Borgaryfirvöld í Washington hafa ákveðið að endurnefna hluta götunnar Wisconsin Avenue og nefna hana í höfuðið á Boris Nemtsov, sem skotinn var til bana í Moskvu árið 2015. Nemtsov var einn af helstu andstæðingum Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.
Í frétt Time segir að Rússar séu æfir með tiltækið en sendiráð þeirra í bandarísku höfuðborginni stendur einmitt við þann hluta Wisconsin Avenue sem nú hefur fengið nýtt nafn.
Rússneskir stjórnmálamenn saka borgaryfirvöld um að skipta sér af innanlandsmálum í Rússlandi en það var dóttir Nemtsov sem fór á fund borgarstjórnarinnar og lagði til nafnabreytinguna.
Sérstök athöfn verður haldin þann 27. febrúar næstkomandi þar sem minnismerki um Nemtsov verður komið fyrir, en þrjú ár verða þá liðin frá morðinu.