Erlent

Buðu Hvíta húsinu gullklósett í stað Van Gogh

Kjartan Kjartansson skrifar
Klósettið er úr hreinu gulli og virkar. Það hefur verið opið gestum á almenningssalerni Guggenheim-safnsins. Sýningunni er hins vegar lokið.
Klósettið er úr hreinu gulli og virkar. Það hefur verið opið gestum á almenningssalerni Guggenheim-safnsins. Sýningunni er hins vegar lokið. Vísir/AFP
Forstöðumaður Guggenheim-listasafnsins í New York hafnaði bón Hvíta hússins um að lána málverk eftir Vincent Van Gogh í íbúð Trump-hjónanna. Þess í stað bauð hann klósett úr 18-karata gulli sem hefur verið til sýnis á safninu í nokkur ár.

Hvíta húsið hafði óskað eftir málverkinu „Landslag með snjó“ eftir hollenska meistarann Van Gogh fyrir forsetahjónin. Washington Post segir að Nancy Spector, forstöðumaður Guggenheim, hafi ekki geta orðið við þeirri beiðni.

Spector stakk hins vegar á móti upp á að Hvíta húsið gæti fengið myndverkið „Ameríka“ eftir Maurizio Cattelan. Það er í formi gullklósetts sem virkar og hefur verið á salerni safnins og opið gestum síðustu árin. Listamaðurinn sjálfur hefði áhuga á að bjóða forsetahjónunum það að langtímaláni. Listrýnar hafa lýst „Ameríku“ sem háðsádeilu á ofgnótt auðs í Bandaríkjunum.

„Það er auðvitað gríðarlega verðmætt og nokkuð viðkvæmt en við myndum sjá fyrir leiðbeiningum um uppsetningu og viðhald,“ sagði Spector í tölvupósti til Hvíta hússins. Talskona Guggenheim-safnsins staðfestir að Spector hafi sent póstinn í september.

Hvíta húsið svaraði ekki boði Spector.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×