Innlent

Varpaði húsgögnum á bíla í Hafnarfirði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Konan er sögð hafa verið með öllu óviðræðuhæf.
Konan er sögð hafa verið með öllu óviðræðuhæf. Vísir/Vilhelm
Kona gekk berserksgang í íbúð í Hafnarfirði um klukkan 23 í gærkvöldi. Sjónarvottur segir meðal annars að konan hafi varpað innanstokksmunum fram af svölum íbúðarinnar sem höfnuðu á bílunum sem lagt hafði verið við húsið. Þegar lögregla mætti á svæðið á tólfta tímanum hafði hún „tekið til hendinni innandyra“ og lagt íbúðina í rúst eins og það er orðað. 

Konan var handtekin á staðnum og flutt á næstu lögreglustöð en hún er sögð hafa verið með öllu óviðræðuhæf sökum annarlegs ástands. Reynt verður að ræða við hana þegar af henni rennur.

Þá hafði lögreglan hendur í hári ökumanns sem grunaður er um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þegar lögreglan leit inn um rúður bílsins sá hún þrjá aðra grunsamlega farþega sem, eftir spjall við lögregluþjóna, framvísuðu ætluðum fíkniefnum. Þar að auki var að finna nokkur eggvopn í bifreiðinni sem jafnframt var lagt hald á. Ökumaður bifreiðarinnar og einn farþeganna voru handteknir og vörðu nóttinni í fangaklefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×