Körfubolti

Klikkaði viljandi til að slá ekki met hjá strák sem lést í skelfilegu slysi fyrir 25 árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Bohannon.
Jordan Bohannon. Vísir/Getty
Flestir íþróttamenn vilja eignast met ef þau eru á annað borð í boði en svo var þó ekki með ungan körfuboltamann frá Iowa á dögunum.

Jordan Bohannon spilar með Iowa háskólanum og er flottur leikmaður. Hann átti möguleika á að bæta félagsmet Chris Street í leik Iowa á móti Northwestern.

Jordan Bohannon var búinn að hitta úr 34 vítaskotum í röð og hafði með því jafnað met Chris Street.

Met Chris Street var frá árinu 1993 en hann er ekki enn meðal okkar. Chris lést í bílslysi skömmu fyrir 21 árs afmælisdaginn sinn þegar bíllinn hans lenti framan á snjóplóg.

Jordan Bohannon fór á vítalínuna en í stað þess að setja niður 35. vítaskotið sitt í röð þá klikkaði hann viljandi eins og sjá má hér fyrir neðan.





Lýsendurnir voru ekki vissir um hvort Jordan Bohannon hafi klikkað viljandi en það staðfesti hann sjálfur í viðtali eftir leikinn. Jordan Bohannon hafði þá skorað 25 stig og sjö þrista um leið og hann leiddi Iowa liði tl 77-70 sigurs.

Viðtalið við Jordan Bohannon má sjá hér fyrir neðan.







„Ég átti ekki rétt á því að eiga þetta met einn. Hann átti að eiga þetta met áfram. Ég hef verið náinn fjölskyldu hans síðustu ár. Ég varð meyr að hugsa um hans sögu í síðustu leikjum því ég var búinn að ákveða að gera þetta svona,“ sagði Jordan Bohannon í sjónvarpsviðtali við Big Ten Network.

„Þetta er svo góður strákur. Hann er svo góðhjartaður. Það var mjög sérstakt að hann hugsaði til Christopher þegar hann gat slegið metið,“ sagði Patty Street móðir Chris Street um Bohannon í viðtali við Des Moines Register.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×