Glamour

Verslað í kóngsins Kaupmannahöfn, að hætti Glamour

Ritstjórn skrifar
Glamour/Getty
Frændur okkar Danir eru með puttann á púlsinum hvað varðar tísku og okkur til mikillar gleði hefur úrvalið á danskri tískuvöru aldrei verið meira hér á landi. Glamour skellti sér til Kaupmannahafnar fyrr í vetur og kortlagði í leiðinni hvar best er að versla í Kaupmannahöfn til að fá tískustraumana beint í æði. Værsgo! 

GANNI

Ganni er fjölskyldufyrirtæki sem þrífst vel í afslappaðri menningu Kaupmannahafnar. Ganni er líklega ekki það sem maður tengir við skandinavískan realisma, hönnunin er litrík, töfrandi og einstök. Hentar jafnt fyrir vinnuna og kokteilkvöld með stelpunum. Vörur frá merkinu fást á Store Regnegade, Østerbrogade, í Illum og Magasin du Nord. Á Íslandi fæst merkið í verslunum Geysis. 

 

Skjáskot/Malene Birger
Malene Birger

Árið 2006 opnaði Malene Birger 400 fermetra verslun á Antonigade í miðbæ Kaupmannahafnar. Hönnun Malene Birger einkennist af glæsileika í bland við fágaðan kynþokka. Merkið er ekki einungis eftirsótt meðal danskra kvenna heldur nýtur það mikilla vinsælda erlendis. Vörur frá Malene Birger er einnig hægt að nálgast á Kastrupflugvelli, í Illum og Magasin du Nord. Companys, Kúltur og Eva selja merkið hér á landi. 

 

Soulland
Soulland

Merkið Soulland einkennist af klassískri hönnun með „street style“ brag. Það var stofnað árið 2002 og hefur síðan vaxið ört en vörur þess hafa komið við sögu í stærstu blöðunum á borð við GQ, Euroman, The New York Times og ID Magazine. Soulland þykir í raun meira en tískuvörumerki, Soulland er lífsstíll. Stærsta verslun merkisins er við götuna Gammel Kongevej en þess má til gamans geta að fyrirtækið gerði nýverið línu í samstarfi við íslenska útivistarmerkið 66°Norður, sem einnig er áberandi í Kaupmannahöfn. 

 

Won Hundred
Won Hundred

Won Hundred er merki innblásið af „rokki og róli“. Merkið gerir fatnað fyrir bæði karla og konur ásamt því að vera með sérstaka unisex línu. Flíkurnar í línunni hentar vel fyrir öll tilefni, hvort sem það er til vinnu, frítíma eða við fínni tilefni. Aðalbúð þeirra er á Guldvergsgade í hinu múltíkúltíveraða hverfi Nørrebro. GK Reykjavík selur merkið hér á landi. 

 

Han Kjobenhavn

Han Kjobenhavn var stofnað árið 2008. Þó að merkið hafi í upphafi verið stofnað sem sólgleraugnamerki og sólgleraugu séu enn aðalsmerki fyrirtækisins er fatalína með karlmannafatnaði gríðarlega vinsæl á Norðurlöndunum meðal karla og töffaralegra kvenna. Fatnaðurinn dregur innblástur frá sígildri danskri hönnun. Merkið hefur fengið mikla viðurkenningu á alþjóðavettvangi og vinnur meðal annars með vörumerkjum eins og H2O, Puma og New Era. Þú getur heimsótt verslunina á Vognmagergade. Húrra Reykjavík selur svo merkið hér á landi

 

Stine Goya

Stine Goya stofnaði merkið í Kaupmannahöfn 2006 en markmið hennar er að fötin túlki og tjái sjálfstæði kvenna. Hönnunin einkennist af litríki litapallettu Stine, spennandi munstri, kvenlegum sniðum og frumleika. Verslun sem er staðsett rétt hjá Kongens Have er einstök og þykir lýsa persónuleika Stine vel, það þykir sérstaklega skemmtileg upplifun að kaupa hönnun hennar í þeirri verslun. Merkið fæst í Geysi hér á landi. 

 

Henrik Vibskov

Hönnun Henriks Vibskov einkennist af sterku ímyndunarafli og frumleika. Fatnaður Henriks er allur vistvænn, sem fellur vel inn í hinn danska „den økologiske livsstil“, saumaður úr lífrænni bómull og endurunnum vörum. Hvað er betra en að klæðast fallegri hönnun og á sama tíma fara vel með jörðina okkar? Verslun Henriks Vibskov er á Krystalgade í miðbæ Kaupmannahafnar. Þú finnur einnig önnur merki í verslunum Vibskovs eins og hið þýska Bless og danska Gitte Wetter.

 

Studio Travel 

Þessi verslun er fyrir áhugafólk um notaðan fatnað sem gerir sér grein fyrir að svoleiðis kaup snúast ekki einungis um að fá hluti á góðu verði heldur um að finna gamlar perlur sem eru mikils virði. Einnig er dásamlegt að kíkja við og skoða flíkur frá öllum þessum tímabilum tískunnar sem þar er að finna. Búðin er við 

Blågårdsgade 14 sem þykir ein helsta hipsteragata Nørrebro .

Episode 

Episode er fatakeðja sem sérhæfir sig í notuðum fatnaði og býður upp á fjölbreytt úrval, allt frá 90’s íþróttafatnaði til fallegra kjóla í 50’s stíl. Í þessu tveggja hæða vintage himnaríki getur þú alltaf gert góð kaup þar sem verðið er afar sanngjarnt. Episode búðirnar eru á nokkrum stöðum í heiminum en í Kaupmannahöfn finnur þú hana á Larsbjørnsstræde 8.

 

 

 






×