Erlent

Opinberir starfsmenn óttast aðra stöðvun

Samúel Karl Ólason skrifar
Rekstur alríkisstjórnarinnar stöðvaðist á miðnætti á föstudag eftir að þingmönnum tókst ekki að koma sér saman um bráðabirgðalausn.
Rekstur alríkisstjórnarinnar stöðvaðist á miðnætti á föstudag eftir að þingmönnum tókst ekki að koma sér saman um bráðabirgðalausn. Vísir/Getty
Opinberir starfsmenn snúa aftur til vinnu í Bandaríkjunum í dag eftir að Repúblikanar og Demókratar komust að samkomulagi í gærkvöldi um að fjármagna alríkisstjórnina tímabundið. Umræddir starfsmenn eru margir hverjir sannfærðir um að þeir muni lenda í sömu stöðu aftur á næstu vikum.

Rekstur alríkisstjórnarinnar stöðvaðist á miðnætti á föstudag eftir að þingmönnum tókst ekki að koma sér saman um bráðabirgðalausn. Rekstur alríkisstjórnarinnar hefur verið fjármagnaður með ítrekuðum bráðabirgðalausnum því þinginu tókst ekki að samþykkja fjárlög fyrir lok síðasta fjárlagaárs í september.

Deilurnar snerust að mestu um DACA-áætlunina svokölluðu sem fjallar um vernd um 700 þúsund innflytjenda sem voru fluttir ólöglega til Bandaríkjanna sem börn. Trump forseti afnam DACA-áætlunina sem verndaði þá fyrir brottvísun í september en þingið hefur enn ekki samþykkt frumvarp um örlög skjólstæðinga hennar.

Ætlun þingmanna er að nýta tímann til 8. febrúar til að ná samkomulagi um innflytjendamál. Repúblikanar eru klofnir í afstöðu sinni til þeirra. Sumir vilja veita skjólstæðingum DACA varanlegt dvalarleyfi eða ríkisborgararétt, harðlínumenn vilja hins vegar endurskoða allt innflytjendakerfið og draga verulega úr löglegum flutningi fólks til Bandaríkjanna.

Starfsmenn alríkisstjórnarinnar eru fullvissir um að ekkert samkomulag muni nást og því verði þeir aftur í mikilli óvissu í febrúar. AP fréttaveitan ræddi við nokkra sem allir áttu von á annarri stöðvun.



Þá segir J. David Cox, formaður bandalags alríkisstarfsmanna, að ótækt sé að þeir séu notaðir sem bolti í borðtennisleik þingmanna. Hann sagði opinbera starfsmenn orðna langþreytta á því að þingmenn geti ekki samið um fjármögnun ríkisins til langs tíma.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði á Twitter í nótt að Demókratar hefðu fallið saman og gefist upp. Nú væri komið að því að setjast við samningaborðið.

Trump var þó að mestu leyti haldið frá viðræðum helgarinnar. Leiðtogar Repúblikana og starfsmenn Trump í Hvíta húsinu tóku þá ákvörðun að halda forsetanum til hliðar og bíða eftir því að Demókratar gæfust upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×