Ökumaður bifreiðar á Suðurlandsvegi við Hellisheiðarvirkjun slasaðist alvarlega síðastliðinn fimmtudag þegar hann hugðist draga bíl sem hann kom að úr festu í snjó.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að skafbylur hafi verið og kóf og vildi ekki betur til en svo að þriðja bílnum var ekið aftan á þann sem sat fastur. Við það kastaðist bíllinn áfram og klemmdi þann sem ætlaði að aðstoða á milli bifreiðanna. Hann lærbrotnaði meðal annars við slysið.
Síðar þennan sama dag, fimmtudag, var veginum lokað vegna veðurs og aðstæðna og þurftu björgunarsveitarmenn úr Árnessýslu og Reykjavík að vinna fram á kvöld við að aðstoða fólk vegna ófærðar.
Alls voru 25 umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku. Í einu þeirra, bílveltu á Mýrdalssandi, austan við Hjörleifshöfða, slösuðust tveir ferðamenn. Voru þeir fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík en skoðun leiddi í ljós að áverkar þeirra voru ekki alvarlegir.

