Erlent

Fyrrverandi erkibiskupinn í Boston látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Hneykslismálið sem felldi Bernard Law var umfjöllunarefni Óskarsverðlaunamyndarinnar Spotlight frá árinu 2015.
Hneykslismálið sem felldi Bernard Law var umfjöllunarefni Óskarsverðlaunamyndarinnar Spotlight frá árinu 2015. Vísir/AFP
Bernard Law, fyrrverandi erkibiskup í Boston, er látinn, 86 ára að aldri.

Law var á sínum tíma einn áhrifamesti maðurinn innan kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum og einn helsti gerandinn í hneykslismáli tengdu kirkjunni sem skók bandarískt samfélag upp úr aldamótum. Blaðið Boston Globe afhjúpaði þá fjölda kynferðisbrota starfsmanna kirkjunnar gegn börnum og yfirhylmingu þeim tengdum.

Blaðið greindi frá því að Law hafi um árabil fært barnaníðinga sem störfuðu innan kirkjunnar til í starfi, milli sókna, án þess að greina foreldrum fórnarlamba eða lögreglu frá málinu.

Law var gert að segja af sér í kjölfar gríðarlegrar gagnrýni sem beindist gegn honum og forsvarsmönnum kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum. Eftir afsögnina var honum þó boðið starf í Vatikaninu.

Hneykslismálið sem felldi Law var umfjöllunarefni Óskarsverðlaunamyndarinnar Spotlight frá árinu 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×