Innlent

Harmar mistök við framkvæmd samræmdra prófa í íslensku

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra, hefur fundað með forstjóra Menntamálastofnunar vegna mistaka sem gerð voru við framkvæmd samræmdra prófa í íslensku.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra, hefur fundað með forstjóra Menntamálastofnunar vegna mistaka sem gerð voru við framkvæmd samræmdra prófa í íslensku. Vísir/ernir
Mennta- og menningarmálaráðuneyti harmar að framkvæmd samræmdra prófa í íslensku í 9. bekk hafi mistekist með tilheyrandi óþægindum fyrir nemendur og kennara.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu en eins og greint var frá í gær gat meirihluta nemenda ekki lokið prófinu í gær vegna tæknilegra örðugleika sem komu upp með netþjón prófsins sem staðsettur er í Evrópu.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra, hafi í gær átt fund með með Arnóri Guðmundssyni, forstjóra Menntamálastofnunar. Þar var farið yfir umfang og ástæður vandans. Upplýsti Arnór „að tæknileg mistök hjá þjónustuaðila prófakerfisins urðu til þess að prófið var ekki fært yfir á afkastameiri netþjón. Hann greindi einnig frá því að þegar vandamálið kom í ljós setti Menntamálastofnun í gang viðbragðsáætlun og var áhersla lögð á að upplýsa alla um stöðuna,“ eins og segir í tilkynningu.

Ráðherra hefur boðað til fundar með öllum helstu hagsmunaaðilum næstkomandi miðvikudag til að ákveða hvernig unnið verði úr málinu. Verða hagsmunir nemenda hafðir að leiðarljósi í því mati.

„Samkvæmt upplýsingum frá Menntamálastofnun gengur framkvæmd samræmds könnunarprófs í stærðfræði, sem nú stendur yfir, samkvæmt áætlun. Það er von ráðuneytisins að nemendur geti lokið því prófi og enskuprófinu sem fram fer á morgun farsællega,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×