Erlent

Minnisblaðið umdeilda lítur dagsins ljós á morgun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump er sagður vonast til þess að birting minnisblaðsins grafi undan Rússarannsókninni.
Donald Trump er sagður vonast til þess að birting minnisblaðsins grafi undan Rússarannsókninni. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, mun á morgun heimila birtingu á umdeildu minnisblaði Repúblikana sem gagnrýnir alríkislögregluna FBI og dómsmálaráðuneytið harðlega. BBC greinir frá.



Devin Nunes, formaður njósnamálanefndar bandaríkjaþings, lét taka það saman úr gögnum sem hann krafðist frá FBI og dómsmálaráðuneytinu og varða rannsókn á því hvort að framboð Trump hafi átt samráð við útsendara Rússa.



Hið fjögurra síðna minnisblað er sagt innihalda upplýsingar um hvernig Bandaríska alríkislögreglan, FBI, og embættismenn dómsmálaráðuneytisins hafi blekkt dómara til þess að afla sér heimildar til að njósna um Carter Page, starfsmann framboðs Donald Trump.

Sjá einnig: Trump telur umdeilt minnisblað geta grafið undan Rússarannsókninni

Sagt er að í minnisblaðinu séu færð rök fyrir því að FBI og ráðuneytið hafi ekki greint dómara frá því að krafa þeirra um heimild til að njósna um Page hafi að hluta til verið byggð á gögnum úr afar umdeildri skýrslu sem skrifuð var af breskum fyrrverandi leyniþjónustumanni.

Birting minnisblaðsins er afar umdeild en dómsmálaráðuneytið, FBI og demókratar hafa lagst harðlega gegn því að það verði birt.

Segir FBI meðal annars að efnislegar staðreyndir sem hefðu mikil áhrif á sannleiksgildi fullyrðinga í minnisblaðinu hafi þar verið skildar eftir út undan.

Greint var frá því í dag að Trump sé sagður ræða það við vini og samstarfsmenn að birting minnisblaðsins geti hjálpað við að draga úr trúverðugleika Rússarannsóknarinnar, sem verið hefur honum þyrnir í augum undanfarna mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×