Innlent

Létu höggin dynja á starfsmönnum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þarna fengu nokkrir að gista í nótt.
Þarna fengu nokkrir að gista í nótt. Vísir/eyþór
Ráðist var á starfsmenn í svokallaðri sólarhringsverslun í Reykjavík skömmu eftir miðnætti. Talið er að tveir menn hafi látið högg og spörk dynja á starfsmönnunum eftir að þeir höfðu sakað mennina um þjófnað. Þegar lögreglan mætti svo á staðinn skömmu síðar voru árásarmennirnir þó á bak og burt. Í skeyti lögreglunnar er ekki greint frá því hvort mennirnir tveir hafi í raun nappað einhverju úr versluninni - eða hversu alvarlega starfsmennirnir eru slasaðir eftir barsmíðarnar.

Þá handtók lögreglan ökumann sem var grunaður undir akstur undir áhrifum vímuefna. Við leit á ökumanninum og í bifreið hans eiga að hafa fundist tveir brúsar af piparúða og hnúajárn. Ökumaðurinn var síðan látinn laus að lokinni skýrslu- og sýnatöku.

Í bíl annars ökumanns, sem stöðvaður var skömmu fyrir klukkan 1 í nótt, fannst einnig hnúajárn ásamt einhverju magni stera. Hann er jafnframt grunaður um akstur undir áhrifum og var látinn laus að lokinni skýrslu- og sýnatöku.

Annar ökumaður var að sama skapi handtekinn eftir að hann hafði ekið á ljósastaur. Bæði ljósastaurinn og bíllinn skemmdust mikið. Maðurinn var handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna og var hann fluttur í fangaklefa að lokinni sýnatöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×