Handbolti

Alexander Örn: Draumur að feta í fótspor föður míns

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alexander Örn Júlíusson, nýliði í landsliðinu í handbolta, segir það draum sinn að feta í fótspor föður síns, Júlíusar Jónassonar. Alexander var valinn í fyrsta hóp Guðmundar Guðmundssonar í dag.

Júlíus Jónasson spilaði tæplega 300 landsleiki fyrir íslenska landsliðið. Hann lagði landsliðsskóna á hillunaí lok árs 1999 og nú, tæpum tveimur áratugum síðar, fær sonur hans sitt fyrsta tækifæri.

„Ég var auðvitað himinnlifandi þegar ég fékk þessar fregnir síðastliðinn mánudag. Það er ekki spurning. Auðvitað er þetta mikill heiður að vera valinn í landsliðið,“ segir Alexander.

„Það er auðvitað draumur og markmið flestra handboltamanna sem eru í þessu af einhverri alvöru að spila fyrir íslenska landsliðið. Pabbi er fyrrverandi landsliðsmaður með fjöldan allan af leikjum á bakinu. Hann er auðvitað fyrirmynd mín. Það er meiriháttar að fá tækifæri til að feta í hans fótspor.“

Alexander Örn er einn allra besti varnarmaður Olís-deildarinnar með ríflega fimm löglegar stöðvanir að meðaltali í leik, samkvæmt HB Statz. Í orkumikilli vörn Guðmundar Guðmundssonar gæti þessi fótfrái leikmaður nýst vel.

„Eins og Guðmundur sagði þá hef ég ákveðna eiginleika sem gætu passað inn í hans hugmyndafræði er varðar varnarleikinn. Það verður bara að koma í ljós núna um páskana hvort að það sé rétt mat hjá honum. Þetta er bara æfingahópur þannig að maður þarf að gera sitt besta og gera vonandi tilkall til þess að vera valinn í hópinn fyrir Golden League,“ segir Alexander Örn Júlíusson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×