Það var ekki margt gagnrýnt í landsliðsvali Geirs Sveinssonar fyrir EM en einhverjir settu spurningamerki við valið á Arnóri Atlasyni sem hefur lítið spilað í Danmörku í vetur.
Guðjón Guðmundsson spurði Geir einfaldlega að því af hverju hann hefði valið Arnór í hópinn.
„Því er lýst með tveimur orðum - reynsla og karakter. Það er bara þannig,“ sagði Geir ákveðinn.
„Ef þú tekur einhverja einstaklinga og skoðar þá sér þá er auðvitað hægt að gagnrýna. Ég þarf aftur á móti að búa til hóp. Ég þarf að hafa sextán heilsteypta leikmenn sem ná vel saman og vinna vel saman.
„Arnór er einstakur og ég tek hann út af þessum kostum. Fyrir utan að hann er flottur handboltamaður og í betra standi en fyrir ári síðan í Frakklandi. Þar sýndi hann að reynsla hans og gæði eru mikil.“
Sjá má viðtalið hér að neðan.
Handbolti