Sport

Geta séð hvor þeirra var á undan en báðar fá samt bronsið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fjórar á palli.
Fjórar á palli. Vísir/Getty
Marit Björgen frá Noregi og Krista Pärmäkoski frá Finnlandi urðu nótt fyrstu keppendur í einstaklingskeppni Ólympíuleikanna í Pyeongchang til að deila verðlaunum á þessum leikum.

Þær fá báðar brons fyrir 10 kílómetra skíðagöngu með frjálsri aðferð. Hin norska Ragnhild Haga vann gullið en Svíinn Charlotte Kalla tók silfrið.

Allar fjórar stöðu því á palli í verðlaunaafhendingunni þrátt fyrir að mótshaldarar hefðu getað fundið það út hvort Marit Björgen eða Krista Pärmäkoski hafi komið á undan í mark.

Tíminn þeirra var gefinn upp með einum aukastaf. Þær komu í mark á 25 mínútum, 32 sekúndum og 4 sekúndubrotum.  Tímatökukerfið býður hinsvegar upp á það að kalla fram fleiri aukastafi.





„Við getum séð hvor var fljótari,“ sagði Pierre Mignerey mótastjóri Alþjóðlegaskíðasambandsins í viðtali við Expressen.

„Reglurnar eru bara þannig að aðeins einn aukastafur er tekinn með. Við mælum hundraðshluta en gefum aukastafina bara upp í tugum,“ sagði Mignerey. Það er aðeins í sprettgöngunni þar sem menn nota fleiri aukastafi.

Bronsstelpurnar voru báðar ánægðar með niðurstöðuna. „Það er betra að við fáum báðar að standa þarna. Marit var átrúnaðargoðið mitt þegar ég var yngri og þetta er því risastórt fyrir mig,“ sagði hin finnska Krista Pärmäkoski.

„Ég er mjög ánægð að fá að deila bronsinu með Kristu,“ sagði Marit Björgen. Hún var þarna að vinna síns önnur verðlaun á þessum leikum og sín tólftu verðlaun á Ólympíuleikum. Þetta voru önnur bronsverðlaun Krista Pärmäkoski á leikunum í Pyeongchang.





„Það er gott að við fáum ekki að vita hvor var í raun á undan. Ég vil ekki vita það. Ég er ánægð með bronsið og að fá að deila því með henni. Það væri hvort sem er ekkert hægt að gera þó að við fengjum að vita hvor hafi verið á undan,“ sagði Pärmäkoski.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×