Sport

Hjónin unnu ÓL-brons saman en eiginmaðurinn féll síðan á lyfjaprófi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Krushelnitsky og Anastasia Bryzgalova
Alexander Krushelnitsky og Anastasia Bryzgalova Vísir/EPA
Rússneskur bronsverðlaunahafi á Ólympíuleikunum í Pyeongchang féll á lyfjaprófi en Alþjóðaíþróttadómstóllinn hefur kært hann vegna ólöglegrar lyfjanotkunnar. Þetta er fyrsti verðlaunahafi leikanna sem fellur á lyfjaprófi.

Þetta hefur ekki aðeins áhrif á íþróttaferil hans heldur einnig heimilislífið. Rússinn heitir Alexander Krushelnitsky og vann tvenndarkeppni í krullu með eiginkonu sinni Anastasiu Bryzgalova.





Anastasia Bryzgalova hafði vakið talsverða athygli í keppninni en henni var líkt við leikkonurnar Angelinu Jolie og Megan Fox á samfélagsmiðlum og hún flaug síðan á hausinn í krullukeppninni sjálfri. Það kom þó ekki í veg fyrir að þau hjónin kæmust á pall.

Eiginmaðurinn virðist hinsvegar ætla að hafa af henni bronsið. Meldonium fannst í A-sýni Krushelnitsky en það var sett á bannlista árið 2016. Þetta er einmitt lyfið sem felldi tenniskonuna Mariu Sharapovu skömmu eftir að það var sett á bannlistann fyrir tveimur árum.





Það eru Norðmenn sem munu bæta við enn einum verðlaununum fari svo að rússnesku hjónin verði dæmd úr keppni. Þau heita Kristin Skaslien og Magnus Nedregotten.

Það að Rússi hafi fallið á lyfjaprófið eftir allt sem á undan hefur gengið nánast útilokar það að rússneska íþróttafólkið fái að ganga inn með rússneska fánann á lokaathöfninni. Það setur líka framtíð rússnesks íþróttafólks á leikunum í enn meira uppnám.

„Hreina“ rússneska íþróttafólkið hefur keppt undir fána Alþjóðaólympíunefndarinnar á leikunum og þau gengu inn undir þeim fána á setningarhátíðinni. Mjög margir rússneskir íþróttamenn voru útilokaðir frá leikunum í Pyeongchang í kjölfarið að upp komst um útbreidda og skipulagða lyfjamisnotkun innan rússneska sambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×