Erlent

Barnabarn Bobby Kennedy svarar stefnuræðu Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Joe Kennedy er ein helsta vonarstjarna demókrata.
Joe Kennedy er ein helsta vonarstjarna demókrata. Vísir/Getty
Fulltrúardeildarþingmaðurinn Joseph Kennedy III, barnabarn Robert Kennedy, og ein helsta vonarstjarna demókrata í Bandaríkjunum mun flytja svar flokksins við fyrstu stefnuræðu Donald Trump sem flutt verður í nótt.

Joe Kennedy eins og hann er kallaður er fulltrúardeildarþingmaður Massachusetts. Eins og áður segir er hann barnabarn Robert Kennedy, sem skotinn var til bana árið 1968 er hann bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna. Þá er hann frændi John F. Kennedy, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna sem einnig var skotinn til bana.

Robert, til vinstri, og John F. Kennedy voru bræður og nánir samstarfsmenn á sínum tíma.Vísir/Getty
Hinn 37 ára gamli Kennedy sem tekið hefur við keflinu í hinni þekktu Kennedy-fjölskyldu hefur vakið mikla athygli að undaförnu fyrir gagnrýni hans á tilraunir repúblikana til þess að afnema Obamacare úr gildi.

Talið er að demókratar ætli sér að reyna að höfða til verkamanna sem og miðstéttarfólks með valinu á Kennedy en búist er við að 40 milljónir manns muni horfa á stefnuræðu Trump. Verður það verkefni Kennedy að svara og andmæla Trump.

Mun hann feta í fótspor Edward Kennedy, bróður Robert og John, sem flutti svar demókrata við stefnuræðu Ronald Reagan árið 1982.

Margir bíða spenntir eftir fyrstu stefnuræðu Trump en búist er við því að þar muni hann eigna sér gott ástand efnahagsmála í Bandaríkjunum. Horfa má á útsendingu frá stefnuræðunni hér að neðan en mun Trump flytja hana klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×