Sport

Tók vitlausa beygju og missti af verðlaunum á Ólympíuleikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Teresa Stadlober er hér á undan Marit Björgen.
Teresa Stadlober er hér á undan Marit Björgen. Vísir/Getty
Austurríska skíðagöngukonan Teresa Stadlober var í fínni stöðu í 30 kílómetra göngunni á Ólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kóreu en þetta var síðasta grein leikanna.

Gangan byrjaði mjög vel hjá Teresu og hún hélt í við hina mögnuðu norsku skíðagöngukonu Marit Björgen í upphafi. Stadlober var í öðru sæti í göngunni en varð þá á þau mistök að taka vitlausa beygju. Hún þurfti að ganga lengra en keppinautarnir og endaði að lokum níunda.





Það má segja að þessi vitlausa beygja hafi kostað hana verðlaunasæti en verðlaunin tóku Marit Björgen frá Noregi (gull), Krista Pärmäkoski frá Finnlandi (silfur) og Stina Nilsson frá Svíþjóð (brons).

„Ég veit ekki hvernig ég fór að þessu. Ég tók vitlausa beyju og fór hluta leiðarinnar tvisvar. Í seinna skiptið var ég orðin alveg rugluð. Ég sá bara svart,“ sagði Teresa Stadlober vandræðaleg í viðtali við Associated Press.

Teresa Stadlober hafði þegar klárað 23 kílómetra af kílómetrunum 30 þegar hún fór útaf brautinni og silfurverðlaunin voru því í sjónmáli.





„Ég er bara mjög leið og vonsvikin að þetta hafi gerst því ég fann mig mjög vel. Formið mitt var gott og ég vissi að ég ætti fína möguleika. Ég hélt alltaf að ég væri að fara að berjast um verðlaun,“ sagði Teresa Stadlober en faðir hennar gat lítið annað en faðmað hana þegar hún kom í mark.

„Ég bara grét. Hann sagði bara: Þetta var ekki þinn dagur en þú verður að þekkja keppnisbrautina ef þú ætlar að vinna verðlaun,“ sagði Stadlober.

Ein og yfirgefin.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×