Erlent

Koma með einkaskilaboð frá Kim til Bandaríkjastjórnar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Vísir/afp
Sendinefnd suðurkóreskra erindreka mun koma einkaskilaboðum frá Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, til Bandaríkjastjórnar þegar sendinefndin ferðast til höfuðborgarinnar Washington síðar í vikunni.

Kim afhenti erindrekunum skilaboðin á fundi þeirra í norðurkóresku höfuðborginni Pjongjang en óljóst er hvort erindrekarnir fundi með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sjálfum.

„Við getum ekki sagt fjölmiðlum frá öllu en við fengum upplýsingar um ýmsar skoðanir og viðhorf Norður-Kóreumanna sem við munum upplýsa Bandaríkjamenn um í heimsókn okkar,“ sagði Chung Eui-yong erindreki við suðurkóreska miðilinn Yonhap.

Á fundinum í Pjongjang sagðist Kim reiðubúinn að styðja afvopnun á Kóreuskaga gegn því að öryggi einræðisstjórnarinnar yrði tryggt.

Trump sagði á samskiptamiðlinum Twitter að mögulega væri árangur að nást í því að losa um spennuna á Kóreuskaga í fyrsta skipti í mörg ár. Hins vegar gæti verið um falsvonir að ræða. „En Bandaríkin eru tilbúin að beita sér af hörku, hvernig sem fer.“

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, sagði í gær að þótt viss árangur væri nú að nást yrði ekki slakað á viðskiptaþvingunum gagnvart Norður-Kóreu áður en leiðtogar ríkjanna funda á landamærunum í apríl.

„Miðað við það sem ég sé á Twitt­er virðist Trump jákvæður eftir heimsóknina. En þar sem þetta er bara upphafið held ég að það sé ótímabært að vera bjartsýnn,“ sagði Monn Jae-in í gær.




Tengdar fréttir

Breytt staða á Kóreuskaga

Forseti Suður-Kóreu og einræðisherra Norður-Kóreu, Kim Jong-un, munu eiga sinn fyrsta fund í apríl. Beinni línu á milli leiðtoganna verður komið á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×