umræða og löngu tímabær. Þegar harðgiftur eldri fréttastjóri, sem ég leit upp til og hafði ávallt átt góð og fagleg samskipti við, lætur af störfum kveður hann mig með þeim orðum að hann langi í sleik við mig í kveðjuskyni. Nýja starf hans kallaði á töluverð samskipti við fjölmiðla og mér fannst ávallt vont að þurfa að eiga samskipti við hann eftir þetta, en neyddist til þess starfs míns vegna. 17. Eiginlega allar vinnusögur sem ég á eru af ákveðnum tökumanni. Þegar ég var nýbyrjuð að vinna á fréttastofunni var hann alltaf að strjúka á mér axlirnar og standa óþægilega þétt upp við mig. Ég bað hann um að snerta mig aldrei aftur mjög hátt yfir alla fréttastofuna og síðan þá er hann með stöðugar aðfinnslur að öllu sem ég geri. Samstarfskonur hafa kvartað undan símtölum á nóttunni og enginn gerir neitt. Stundum var hann að leysa af pródúsenta yfir sumartímann og þá var hann stöðugt að áreita skriftur og promter-stelpurnar. Einu sinni kom ég inn í útsendingarherbergi og þá var hann að þrábiðja stelpu um að setjast í fangið á sér af því að það væru engir stólar lausir. Stelpan var á menntaskólaaldri og að leysa af á promter. Henni var greinilega brugðið og reyndi að koma sér undan og inn í útsendingu. Ég varð brjáluð og sagði honum að láta stelpurnar í friði og að enginn hefði gaman að þessu. Hann varð pirraður á mér og sagði að ég hefði engan húmor. Hann var bara sko aðeins að djóka í stelpunum. Létta stemninguna á vaktinni. Ég er ennþá reið við sjálfa mig að hafa ekki tekið þetta atvik lengra. 18. Á einum vinnustað var ég eini kvenkyns blaðamaðurinn og þar ríkti mjög karlægur grófur húmor sem stundum gekk ansi langt. Ritstjórinn var sjálfur mannanna verstur. Ef fólk kvartaði var það kallað væl eða fólk var „kellingar“ í niðrandi merkingu. Oft var sagt að hinn og þessi kvenkyns viðmælandi væri ríðileg. Þessi menning var þó bara ein af ástæðum þess að ég yfirgaf þennan vinnustað. Það var farið fram á mikla vinnu fyrir lág laun. 19. Ég held að mörgum okkar þyki við bæði heppnar og finnist kannski yfir litlu að kvarta ef við höfum ekki lent í ofbeldi eða líkamlegri áreitni í vinnunni. En það er auðvitað af nógu að taka ef á að fara að taka saman óviðeigandi athugasemdir og meint hrós fyrir útlit í gegnum tíðina. Að ekki sé talað um erfiða og illskiljanlega baráttu fyrir að fá greitt sömu laun og karlkyns kollegar okkar fyrir sömu vinnu. Karlkyns ritstjóri fréttastofu sem ég vann hjá færði mig til í starfi, að mér forspurðri. Hann boðaði mig á sinn fund degi fyrir mánaðarmót, hringdi í mig og sagði að fundurinn gæti ekki beðið. Ég var því viðbúin því að hann ætlaði að segja mér upp störfum og hann lét að því liggja að það hefði staðið til en aðrir samstarfsmenn hefðu hvatt hann til að gera það ekki. Hann sagðist því ætla að gefa mér eitt tækifæri. Ég hafði þarna unnið við fjölmiðla í 12 ár. Það fyrsta sem hann sagði á fundi okkar um fyrirhugaðar breytingar var að ég væri með allt of há laun (ég veit fyrir víst að karlkyns samstarfsfélagar mínir voru með sambærileg laun eða hærri). Þar sem hann gæti ekki lækkað launin mín yrði ég að standa mig og taka að mér meiri ábyrgð fljótlega til að réttlætanlegt væri að greiða mér þessar himinháu upphæðir í hverjum mánuði. Að lokum sagði hann að ég væri í raun mjög heppin, og taldi svo upp nöfn þó nokkurra fjölmiðlakvenna sem hafa staðið sig afar vel í sínum störfum en áttu, að hans sögn, það allar sameiginlegt að hafa fengið sitt fyrsta tækifæri undir hans leiðsögn. 20. Fyrsta starfið sem blaðamaður var á litlum fjölmiðli þar sem eingöngu voru karlar í ritstjórn. Þeir tóku mér afskaplega vel og kenndu mér margt. Á fjölmiðlinum hafði hins vegar starfað lausapenni sem hafði beðið um fastráðningu áður en ég var ráðin og ekki fengið. Hann tók ráðningu minni ekki vel. Hann kallaði mig aldrei annað en „stelpuna“. Dæmi: „Á ég að skrifa um þetta, eða ætlar stelpan að gera það?“ Ég hitti þennan mann aldrei, því hann var ekki með aðstöðu á skrifstofunni, en var stundum í tölvupósts- eða símasambandi við hann. Eitt sinn þegar ég var á vettvangi elti hann mig og tók myndir af bílnum sem ég var á og sendi yfirmanni mínum, því hann var viss um að ég væri að svíkjast undan í vinnunni. Yfirmaður minn gerði rétt og sagði mér frá þessu, og þessi maður fékk ekki fleiri verkefni hjá miðlinum. 21. Ég gæti tilheyrt mörgum svona hópum og komið með sögur, t.d. í banka-, sölustörfum, skrifstofustörfum og sem þjónn. Langoftast hafði það að gera að vín var haft um hönd og giftir menn gengu óþægilega langt, „fulli karlinn sem er bara alltaf svona“ eða miklu eldri karlar að strjúka mér um rassinn þegar ég þjónaði til borðs og spyrja mig hvort ég gæti ekki hitt þá eftir vinnu. 22. Eftir samfagnað eitt haustið fór stór hluti hópsins niður í bæ á skemmtistað. Þar leitaði ein stór fyrirmynd mín, giftur og miklu eldri, stanslaust á mig, sama hvað ég færði mig úr stað og forðaðist hann. Hann elti mig eins og bráð og hætti ekki fyrr en annar karl setti mig í hálfgert skjól og annar kom honum heim í leigubíl. Það sáu þetta allir og ég var reyndar ánægð með félaga mína þarna. Þegar hann var svo farinn sagði ein samstarfskona mín: „Það lendir alltaf einhver í honum í hvert sinn. Núna varst það þú.“ 23. Í starfi mínu í dag, þar sem ég ræð mér sjálf og mínum verkefnum, gerist öðru hverju að (einmitt) miklu eldri menn í félagsskap með eintómum körlum kalla mig sætu stelpuna með myndavélina og ég hef oft verið beðin um að koma skilaboðum til yfirmanns míns (sem er ekki til) ef menn eru ósáttir við eitthvað eða vilja fá að tala við einhvern karl. Ég vil taka fram að langflestir sem ég hef haft það tækifæri að vinna með og fá innsýn inn í verkefni og störf hjá eru yndislegt fólk, konur og karlar á öllum aldri, og mikil fagmennska hefur ríkt og ég bæði rekið mig á og fundið styrkleika mína. 24. Eitt mjög nýlegt dæmi. Þekktum manni er boðið í viðtal til mín og samstarfs manns míns. Þegar hann mætir í hús fer ég og tek á móti honum. Hann heilsar mér með þeim orðum hvað ég sé rosalega sæt. Og talar bara um það þar til ég bið hann um að hinkra frammi þar til röðin komi að honum. Eftir smástund kemur hann inn í stúdíóið til okkar og byrjar að taka af mér myndir með þeim orðum að ég sé svo sæt. Samstarfsmaður minn var sem betur fer fljótur að átta sig á aðstæðunum og leiddi manninn fram með þeim orðum að við myndum sækja hann þegar til þess kæmi. Viðtalið fór svo fram og ég lét sem ekkert væri, enda erum við ekki vanar að vera með vesen. 25. Flestir, ef ekki allir, samstarfsmenn mínir í dag eru blessunarlega yndislegir og bera virðingu fyrir okkur fréttakonum. Hlutirnir voru örlítið erfiðari þegar ég starfaði sem skrifta, en þá voru einn eða tveir sem komu reglulega óþægilega nálægt manni og hlógu svo að því að þeim hafi tekist að láta mig roðna. Nú eða þeir sem sögðust vera með skriftublæti. Ef ég var fín í vinnunni þá báðu þeir mig að snúa mér í hring eða sögðust alls ekki geta unnið með mig svona. Alls kyns bögg varð bara hluti af starfinu en ég veit að skriftustarfið er nú orðið mun betra í dag. Sem fréttamaður hef ég hins vegar lent í alls konar skrýtnu með viðmælanda. Eitt sinn tók ég viðtal við mann á áttræðisaldri sem er fyrrum alþingismaður. Viðtalið var tekið fyrir utan heimili hans en hann heimtaði að ég kæmi með sér aðeins inn fyrir til að ræða málin áður en viðtalið byrjaði. Ég reyndi fyrst þetta kurteisa „ég er á skónum, eigum við ekki bara að fara yfir þetta í anddyrinu“ en hann hélt nú ekki og hlammaði sér í hægindastól svo ég settist á móti honum. Þá setti hann vinstri löppina upp á stólarminn, og sat útglenntur beint á móti mér, á meðan hann spurði mig hvaða gráður ég væri með og hvaðan fallega nafnið mitt kæmi. Ég fraus og varð eiginlega orðlaus. Það eina sem ég hugsaði um allan tímann var að leyfa honum ekki að slá mig útaf laginu, horfa beint í augun á honum og aldrei niður á útglennt klofið. Ég næ að koma honum út úr húsi 10-15 mínútum síðar (hann sat útglenntur allan tímann) og þegar viðtalið er að hefjast segir tökumaður við mig að ég ætti að fara aðeins nær honum með míkrafóninn. Þá segir viðmælandinn „Æ, já gott að fá þig nær, núna í dag þorir maður varla að brosa til kvenmanns þá er það orðið áreiti, svo endilega komdu nær“ og glotti mikið. Þetta var hrikalega óþægilegt viðtal. Ég er ýmsu vön en þetta situr í mér og ég sé ennþá eftir því í dag að hafa ekki látið gamla manninn heyra það. 26. Ég vann lengi vel á mjög karlægum vinnustað. Var nánast eina konan. Ég var sem betur fer laus við áreitni samstarfsmanna í minni deild (aðeins einn sem fór yfir strikið í samskiptum) en hins vegar átti ég mjög erfitt með hversu karlægt umhverfið var og lítið gert úr mér þegar ég reyndi að brydda upp á mikilvægi fjölbreytileika og að kynin skiptu bæði máli, ekki bara karlar. Ég var þessi sem var með vesen, vissi ekkert um hvað ég var að tala og lifandi sönnun þess að það var miklu betra að hafa bara karlmenn á þessum vinnustað. Það var ekki sagt beinum orðum (ekki langt frá því þó) en það var augljóst á viðbrögðunum sem ég fékk þegar jafnréttismál báru á góma. 27. Fyrrverandi framkvæmdastjóri fjölmiðlafyrirtækis áreitti svo margar kvenkyns starfskonur, (með því að kommenta á vaxtarlag, segjast hafa verið að hugsa um viðkomandi við undirritun starfsmannasamnings, senda óviðeigandi skilaboð á Facebook, reyna við á árshátíð rétt áður en konan hans mætti á svæðið og svo mætti lengi telja) að ég hefði nánast mátt taka það persónulega að hafa ekki lent í honum þannig. (Augljóslega grín!) Sögurnar eru ótalmargar og hafa gengið um í fjöldamörg ár en hann komst upp með að halda starfi sínu jafnvel eftir að ég heyrði að hann hafi látið konu fjúka sem vildi ekki sofa hjá honum. 28. Fyrir nokkrum árum veiktist ég alvarlega og fitnaði mikið í framhaldinu. Eftir það fékk ég stanslausar athugasemdir um útlitið mitt og klæðaburð og það þykir enn fyndnara þegar sem flestir eru í kring og geta hlegið með að mér.Ein athugasemdin var á þessa leið frá yfirmanni mínum: „Hvernig gengur að bera allt ljósmyndadótið þitt með svona rosalega stóran rass, það hlýtur að vera rosalega erfitt?“ Aðrir ljósmyndarar tóku myndir á íþróttaviðburðum og höfðu stundum myndir af bakhlutanum á mér með í myndaveislum „því það var svo ógeðslega fyndið hvað ég er með ógeðslega stórt rassgat.“ Eftir að ég fékk viðeigandi sjúkdómsgreiningu og lyf grenntist ég aftur. Ég hef setið nokkra fundi undanfarið útaf mínum málum og það er enn verið að minnast á útlitið á mér. Hvað ég sé breytt, hvað ég sé orðin grönn og hvað hafi nú eiginlega gerst fyrir mig með handahreyfingum og undrunarsvip á andlitum og bætt við „og það eru allir að tala um það.“ Ég er ekki að mæta á þessa fundi til að tala um útlitið mitt. Ég mæti á þessa fundi til að vonast til þess að ná til yfirmanna svo þeir taki almennilega á málum þannig að fólk sé ekki í hættu, líði illa eða þurfi að flýja þennan starfsvettvang vegna eineltis og ofbeldis. 29. Einu sinni tók ég viðtal við eldri mann sem hafði dottið út af þingi. Þegar viðtalinu var að ljúka vildi hann endilega leyfa mér að hlusta á lag sem var honum kært. Á meðan ég sat og hlustaði á þetta lag færði hann sig nær og fór að strjúka á mér hendurnar. Ég gerði mig líklega til að fara en hann ítrekaði að ég yrði að heyra lagið. Ég dreif mig síðan út, en þá byrjaði hann að hringja á eftir mér inn á ritstjórnina og segja mér að koma aftur, því ég hefði gleymt einhverju. Ég afþakkaði það og henti viðtalinu. 30. Þegar ég vann blaðamannaverðlaunin fyrir nokkrum árum fékk ég að heyra frá karlkynskollega að ég hefði unnið vegna þess að ég var kona. Ekki vegna þess að ég leiddi eitt stærsta fréttamál ársins. 31. Ég var fyrsta árs nemi í Blaða- og fréttamennsku þegar ég vann frétt fyrir stúdentavefinn um e-ð mál sem tengdist einum stærsta kaupsýslumanni landsins, þá tæplega sjötugum. Ég beið eftir því að hann og dóttir hans (hans hægri hönd) kæmu út af fundi og spjallaði stuttlega við hann, á göngu, og bað hann svo að stoppa svo ég gæti tekið mynd á símann minn. Þegar ég tók svo aðra mynd, til vara, glotti hann, blikkaði mig og spurði hvort mig langaði svona mikið í mynd af honum á náttborðið mitt? Og dóttur hans virtist ekkert þykja þetta óþægileg athugasemd. Í lokaverkefni mínu í þessu námi tók ég m.a. útvarpsviðtal við gagnkynhneigðan, einhleypan karl heima hjá honum (hann tók á móti mér í náttbuxum og hlírabol) en uppgötvaði við klippingu að mig vantaði svar við einni „krúsjal“ spurningu frá honum svo ég bað um að fá að koma heim til hans aftur til að taka upp þetta eina svar. Hann svaraði því til að það væri sjálfsagt, hann vissi að þetta væri samt bara yfirskin til að fá að hitta hann aftur. Ég snöggreiddist og sagðist aldeilis engan áhuga hafa á honum og ef hann gæti ekki haldið okkar samskiptum á faglegum nótum þá myndi ég bara sleppa þessu. En þá hafði hann „vitaskuld“ bara verið að grínast og ég alltof viðkvæm. Hef aldrei þolað það síðan ef það er haft í flimtingum að ég hafi annars konar áhuga á karlkyns viðmælendum en faglegan þegar ég sækist eftir því að tala við þá. 32. Hann var giftur. Og ritstjóri á stórum fjölmiðli. Samskipti okkar hófust þegar hann sendi mér póst og spurði hvort að ég væri ekki vel ritfær. Ég (kokhraust) hélt það nú. Ég fór að skrifa fyrir hann. Og póstarnir frá honum fóru frá því að vera ópersónulegir til þess að mér væri hrósað fyrir útlit mitt og kynþokka. Gott og vel. Ég féll fyrir þessum manni. Ég harðneitaði að eiga í sambandi við hann nema hann kæmi sér út úr hjónabandinu (sem hann gerði svo að lokum). Ástæða skilnaðar okkar nokkru seinna var einmitt af sömu ástæðu: Hann sagðist vera ritstjóri og bauð þokkafullum konum að skrifa hjá sér...og er sennilega enn við sömu iðju. 33. Ég átti ég að mæta í ljósmyndaverkefni fyrir dagblað 9 um morgun. Ég samþykkti að taka að mér verkefnið og spáði svo ekkert meira í því fyrr en ég fékk símtal frá yfirmanni mínum klukkan 1 um nótt en ég átti að mæta í verkefnið morguninn eftir. Í símtalinu að þá sagði hann mér að hann hefði séð á Facebook að ég væri ennþá vakandi og húðskammaði mig fyrir að vera ennþá vakandi vegna þess að ég væri fyrir að fara að vinna fyrir blaðið og til þess væri ætlast að ég myndi mæta í verkefnin úthvíld svo ég myndi ekki skila af mér sama drasli og venjulega. Ég var þá 38 ára gömul og hafði aldrei mætt of seint og hafði ég aldrei ekki skilað mér í verkefni fyrir miðilinn á þeim 3 árum sem ég starfaði fyrir þau. 34. Virtur og harðgiftur eldri útvarpsmaður, sem gistir á sama hóteli og ég vinnu okkar vegna, ræðst fyrirvaralaust á mig þar sem við erum samferða í lyftunni og treður tungunni á sér ofan í kok á mér samtímis því sem hann þuklar á mér. Nauðar í mér að hann verði að fá að sofa hjá mér þó hann sé giftur. Mér rétt tekst að slíta mig lausa úr krumlum hans og flýja inn á herbergi logandi hrædd eftir árásina. Hafði fram til þessa aldrei átt annað en vinsamleg og fagleg samskipti við manninn, en óttaðist hann lengi á eftir. 35. Einu sinni voru ég og tökumaður að aka á leið í viðtal þegar hann snarhemlaði. Ég hélt að eitthvað hefði komið fyrir eða að barn hefði hlaupið fyrir bílinn en nei ó nei, hann sagðist þurfa að horfa á rassana og brjóstin á stelpum sem voru þarna á gangi, þær væru svo helvíti ríðulegar - ullabjakk. 36. Ég hef íhugað í allan dag hvort ég eigi að setja inn mínar sögur. Þetta er jú lítið samfélag og það er merkilegt hvað maður er í raun upptekinn af því að vernda þá sem fara langt yfir strikið í áreitni. Einu sinni var eitthvað starfsmannapartý sem endaði á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Þar, úti á miðju gólfi og fyrir framan fjölmörg vitni, kom samstarfsmaður minn, á aldri við foreldra mína, og tróð tungunni ofan í kokið á mér. Sauðdrukkinn og leiðinlegur auðvitað. Ég fékk sjokk og þáverandi kærasti varð náttúrulega alveg brjálaður og það sauð næstum upp úr en ég dró hann í burtu til að gera nú ekki meira mál úr þessu. Ég man hvað ég kveið því að hitta hann á vaktinni aftur. En viti menn, hann lét eins og ekkert væri. Ég bara skildi ekki að hann skyldi ekki vera gjörsamlega miður sín yfir ósæmilegri hegðun. Og eiginlega er það verra, einhvern veginn eins og hegðun þeirra hafi ekki verið neitt óviðeigandi á nokkurn hátt og tilfinningar mínar skipti engu máli. Nokkrum árum síðar bauð hann mér vinnu. Sem ég þáði. Það finnst mér einhvern veginn svo lýsandi fyrir þetta skrítnu stöðu sem maður er í stundum. Og ég hef oft hugsað um það og verið með samviskubit yfir því. Í öðru tilfelli var ég ásamt tveimur karlmönnum eftirlegukind í samkvæmi, sem var ekki vinnutengt en ég vann með öðrum þeirra um skamma hríð. Báðir menn miklu eldri en ég. Ég ákveð svo að drífa mig heim og það þarf að taka lyftu niður úr húsinu. Þá kemur þessi samstarfsmaður askvaðandi og drífur sig inn í lyftuna með mér. Skömmu eftir að lyftan er lögð af stað ýtir maðurinn á takka sem stoppar lyftuna, pinnar mig upp við vegg og treður tungunni ofan í mig og segist vilja ríða mér. Ég var logandi hrædd og gjörsamlega frosin og man ekki alveg hvernig það atvikaðist að lyftan fór aftur af stað og ég reif mig lausa og hljóp út. Á sama hátt og í fyrra tilvikinu kveið ég mikið fyrir því að sjá hann í vinnunni, en surprise, surprise, hann lét eins og hann þekkti mig ekki. Sem betur fer stóð nálægð við hann á vinnustað ekki lengi yfir. Þetta atvik sat í mér lengi því þarna upplifði ég mig í raunverulegri hættu. Þriðja sagan er meira svona absúrd. Ég var að fara til útlanda í vinnuferð, bara ég og tökumaður sem var giftur og með börn. Sá átti að sjá um að bóka hótel. Ég treysti því bara. Ég man ekki nákvæmlega hvenær það kom svo í ljós að hann bókaði EITT HERBERGI fyrir okkur bæði „því það var bara eitt laust!“ Mér varð frekar brugðið en það var mjög mikilvægt að við yrðum á þessu tiltekna hóteli svo ég ákvað nú að finna út úr þessu á staðnum. Ég var með hnút í maganum þar til við gengum inn í herbergið og okkur að óvörum og greinilega honum til óánægju var búið að troða litlum barnakojum í anddyri herbergisins. Ég sagði nú strax HJÚKK ég sef þá hér en vonbrigði hans leyndu sér ekki. Alla ferðina var hann svo að gefa í skyn að við ættum nú bara að sofa bæði í rúminu og reyndi að hella mig fulla við hvert tækifæri. Ég gerði mér upp mikla þreytu og fór heim á undan honum en þurfti einu sinni segja honum að vera í sínu rúmi þegar hann kom heim. Síðar frétti ég að hann væri að vinna í því að koma með mér til útlanda í aðra vinnuferð. Þá fór ég á fund yfirmanna og sagði bara hell no að ég fari með honum út aftur og það var bara tekið gott og gilt. Jæja þá er þetta komið út í kosmósið. Þetta eru þær sögur sem eru bein áreitni, en hef auðvitað oft upplifað skeytingarleysi eða að síður sé tekið mark á mér á hinum og þessum vinnustöðum. 37. Oft var talað um að einhverjir væri að fá það eða að frétt væri svo góð að það væri hægt að runka sér yfir henni, talað um að sleikja píkur eða sjúga belli til að ná frétt og annað í þeim dúr. Orðbragð á ritstjórn oft mjög ósæmilegt eins og tala um guggur sem þyrfti að negla eða hversu ríðuleg hin og þessi var. Svo var það myndatökumaðurinn sem tók alltaf fókus af konum með því að súmma inn á brjóstin á þeim eða talaði ekki um annað en rassa, píkur og brjóst á hinum og þessum sem maður var að taka viðtal við. Nú eða samstarfsfélaginn sem káfar alltaf á mér þegar hann er í glasi og klípur í allar konur sem hann kemst nærri. Eða þessi sem rassskellti mig fast á miðjum degi á fréttastofunni, bara svona upp úr þurru. Eða fréttamennirnir sem skiptust á sögum um júllur og mældu allar fréttir í skálastærður (þessi frétt var ekki nema 34A). Listinn er langur. Staðan hefur samt skánað helling síðustu 4-5 ár eða svo og þakka ég það umræðunni síðustu ár. 38. Ritstjóri á fjölmiðli sem ég vann einu sinni á var mjög oft einstaklega óviðurkvæmilegur. Hreykti sér að kynlífi sínu og reyndi ítrekað að koma að kynferðislegum athugasemdum, sem yfirleitt voru úr takti við umræðuna sem var í gangi. Einu sinni var fjöldi mynda af typpum inni í myndakerfinu hjá okkur, vegna umfjöllunar sem annar blaðamaður var að vinna. Ég rakst á þessar myndir og varð á að segja um eina þeirra að ég teldi að þetta hlyti nú að vera feik. Enginn væri með svo stórt typpi. Ritstjórinn kom að sjálfsögðu hlaupandi, kíkti á myndina og spurði mig: „Hva, ertu með svona þrönga píku?“ Þetta sagði hann yfir alla ritstjórnina. Ég verð sjaldan kjaftstopp, en það gerðist þarna. Sami ritstjóri spurði mig ítrekað, þegar ég tók viðtöl við karlmenn, hvort ég hefði sofið hjá þeim. Þá bað hann oft sérstaklega um að ég fengi kvenkyns viðmælendur til að vera í þröngum fötum við myndatökur. Ég veit að þessi ritstjóri hafði engan áhuga á mér kynferðislega og finnst mikilvægt að halda því til haga að kynferðisleg áreitni felst ekki bara í því að einhver reyni að komast yfir mann. Hún felst líka í óviðurkvæmilegum athugasemdum og ógeði sem maður þarf stundum að þola. 39. Ég á svo margar svona sögur en það er eiginlega fyrst að renna upp fyrir mér núna, við það að lesa sögurnar ykkar, hvað maður hefur látið mikið yfir sig ganga. Get t.d. nefnt samstarfsfélagann sem tjáði mér það í glasi, fullur fyrirlitningar, að ég ætti ekkert að vera að skrifa pistla; það væri öllum skítsama um skoðanir mínar. Skömmu seinna gekk hann upp að mér í vinnunni og kyssti mig rembingskossi beint á munninn til að óska mér til hamingju með afmælið. Ég var svo hissa að ég bara fraus en varð svo öskureið því mér fannst hann hafa smættað mig og tekið eitthvað frá mér með valdi, á meðan ég átti engin svör eða úrræði vegna hegðunar hans. Mig langar líka að nefna annað, því mér finnst það til marks um það hversu erfitt þetta er viðfangs, og það er þegar giftir samstarfsfélagar hafa verið að reyna fyrir sér. Ég hef svo sem ekki kippt mér upp við viðreynslurnar sem slíkar en það er ömurleg tilfinning að hitta svo konurnar þeirra og upplifa þá tilfinningu að ég sé einhvern veginn samsek af því að maðurinn þeirra káfaði á mér. Og líka að upplifa að þurfa að þegja um það til að valda þeim ekki vandræðum heima fyrir. Þá þykir mér sorglegt að það er ekki kynferðislega áreitnin sem hefur sviðið mest; maður er (því miður) orðinn vanur henni frá unga aldri. Það sem hefur verið sárast er að upplifa að vera mismunað varðandi laun og stöður vegna þess að maður er kona. Fokk that shit. 40. Þegar ég var nýbyrjuð fór ég í tökur með eldri tökumanni, við vorum að taka viðtal við unga konu, ekki tvítuga, sem var meðal annars mjög falleg. Þegar út í bíl var komið sagði hann eitthvað um það hvað hann væri til í að ríða henni. Ég benti honum á að mér þætti óþægilegt að heyra svona, hann mætti eiga þetta alveg fyrir sjálfan sig, og svo spurði ég, því ég þekki fyrrverandi konuna hans: Er ekki yngri strákurinn ykkar jafngamall henni? Þá kom aðeins á hann, að ég skildi nefna hana, og hann sagði mér sko að hann væri með reglu að fara ekki neðar en strákarnir hans væru gamlir. Ég hló bara. Þegar ég kom aftur í hús talaði ég við pródúsentinn minn, þarna var ég búin að vera að vinna þarna í stuttan tíma, og „vildi ekki vera með vesen.“ Svo ég spyr hvort ég geti séð tökumannavaktirnar, og hagað tökunum mínum eftir því því að ég hefði lent í óþægilegu atviki. Pródúsentinn spyr mig með hverjum, og fyrst vil ég ekki segja - en hann spyr hvort það hafi verið þessi kall. Og þá fæ ég nokkrar sögur af viðbjóði af honum - og að stelpurnar vilji helst ekki vinna með honum. Ég hneykslast á því að maðurinn haldi vinnunni, en hagræði tökum mínum í kringum vaktir tökumannanna allan tímann sem ég er þarna. Veit til þess að hann er ennþá vinnandi, og að hegðun hans er alræmd og allir vita hvað er í gangi. 41. Fyrir allnokkrum árum var samstarfsmaður minn að horfa á gróft klám í vinnutölvunni sinni, eins og ekkert væri eðlilegra. Hann var þekktur af því að horfa á klámfengið efni á vinnutíma. Ég var á vakt og rak í þetta augun, en á leiðinni á mína vinnustöð þurfti ég í opnu rými að ganga framhjá manninum sem sneri baki í mig og skjárinn því fram. Honum var slétt sama þótt fólk væri í kringum hann. Myndefnið setti mig verulega úr jafnvægi og jók enn á óþægindin að ég var á leið í beina útsendingu. Ég setti strax ofan í við manninn og gekk eftir útsendingu á fund yfirmanns hans, sagði að mér væri slétt sama hvað hann gerði heima hjá sér, en að horfa á klám í vinnunni væri ólíðandi. Maðurinn var mildilega tekinn á teppið í framhaldinu. Ögn síðar fann hann sér viðhlæjendur, taldi að það væri nú aldeilis viðkvæmnin í sjónvarpskonunni, uppdiktaði einhverja sögu og kvað það hafa verið algera tilviljun að rata inn á klámsíðu. Blaðamaður nokkur sem hlustaði ákvað að skrifa þessa ,,tilviljun” með háði inn á síðu eins stærsta dagblaðs landsins. Ritstjórinn gerði ekki athugasemd og fullyrti eftir á að þetta hefði farið framhjá sér. Mjög ófaglegt og niðurlægjandi umhverfi. Sem betur fer væri þetta ekki liðið í dag. 42. Þegar ábyrgð mín og viðvera við sjónvarpsþátt sem ég vann við vað meiri en um var samið langaði mig í eðlilega launahækkun, sérstaklega þegar ég frétti hvað strákurinn sem sat við hliðina á mér fékk mikið. Sá samstarfsmaður stendur þétt við bakið á mér í gegnum þetta allt. Ég bið um fund með dagskrárstjóra - segi að ég vilji hækkun á launum, því þegar við erum tvö föst í þættinum sé jafnræðið það mikið hvort eð er. „Hann er búinn að vinna hér svo lengi.“ Við erum með jafnlanga reynslu af vinnu við fjölmiðla, ég er með stúdentspróf ekki hann auk þess sem fyrirtækið borgaði MBA-námið hans. Þau ætla að hugsa málið og ég fæ nýjan fundartíma, á afmælinu mínu. Þegar ég kem á hann er dagskrárstjórinn hvergi sjáanlegur, hann gleymdi fundinum. Fulltrúi hans segir að það sé bara alls ekki hægt að hækka launin mín og spyr svo: „Veistu hvað eru margar stelpur sem myndu vilja vera í þessari vinnu?“ Ég sagði þá bara að það yrði þá lítið mál að finna einhverja í minn stað og tilkynni að ég ætli að vinna út mánuðinn og sé svo farin. 43. Fyrir 11 árum hóf ég störf sem blaðamaður og fór að vinna hjá stóru fjölmiðlafyrirtæki. Ég var vöruð við ákveðnum ljósmyndurum sem voru víst pervertar. Þetta var bara sagt við mig eins og ekkert væri eðlilegra um leið og mér var bent á hvar mötuneytið og prentarinn var staðsettur. Innan mánaðar byrjaði áreitni sem snérist um að benda mér á í hverju ég var ef ég var að tala fyrir framan hóp af fólki: „Er þér ekki kalt í klofinu í þessu stutta pilsi?“ og „Leyfðu mér að sjá hvað stendur á rassgatinu á þér“ (gallabuxur með lógó) - ég endaði á því að forðast að tala ef ákveðnir pervertar voru á svæðinu. Ég sagði upp starfi mínu hjá þessu fyrirtæki þegar mér var neitað um launahækkun eftir meira en ár í starfi á svipuðum tíma og 23 ára strákur án stúdentsprófs var ráðinn á tímarit á sama fjölmiðli með 25% hærri laun en ég, sem var með lengri starfsaldur og háskólagráðu. Mér var tjáð að ef laun mín yrðu hækkuð um 10 þús kall gæti fyrirtækið farið á hausinn, það stæði nefnilega svo illa. Komst að því síðar að flestir karlar þarna voru með þreföld laun á við mig. Svo þegar ég fór að skrifa pistla og fréttir á öðrum fjölmiðli og eitthvað af því fékk góðan lestur þá komu athugasemdir frá körlum á ritstjórn: „Magnað hvað fólk nennir að lesa mikið rugl“ og „Fólk smellir bara því þú ert sæt.“ Ef Alþingisrásin var í gangi voru þingkonur í pontu kallaðar: „Feitar mellur“ og „hórur“ og ALLTAF kallaðar „kerlingar.“ Og hlegið að klæðaburði. Þegar ég gerði athugasemdir við þetta var ég sögð viðkvæm, kölluð femínisti (eins og það sé móðgun lol) og þeir urðu fúlir og jaðarsettu mig þannig að þeir hættu að tala við mig. Þegar ég gekk inn á ritstjórn var sagt: „úú, passið ykkur, femínistinn er mættur.“ Ég sagði upp stuttu síðar. 44. Skrifaði langa fréttaskýringu með karlkyns samstarfsmanni sem vakti talsverða athygli. Útvarpsmaður hafði samband við samstarfsmanninn og spurði hvort við værum til í að koma í viðtal um greinina. Í viðtalinu yrti útvarpsmaðurinn varla á mig, heldur beindi öllum spurningum til samstarfsmannsins. Án djóks, ég þurfti að grípa fram í fyrir þeim svo ég fengi að segja nokkur orð í viðtalinu. Þess má geta að ég er með talsvert lengri fjölmiðlareynslu en samstarfsmaðurinn. 45. Alþekkt er að konur er smættaðir í útlit sitt og það er vel þekktur veruleiki fjölmiðlakvenna í sjónvarpi. Reynsla, menntun eða fagmennska er aukaatriði – útlitið fyrst og fremst. Karlar komast upp með allskonar útlit – konur ekki. Þegar ég starfaði á sjónvarpsstöð fyrir nokkrum árum varð mér fljótt ljóst að karlkyns yfirmönnum og valdatýpum þar var full alvara með að konur ættu fyrst og fremst að vera sætar og mjóar. Ummæli og staðhæfingar þess eðlis voru margoft höfð við í fullri alvöru. Til dæmis komu einu sinni nemar í fjölmiðlafræðinni í starfskynningu, var náttúrulega hent í fulla vinnu í nokkra daga frítt. Jæja, ein ung kona þar skaraði fram úr svo eftir var tekið, enginn byrjendabragur á hennar framlagi. Ég benti yfirkörlum á þetta – það var þörf á fleira starfsfólki í afleysingar. Þeir drógu seiminn en sögðu svo alveg kaldir að hún myndi allavegana aldrei fara í sjónvarpið. Hún væri feit og ekkert fyrir augað. Ég varð bara kjaftstopp. Þarna voru yfirmennirnir karlar og höfðu það eitt til málanna að leggja við mig og aðrar konur sem þarna störfuðu hvernig við ættum að líta út. Efnislegar ráðleggingar engar - bara ábendingar um útlit og klæðaburð. Þetta er svo svívirðilegt viðhorf karla sem fara með völdin í faginu. Algerlega óþolandi, niðurlægjandi og skemmandi. 46. Þegar ég var nýbyrjuð að vinna í fjölmiðlum gefa tveir karlkyns kollegar út sjálfshjálpargrínbók. Þar var stungið upp á að ef ég vildi ná langt í þessu, „verða frægari,“ ætti ég að vippa í í eitt „goodshit hálftíma kynlífsmyndband,“ og ekki væri verra ef einn gamall fjölmiðlamaður myndi joina. Þetta fannst mér gríðarlega óþægilegt og fáránlegt, og í alvöru jaðra við áreitni - ef þetta hefði verið sagt við mig beint væri það tvímælalaust áreitni - en af því þetta var gefið út á prenti var ég bara húmorslaus og leiðinleg að þykja þetta ekki upphefjandi heiður. Þess má þó geta að annar mannana sem þetta skrifaði hefur sett sig í samband og vill biðjast afsökunar, og segir að brandarinn sé ósmekklegur og ekki fyndinn, og yrði aldrei prentaður í dag. Hinn heldur ennþá á lofti gríntjáningarfrelsinu og jákórinn jarmar með. 47. Ég man vel eftir tökumanninum sem við fréttakonurnar forðuðust að bóka en þurftum þess auðvitað þegar enginn annar var laus. Það fannst bara öllum konunum óþægilegt að vera nálægt honum. Tökumennirnir voru alltaf bílstjórarnir þegar við fórum út í viðtöl og mér er sérstaklega minnistæð saga frá samstarfskonu minni sem var varla sest inn í bílinn til hans í nístandi frosti og hann horfði glottandi á hana og spurði: Viltu fá heitt í rassinn? Þetta var sumsé hans leið til að spyrja hvort hún vildi að hann kveikti á sætishitaranum. 48. Ég fór líka fyrir nokkrum árum erlendis í vinnuferð með tökumanni og hann hætti ekki að tala um hvað það hefði nú verið fáránlegt af pródúsentinum að panta tvö hótelherbergi fyrir okkur - við þyrftum auðvitað bara eitt. Eftir nokkrar svona athugasemdir snöggreiddist ég og sagði honum að þetta djók hans væri ógeðslega óviðeigandi í vinnuferð og bað hann að hætta þessum perrakommentum. Hann hélt sig á mottunni gagnvart mér eftir það en sögurnar eru ansi margar og hann gengur bara á línuna. Ömurlegt dæmi. 49. Giftur íþróttafréttamaður sem var að fjalla um stórmót erlendis fyrir nokkrum árum fyrir sinn miðil leiddist greinilega töluvert á kvöldin og byrjaði að spjalla við mig í gegnum Facebook. Allan tímann reyndi hann að koma inn einhversskonar kynferðislegum athugasemdum eða reyndi að fá spjallið þannig að það myndi snúa um kynlif. Ég hafði engan áhuga á því og náði að eyða þessu með tímanum. Svo vorum við á sama leik í úti á landi og þegar ég er komin heim að þá fékk ég símtal frá honum um hvort hann mætti koma í heimsókn? Ég spurði undrandi: Í heimsókn, af hverju í ósköpunum ættir þú að koma í heimsókn? Já, hann svaraði að það gæti verið gott að hafa góða að til að hjálpa mér að komast að hjá fjölmiðlafyrirtækinu sem hann starfaði hjá. 50. Ég vann með reynslumiklum fréttamanni sem var virtur út á við í sínu fagi. Hann gaf og gefur sig enn út fyrir að vera mikill femínisti og talsmaður kvenfrelsis. Hann bað mig gjarnan um að horfa á sjónvarpsfréttir sem hann hafði unnið áður en þær færu í loftið svo ég gæti komið með hugmyndir að úrbótum ef ég vildi. Mér brá því nokkuð þegar ég heyrði frá karlkyns samstarfsmönnum mínum að hann talaði mikið niðrandi um konur og hversu ríðulegar þær væru. Þetta gerði hann jafnvel þegar viðkomandi kona var aðeins einum glervegg frá þeim þannig að allir viðstaddir sáu konuna á meðan hann var að tala niðrandi um hana. Við þetta bættist síðan að tökumenn, sem voru allir karlkyns, fóru að tala um hvað það væri óþolandi að fara með þessum fréttamanni í viðtöl því hann væri stöðugt að tala um hvernig hann langaði að ríða konunum sem hann var að taka viðtal við. Mörgum fannst líka óþægilegt að hann var mikið að setja hendina ofan í buxurnar sínar til að hagræða limnum bara svona á meðan hann var að spjalla við fólk. Honum var á endanum sagt upp. Uppgefin ástæða var skipulagsbreytingar en ég veit að hluti af ástæðunni var sá fjöldi fólks sem hafði kvartað undan honum. 51. Helsta áreitnin, sem ég hef orðið fyrir í störfum mínum á fjölmiðlum hefur verið í gegnum tölvupósta og símtöl í kjölfar þess að ég hef skrifað skoðanapistla um jafnrétti og femínisma. Hér er eitt dæmi (b.t.w.: ég geymi ALLA þessa pósta og stafsetningin er sendandans): Heil og sæl, það versta við ykkur Femínista er að þið virðist vita lítið. Þið þurfið að ríða meira og þá vitiði kannski meira. Þegar ég var í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku fyrir nokkrum árum vorum við í starfsnámi á fjölmiðlum. Á einum staðnum, sjónvarpsstöð, spurði gamalreyndur fréttakarl: Eru ekki bara miðaldra kellingar í þessu námi? Svona kellingar sem enginn er að fara að ráða í vinnu á fjölmiðli? (N.b. hann var miklu meira en miðaldra ..) Svo hló hann og hló, enda rosa fyndinn. Ég (sem var 38 ára og pottþétt miðaldra í hans augum) benti þessum hressa kalli á að á hans vinnustað ynnu nánast engar miðaldra konur, þetta væri akkúrat hópurinn sem vantaði í þessa starfsgrein og þess vegna alveg ljómandi gott að þær væri að læra þetta fag. Svarið var: Af hverju? Konur á þessum aldri eiga ekkert erindi á skjáinn. 52. Mig langar fyrst að þakka öllum konum sem hafa deilt reynslusögum hér á þessari síðu. Að segja frá er óendanlega mikilvægt. Og að finna samkenndina hér á þessum vettvangi er ómetanlegt. Það er ástæða til að ítreka hvað það skiptir miklu máli að fá þessar sögur fram. Í samtölum undanfarið við konur í þessum hópi hef ég fundið að sumar eru hikandi að stíga fram og þá er ástæðan oft hræðsla við að aðrar konur í hópnum gætu þekkt viðkomandi geranda í þeirra sögum, enda er fjölmiðlaheimurinn tiltölulega lítill og mörg sambönd hafa orðið til innan hans. Mig langar svo að minna á að það er einmitt þvert á móti full ástæða til að stíga fram og segja frá, jafnvel þótt vitað sé að kona tengd geranda sögunnar muni lesa hana. Hún gæti hafa lent í því sama, eða einhverju miklu verra af hálfu sama karlmanns – og fyrir vikið fundið fyrir auknum styrk til að takast á við afleiðingar af því með því að sjá að hún er ekki ein. Karlar sem grípa í kynfæri kvenna, horfa stanslaust á brjóst, eru með dónakjaft, vilja bara tala um kynlíf, kalla konur ríðulegar, setja allt mögulegt í kynferðislegt samhengi, koma með óviðeigandi athugasemdir, senda óumbeðin skilaboð með kynferðislegum undirtón eða almennt hafa orðið uppvísir að einhvers konar kynferðislegri áreitni eða ofbeldi …þeir gera þetta ekki bara einu sinni. Það er miklu frekar undantekning ef þetta eru stök tilvik. Þetta er hegðunarmynstur sem þeir tileinka sér og einmitt þess vegna skiptir máli að segja frá. Við getum sótt svo ótrúlega mikinn styrk í það að vita að við erum ekki einar. Ástarkveðjur og höldum áfram að deila. 53. Á mínum vinnustað stóðu yfir framkvæmdir í sumar sem ollu því að hér þurfti að færa til skrifborð og fólk sat þröngt um tíma þar til þessu var lokið. Eitt sinn var búið að raða fjórum samstarfskonum mínum upp á stórt borð þar sem þær sátu allar í röð með sínar tölvur og síma. Ég sagði eitthvað á þá leið að þetta væri eins og símaver. Kemur þá karlkyns kollegi (undir fertugu btw) og bætir við „Hey já, þetta er bara svona eins og klámlína!“ og hló svo að eigin brandara, fannst hann mjög fyndinn. Enginn annar hló og ekki veit ég hvaða brautir það voru sem tengdust í heilanum á honum og urðu til þess að þessi athugasemd kom upp í huga hans. Því síður skil ég hvernig honum gat fundist við hæfi að tala svona um samstarfskonur sínar. Það fauk í mig og ég spurði hvort honum fyndist þetta virkilega fyndið? „Uh já“ var svarið og svo gekk hann í burtu með hendur í vösum. 54. Í 5-6 ár hef ég fengið óviðeigandi athugasemdir um útlitið mitt þegar ég mæti í vinnuna.Ég fæ einkaskilaboð á Facebook um hvað það sé gaman að horfa á mig í mínum störfum, að það sé ekki hægt að hætta að horfa á rassinn á mér og að þeir vinirnir sitji allir saman og tali um það, hvort að hann megi koma í heimsókn og taka mig og hvort ég fái það örugglega ekki reglulega í rassinn Hann addar mér reglulega á Snapchat þar sem hann sendir mér myndir af vinum sínum ber að ofan, hvort að þeir megi mæta í heimsókn. Mér finnst mjög óþægilegt að mæta starfsins vegna þegar hann er í vinnunni eða þegar ég er að störfum þar sem hann vinnur.Ég sé hann stundum með vinum sínum og þá er svona „skítaglott“ á þeim þar sem þeir mæla mig út.Þegar ég starfs míns vegna þarf að mæta þar sem hann er fæ ég yfirleitt skilaboð sama kvöld. Það sem mér hefur þótt verst í þessu er að ég hef ekki getað farið neitt til að kvarta yfir þessu. Það hefur yfirleitt ekki verið gert neitt þegar kvartanir á borð við þessar eru lagðar fram svo þarna er „önnur kynslóð“ áreitis að alast upp 55. Ég held að grímulausasta kynbundna mismununin sem ég hef lent í hafi verið þegar ég var rétt um tvítugt. Ég fékk skemmtilega vinnu á vinnustað sem gaf m.a. út vikublað. Ég var ráðin til aðstoðar við ýmis störf og þegar mér ofbauð hversu lítið var skrifað um íþróttaleiki kvenna og benti á það, fékk ég leyfi til þess að skrifa fréttir um íþróttir kvenna. Eftir nokkurn tíma var skipt um yfirmann. Hann var ekki búinn að vera lengi á staðnum þegar hann kom til mín og sagði mér að ég þyrfti að þrífa klósettið. Ég sagði honum að það væri ekkert frekar í mínum verkahring heldur en hinna karlmannanna á vinnustaðnum ( ég var eina konan). Yfirmaðurinn tjáði mér þá að sá sem væri með lægstu launin ætti að þrífa klósettið. Ég þá tvítug sneri upp á mig og sagði honum að ég væri ekki með lægstu launin heldur karlkyns nemi sem var þar í námi. Yfirmaðurinn horfi á mig undrandi og spurði er X með minni laun en þú og hann er fyrirvinna á sínu heimili. Daginn eftir hækkaði hann launin hjá nemanum yfir mín laun. Þá var ég orðin launalægst í fyrirtækinu og klósettið mitt. Ég stóð með sjálfri mér og sagði upp þann dag. 56. Þegar ég er búin að vinna hjá fjölmiðlasamsteypu í 4 mánuði kallar dagskrárstjóri mig inn á fund, og skipar mér að hætta að skrifa pistla fyrir annan fjölmiðil. Þegar ég réð mig var það hluti af samkomulaginu að ég fengi að halda því áfram. Hann segir að þetta sé alveg ótækt, ég segist ætla að pæla í þessu, enda á leiðinni í tökur. Þegar ég kem aftur í hús er hann ekki við, svo ég skrifa póst. Bendi á að strákarnir innan fyrirtækisins séu með aukagigg innan annara fjölmiðla. Einn fréttamaður mæti einu sinni í viku á útvarpsstöð annars miðils að fara yfir fréttir vikunnar, útvarpsmaður skrifaði fréttaskýringar fyrir fréttablað, íþróttafréttamaður skrifaði íþróttapistla fyrir dagblað, pistlahöfundur reki sinn eigin fjölmiðil, og svo mætti lengi telja. Viðbrögðin? „Ef þú ætlar að vera svona hysterísk yfir þessu, má þá bjóða þér að skrifa í okkar blað?“ Uh, nei takk. 57. Ég er búin að vega margt og meta síðan þessi hópur var stofnaður, og í raun síðan #metoo fór af stað. Mig langar að segja frá mörgu, en bara einfaldlega meika það ekki því ég nenni ekki shitstormi (þó að hann verði bara í hausnum á mér). En varðandi yfirmenn ætla ég að segja eina sögu: Ég hef unnið fyrir nokkra ritstjóra/fréttastjóra. Flestir hafa verið góðir yfirmenn og ég hef ekki yfir neinu að kvarta varðandi glerþak, kvenfyrirlitningu eða áreitni. Að einum undanskildum. Dæmin eru nokkur, en ég ætla að taka eitt sem stakk mig sérstaklega. Einu sinni mætti ég til vinnu klukkan sex á laugardagsmorgni og var enn að vinna klukkan 22 um kvöldið (það var víst verið að mynda einhverja ríkisstjórn). Ég spurði þáverandi ritstjóra, svolítið hátt, hvernig ég fengi þessa yfirvinnu borgaða, í formi peninga eða frís. Hann svaraði, yfir alla ritstjórnina: „Mín kæra, veistu hvernig ég launa þér þetta? I'm gonna make you a star.“ Ég fékk hvorki yfirvinnu né frí. 58. Maginn í hnút og óþægindatilfinning upp eftir framanverðum hálsinum þannig að erfitt verður að kyngja. Dofi í fótleggjum og þyngsli fyrir brjóstinu. Kaldar hendur og þurrkur í munni. Ónot í útlimum og stífar axlir. Til skiptis kökkur í hálsi og tilfinning eins og þú þurfir að gubba. Höfuðið eins og það sé að springa en samt kemurðu ekki upp orði. Stjórnlaus grátur sem kannski kemur ekki fyrr en seinna. Að vera föst, eins og negld við gólfið, og koma ekki upp orði. Vandræðalegt bros til að reyna að fela að varir og tennur titra. Þetta eru bara örfá dæmi um hvernig líkaminn getur brugðist við kynferðislegri áreitni. Hún þarf ekki að vera líkamleg til að upplifunin sé sterk Leikskólabarn í galsa knúsar mömmu sína í opnu rými og fer svo í gríni að tromma á magann á mömmunni. Það er líka bara fyndið. Barnið heldur gríninu áfram, lyftir peysunni hennar mömmu aðeins upp og purrar til að halda nú örugglega áfram að vera fyndið. „Hey þetta er mallinn hennar mömmu hahaha.“ Karlmaður sem stendur hjá glottir og horfir fast í augu móðurinnar og segir: „Ég hef nú séð þetta allt áður.“ Galsinn hverfur úr huga móðurinnar og grínið er búið. Sakleysið sem einkenndi bumbuslátt barnsins á maga mömmu sinnar er ekki lengur í aðalhlutverki í þessari senu. En mamman lætur ekki á neinu bera, kyngir bara og reynir að bíða eftir að maðurinn fari. Karlmaðurinn, sem mamman hafði nokkrum árum áður átt í sambandi við, þurfti að minna á að hann hefði séð þennan líkama í öðru samhengi. Hann sá glitta í nakið hold – mallann sem barninu þótti fyndið að leika að – og náði að smokra óviðeigandi kynferðislegri vísun inn í saklausan barnsleik. Leikskólabarnið hefur ekki hugmynd um hlutgervingu kvenlíkamans né neina vitneskju um það að kynferðisleg áreitni getur verið munnleg, orðbundin, táknræn. Það hvorki gaf orðum karlmannsins gaum né skildi þau eða gat sett þau í samhengi. Það gat ekki vitað hvað mömmu leið illa eða vitað um ónotatilfinninguna sem fylgdi í kjölfarið. Það vissi heldur ekki að mamma fór að gráta þegar það var sofnað og að hún forðast enn augnaráð mannsins ef hann verður á vegi hennar. Allt í einu var saklaus leikur barnsins gerður að einhverju allt öðru. Það eina sem mig langaði að gera var að toga bolinn hratt og örugglega niður aftur þessa örfáu sentimetra og koma mér og barninu burt. 59. Saga af kynbundinni mismunun: Var að vinna á lítilli ritstjórn þar sem karlamenning og fjölskyldutengsl voru áberandi. Þrátt fyrir þetta var fjölmiðillinn kynntur út á við sem miðill fyrir konur og fjölskyldur. Helstu yfirmenn voru allir náskyldir, og besti vinur eins þeirra var síðan fréttastjóri þrátt fyrir að hafa minni reynslu af hardcore fréttamennsku en konur sem unnu undir honum. Þessir karlmenn fóru svo iðulega alltaf saman í mat og í ræktina, og datt aldrei í hug að bjóða konum með. Þegar við konurnar vöktum athygli á þessu, að við almennu blaðamennirnir fengjum ekki að vera með þegar valdastrákarnir fóru reglulega saman í 2ja tíma hádegismat, var bara hlegið að okkur. 60. Giftur samstarfsfélagi falast eftir dansi á árshátíð fjölmiðilsins og notar dansinn til að þukla látlaust á rassinum á mér þrátt fyrir að ég væri stöðugt að færa hendur hans af rassinum og upp á bakið á mér Harðgiftur eldri rithöfundur fer í framhaldi af samtali okkar að senda mér ógrynni óviðeigandi tölvupósta þar sem hann tjáir greddu sína í minn garð. Reyni fyrst að hunsa póstana, en við það verður hann aðeins ennþá ágengari. Á endanum bið ég hann vinsamlegast að hætta þessum sendingum og þá úthúðar hann mér fyrir hversu merkileg með mig ég sé. Ég hef ekki treyst mér til að taka viðtal við hann aftur þó liðin séu 14 ár frá þessum samskiptum. 61. Þegar karlkyns yfirmaður minn skildi ekkert í þessari #freethenipple-væðingu og ákvað að vera fyndinn á hverjum degi á meðan þær fréttir riðu yfir með óviðurkvæmilegum athugsemdum um myndir af brjóstum á miðlinum sem og hvort og hvenær ég og fleiri konur á vinnustaðnum værum að taka þátt í þessu 62. Eitt sinn kom til starfa hjá fyrirtækinu maður sem hafði verið rekin úr stjórn félagasamtaka vegna þess að hann átti yfir höfði sér kæru fyrir nauðgun. Hann entist ekki lengi í starfi sem blaðamaður og var rekinn. Stuttu seinna var hann ráðinn sem blaðamaður á miðil sem gefur sig út fyrir að tala máli þolenda. 63. Þegar ég vann með nafntoguðum ljósmyndara sem var einnig þekktur fyrir að reyna við allt sem hreyfðist þá fór ég nokkrum sinnum með honum í ferðalög sem blaðamaður. Í eitt skipti þurfti ég að bíða eftir honum á einhverjum stað á meðan hann fór á strippbúllu. Í annað sinn fundum við ekkert hótel og eina sem bauðst var eitt herbergi sem við þurftum að deila. Hann ætlaði að sofa á sófanum en ég vaknaði við það að hann var kominn upp í og reyndi að káfa á mér. Ég ýtti honum stanslaust í burtu en hafði ekki í mér að gera meira mál úr þessu en það enda var hann kollegi og „vinur.“ Ég svaf ekki dúr þessa nótt en næsta dag átti auðvitað að láta sem ekkert hefði í skorist. 64. Ég var ungur blaðamaður á ritstjórn útbreidds dagblaðs. Ljósmyndararnir, sem voru allir eða nær allir karlmenn, voru með stórt dagatal með berum konum á. Mér fannst þetta verulega óþægilegt. Ég bar þetta upp við karlkyns ritstjóra sem hlógu að mér og spurðu hvort ég væri eitthvað viðkvæm fyrir fallegum myndum af fallegum konum. Skömmu síðar var mér gefið, í viðtali við ljósmyndara fyrir blaðið, lítið dagatal af nöktum karlmönnum - mun smekklegri myndir en voru á ljósmyndadeildinni (og grein um dagatalið var birt í fjölmiðlinum). Ég hengdi þetta upp í básnum mínum og fékk skammir fyrir. Mér fannst óþægilegt að hafa þessar myndir þarna, sem voru þó mun minna klámfengnar og meira listrænar en þær sem voru hjá ljósmyndurunum. Ég sagði við ritstjórann (karl) sem setti út á dagatalið mitt að ég skyldi taka mitt niður þegar ljósmyndurunum yrði gert að taka sitt niður. Hann fór og enginn tók nein dagatöl niður. Næsta ár kom nýtt dagatal upp á vegg hjá ljósmyndurunum en ég sóttist ekki eftir að endurtaka leikinn. 65. Mín upplifun af #metoo framtakinu hefur verið sú að það snúist fyrst og fremst um kynferðilega áreitni og ofbeldi. En ég sé á færslum í þessum hópi að margar deila frásögnum af því sem þær telja kynbundna mismunun. Því eftirfarandi: Ég get ekki fullyrt að um kynbundna mismunun hafi verið að ræða en grunurinn er all nokkur enda engar aðrar skýringar fengist. Um það þegar mér og samstarfskonu minni var fyrirvaralaust sparkað úr starfi af hjá rótgrónum miðli fyrir nokkrum misserum. Þetta var á miðjum vinnudegi, á miðju sumri, og við báðar á kafi í að vinna okkar þætti. Fyrirvaralaust, óvænt, án þess að nokkurn tíma hefði verið sett út á störf okkar eða aðra framgöngu á vinnustaðnum. Engar skýringar hafa fengist frá stjórendum um hvers vegna, en sumar síðari tíma skýringar samstarfsmanna hafa snúið að því að „rýma“ hafi þurft fyrir yngri starfsmönnum. Sé sú raunin má velta fyrir sér hvers vegna tveimur konum á sextugsaldri var einum fórnað. Á vinnustað þar sem karlar á okkar aldri hafa í stórum hópum fengið að eldast og blómstra í sínum störfum á ýmsum deildum (og sumir hafa ekki einu sinni blómstrað heldur bara hangið út á einhvers konar velvilja kk stjórnenda - karlarnir eru jú fyrirvinnur !). Og konur á okkar aldri eru sárafáar hvert sem litið er yfir starfsmannahóp þeirra sem birtast og hljóma út á við vegna starfa sinna í miðlinum. 66. Fréttastofan ákvað að fara út á land yfir nótt til að hrista saman hópinn. Skoða einhver fyrirtæki, borða saman, fara á smá námskeið og svona, þið vitið hópeflisferð. Eftir mat var spiluð smá tónlist og sumir dönsuðu, aðrir bara að spjalla. Einn, sem er búinn að vera lengi í bransanum og vel þekktur, var hins vegar á þeim buxunum að hann mætti káfa á öllum konunum. Hann reyndi að kyssa þær, kleip í þær, greip í brjóstin á þeim og var bara all over með hendurnar á konunum. Við reyndum að forðast hann eða gerðum lítið úr þessu, hlógum að honum og gerðum grín en svo sat hann þarna, og náði að toga mig til sín, setti mig í fangið á sér (hann er svolítið stór) og tróð höndinni upp undir pilsið, alla leið. Þetta var ömurlegt. Fyrir framan alla og enginn gerði neitt, eða sagði neitt. Mér tókst svo loks að losna undan honum og fór þá bara upp á herbergi. 67. Ég hef verið blessunarlega laus við kynferðislega áreitni á fjölmiðlum en samt eitthvað. Hér koma nokkur dæmi: Á einu blaðinu í gamla daga var alltaf ágætis andrúmsloft og fínt að vera þó að takkana vantaði á ritvélarnar og svona. Ég man eftir einum eldri blaðamanni, hann átti það til að strjúka manni um rassinn og slíkt. Seinna var ég aftur á sömu ritstjórn og hann og fann ekki fyrir neinu svona frá honum. Við vorum að skemmta okkur vinnufélagarnir á Kaffi Reykjavík þegar við hittum einn mikils metinn í bransanum og reyndar ágætis vin í dag. Hann var einn að djamma og drekka áfengi og slóst í hópinn. Við fórum að dansa saman og áður en ég veit af er hann kominn með tunguna upp í mig og segir svo, komum heim til þín. Ehhh...nei! Ég var fljót að yfirgefa samkvæmið. Ein. Þetta var aldrei rætt og ég varð aldrei vör við aðra tilburði en það má líka kannski segja að ég hafi að mestu hætt að fara út með strákunum. Þetta var gjarnan ein kona með hóp af karlmönnum, við vorum svo fáar í fréttamennsku á þessum árum. Allt var svo mikið á þeirra forsendum, líka þegar samstarfsfélagarnir voru að hittast og það var svona eftir á séð ekkert létt finnst mér. Nokkrum árum síðar fórum við út að skemmta okkur allir á annarri ritstjórn og sátum síðla kvölds á litlum bar í miðborg Reykjavíkur. Allir við glas og heilmikið spjall og gaman. Eftir góða stund segir fréttastjórinn mér að koma og setjast í fangið á honum sem ég gerði – hlýddi bara alveg blint, fyrir framan konuna hans. Ég veit ekki hvað ég var að hugsa. Ég man að mig langaði ekki til að sitja þarna fyrir framan blandaðan hóp af góðum samstarfsmönnum og vinum og mig langaði til að fara en var eitthvað svo lömuð og þorði ekki. Þess í stað sat ég þarna eins og dúkka í langan tíma að mér fannst því ég þorði ekki að fara, alveg heilalaus og stjörf og horfði á konuna hans kraumandi af illsku. Maður á náttúrulega aldrei að láta bjóða sér og öðrum svona. Þetta er svona það helsta sem ég man. Ég man reyndar eftir einu atviki í viðbót en ég man það samt ekki nógu vel til að geta komið því frá mér. Hvað einelti varðar þá hef ég orðið vör við það á fjölmiðlum en það hefur væntanlega ekkert með kynferðislega áreitni að gera. Og svo man ég auðvitað eftir allskonar dæmum á kvöldin, síðla dags eða nóttunni, til dæmis alókunnugur maður sem gekk framhjá mér á götu kom upp að mér að aftan og stakk hendinni upp í klofið á mér aftan frá. Alókunnugur maður sem maður var bara að ganga framhjá á götu! Man ekki hvort hann sagði eitthvað en ég sá aldrei framan í hann eða neitt. Maður reyndi bara að hrista þetta af sér. Í seinni tíð hef ég orðið fyrir miklu harkalegri kynferðislegri áreitni en í fjölmiðlageiranum á þessum árum. 68. „Áttu kærasta?“ spurði fréttastjórinn í viðtalinu þegar ég sótti um mitt fyrsta starf í fjölmiðlum sem fólst í því að snúa textavélinni fyrir fréttaþuli. Þegar ég var í beinni útsendingu að stjórna umræðuþætti í sjónvarpi og kollegi minn hvíslar því að mér úr myndstjórn að áhorfandi hefði hringt til að spyrja af hverju ég væri með rass framan á mér (Brjóstaskora sjáanleg). Þegar þjóðþekkt, virt eldri kona var í viðtali í morgunsjónvarpinu og ég tók símtöl frá fólki sem fannst bara í lagi að hringja inn og kvarta yfir því að þessi „gamla, hrukkótta kona“ væri í sjónvarpinu þeirra. Sjónvarpsstjórinn sem sá ástæðu til að hafa samband við fréttastjóra vegna hárs fréttakvennanna. Hrokkið hár fór sérstaklega illa í hann. Auglýsingin fyrir fréttatímann sem tveir af fjórum fréttamönnum stöðvarinnar fengu að taka þátt í. Ég þótti ekki nógu sæt til að vera með. Ég hlyti að gera mér grein fyrir að fréttakonan sem fékk að vera með í auglýsingunni liti jú út eins og súpermódel. Karlþulurinn, sem jafnframt var yfirmaður minn, og lét mig ítrekað lækka stólinn ef við vorum jafnhá í settinu. Ah já! Svörin sem ég fékk þegar ég benti á að engin kona hafi verið viðmælandi í umræðuþætti, fréttatíma eða á prenti hjá samsteypunni okkar: „Ég pæli aldrei í því hvort viðmælandi er karl eða kona“ - „Ekki tók ég eftir því“. Algengasta svarið var þó þögn og augum ranghvolft. Samstarfsfélagi minn, sem kallaði mig iðulega öfgafemínista af einhverri ástæðu, og fannst normalt að horfa á klám í vinnutölvunni sinni í opna vinnurýminu. Þegar kvenkynsfréttastjóri var ráðinn bað hún hann að láta af þessu. „Hvern okkur viltu láta reka?“ spurði kallinn á útvarpsstöðinni og benti á kallana tíu við borðið þegar ég spurði hvers vegna það væri bara ein kona að vinna á stöðinni. Á eftir fylgdi ærandi þögn en þetta var fyrsti starfsmannafundurinn sem ég tók þótt í. Ritstjórnin, þar sem enginn karlanna virtist heyra tillögur mínar fyrstu vikurnar, en tóku svo undir ef karl við borðið bar upp sama efni. Ég hef hlegið með sjálfri mér og öðrum vegna þessara kalla, en þetta er bara ekkert fyndið. Þetta er bæði fáránlegt og lítillækkandi. Vonandi hafa hlutirnir breyst. 69. Ég vann með þekktum sjónvarpsmanni, miklum húmorista sem komst upp með alls konar út á grínið. Það var frekar þröngt á milli skrifborða og eitt sinn kitlaði hann mig þegar hann labbaði framhjá mér á leið að sínu borði. Þegar ég kipptist við og sagði; „Ekki kitla mig,“ svaraði hann; „Hva, kitlar þig? Er ekki búið að ríða þetta úr þér?” 70. „Ég hélt alltaf að þú værir svo heimsk,“ sagði karlmaður sem stundum kom fram í fjölmiðlum eitt sinn við mig þegar ég hitti hann á bar að kvöldlagi. Þegar ég spurði af hverju hann hefði haldið það, svaraði hann; „Af því þú brosir svo oft. En svo fattaði ég að það er af því að þú ert líklega bara svona hamingjusöm.” 71. Eftir að ég hafði unnið sem aðstoðardagskrárgerðarmaður í mörg ár og hafði náð góðum tökum á ferlinu og gert að mér fannst marga góða hluti fór ég á fund dagskrárstjóra með hugmynd sem ég óskaði eftir að fá að spreyta mig á sem dagskrárgerðarmaður. Hann horfði á mig tómum augum og mjög vandræðalega kom sér hjá því að svara mér. Veit ekki hvort honum fannst hugmyndin svona glötuð eða hvort það var af því ég var kona. Sagðist ætla að hugsa málið. Hann er enn að hugsa málið. 72. Saga af barnum: Mætti útgefanda fjölmiðlafyrirtækis, sem kommentaði á leðurbuxurnar mínar, bauð mér vinnu með þeim orðum að hann ætlaði að gera mig að valdamestu fjölmiðlakonu landsins og bað mig um að koma með sér heim að skoða gögn.
MeToo Tengdar fréttir Tjaldið fellur: Konur úr sviðslistum og kvikmyndagerð segja frá ofbeldi og kynferðislegri áreitni 548 konur hafa deilt reynslusögum af kynferðisofbeldi, áreitni og mismunum innan leiklistarstéttarinnar á Íslandi. 27. nóvember 2017 20:01 Þögnin rofin: Konur úr réttarvörslukerfinu segja frá ofbeldi, áreiti, niðurlægingu og smánun Konur sem starfa eða hafa starfað innan réttarvörslukerfisins sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í kvöld undir yfirskriftinni Þögnin rofin en 156 konur skrifa undir yfirlýsinguna og henni fylgja 45 reynslusögur. 7. desember 2017 21:37 Konur í tónlist rjúfa þögnina: Í stað launa fyrir verkefni með hljómsveit mátti hún sofa hjá meðlimi sveitarinnar 333 konur hafa skrifað undir yfirlýsingu KÍTÓN, félags kvenna í tónlist þar sem þær krefjast þess að geta unnið vinnu sína án áreitni, ofbeldis eða mismunar. 7. desember 2017 15:41 Fjölmiðlakonur rjúfa þögnina: „Við þegjum ekki lengur“ Fjölmiðlakonur hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þær lýsa reynslu sinni af kynferðislegri áreitni, óviðeigandi snertingum og óvelkomnum athugasemdum í starfi. Krefjast þær aðgerða. 11. desember 2017 14:15 Mest lesið Allir starfsmenn VG missa vinnuna seinna á árinu Innlent Enginn megi vera krýndur formaður Innlent „Þetta er einhver samfélagsmiðlasýki“ Innlent Vesturbæjarlaug lokað tímabundið vegna netbilunar Innlent Minntust Ásgeirs á Lífskviðunni Innlent Sleðar bannaðir á opnunartíma: „Leið eins og maður væri ekki velkominn“ Innlent Geitabóndi hannaði sitt eigið geitavesti Innlent „Já, líklega hef ég verið undrabarn“ Innlent Þýðir ekki að fara á taugum segir borgarstjóri og hyggur á endurkjör Innlent Þarf að taka fjölskylduna inn í myndina Innlent Fleiri fréttir Allir starfsmenn VG missa vinnuna seinna á árinu Vesturbæjarlaug lokað tímabundið vegna netbilunar Geitabóndi hannaði sitt eigið geitavesti „Þetta er einhver samfélagsmiðlasýki“ Minntust Ásgeirs á Lífskviðunni Enginn megi vera krýndur formaður Þingmenn búast við formannsslag og Lífskviða Ásgeirs Sleðar bannaðir á opnunartíma: „Leið eins og maður væri ekki velkominn“ Segist ekki muna eftir atburðunum Þyrlan sótti veikan skipverja Sleginn í höfuðið með áhaldi Kyngreint sæði notað í fyrsta skipti í Íslandssögunni Þarf að taka fjölskylduna inn í myndina Guðlaugur Þór boðar tíðindi innan skamms og áfall í Eyjum Óvenjulegt mál með hörmulegum afleiðingum Áslaug Arna boðar til fundar Þýðir ekki að fara á taugum segir borgarstjóri og hyggur á endurkjör Meiriháttar líkamsárás í miðbænum „Já, líklega hef ég verið undrabarn“ Svarar gagnrýni á að Listaháskólinn útiloki ákveðna hópa Íhugar formannsframboð Lögðu fram tilboð sem var ekki svarað Fjórir fluttir með þyrlu eftir árekstur Guðrún íhugar framboð og Guinness-æði skekur íslenska djammið Lýsa yfir miklum vonbrigðum með stöðu viðræðna „Ég get horft í augun á ykkur“ Eldur í bíl í Strýtuseli Valt inn á byggingarsvæði eftir árekstur við strætó Anna, Anna og Sveinbjörn aðstoða ríkisstjórnina Hrikalega spenntur að spreyta sig á nýjum vettvangi Sjá meira
Tjaldið fellur: Konur úr sviðslistum og kvikmyndagerð segja frá ofbeldi og kynferðislegri áreitni 548 konur hafa deilt reynslusögum af kynferðisofbeldi, áreitni og mismunum innan leiklistarstéttarinnar á Íslandi. 27. nóvember 2017 20:01
Þögnin rofin: Konur úr réttarvörslukerfinu segja frá ofbeldi, áreiti, niðurlægingu og smánun Konur sem starfa eða hafa starfað innan réttarvörslukerfisins sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í kvöld undir yfirskriftinni Þögnin rofin en 156 konur skrifa undir yfirlýsinguna og henni fylgja 45 reynslusögur. 7. desember 2017 21:37
Konur í tónlist rjúfa þögnina: Í stað launa fyrir verkefni með hljómsveit mátti hún sofa hjá meðlimi sveitarinnar 333 konur hafa skrifað undir yfirlýsingu KÍTÓN, félags kvenna í tónlist þar sem þær krefjast þess að geta unnið vinnu sína án áreitni, ofbeldis eða mismunar. 7. desember 2017 15:41
Fjölmiðlakonur rjúfa þögnina: „Við þegjum ekki lengur“ Fjölmiðlakonur hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þær lýsa reynslu sinni af kynferðislegri áreitni, óviðeigandi snertingum og óvelkomnum athugasemdum í starfi. Krefjast þær aðgerða. 11. desember 2017 14:15