Sport

Jeremy Stephens með umdeilt rothögg á Josh Emmett

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Jeremy Stephens fagnar sigrinum.
Jeremy Stephens fagnar sigrinum. Vísir/Getty
Jeremy Stephens sigraði Josh Emmett í nótt í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldinu í Orlando. Sigurinn var þó umdeildur þar sem nokkur högg Stephens virtust ólögleg.

UFC var með ansi skemmtilegt bardagakvöld í nótt í Orlando. Þeir Jeremy Stephens og Josh Emmett mættust í aðalbardaga kvöldsins en bardaginn fór fram í 66 kg fjaðurvigt. Þó Stephens sé yngri en Emmett var þetta 41. bardagi þess fyrrnefnda en aðeins 15. bardagi þess síðarnefnda.

Emmett byrjaði bardagann vel og tókst að slá Stephens niður í 1. lotu. Sjálfstraustið fór vaxandi hjá Emmett en eftir rúma mínútu í 2. lotu tókst Stephens að slá Emmett niður. Stephens kláraði svo bardagann með höggum í gólfinu og bardaginn stöðvaður eftir 1:35 í 2. lotu.

Stephens var þó heppinn að vera ekki dæmdur úr leik. Er Emmett var á báðum hnjám á gólfinu reyndi Stephens hnéspark sem rétt svo strauk höfuð Emmett. Hefði Stephens hitt hefði hann verið umsvifalaust dæmdur úr leik enda óleyfilegt að sparka í höfuð liggjandi andstæðings. Þá voru tveir olnbogar sem hittu í hnakkann en bannað er að kýla eða sparka í hnakka andstæðingsins.

Þó Stephens hafi ekki smellhitt með hnésparkinu var gjörningurinn samt ólöglegur og spurning hvort dómarinn hefði mátt gera betur. Sigurinn mun þó að öllum líkindum standa en deilt verður um sigurinn. Liðsfélagar og þjálfarar Emmett voru í það minnsta mjög ósáttir við störf dómarans eftir að hafa séð endursýningu á atvikinu.

Bardagakvöldið var ekki hlaðið stórstjörnum en var engu að síður virkilega skemmtilegt. Öll önnur úrslit kvöldsins má nálgast á vef MMA Frétta hér.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×