Þótt hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki hafi misst nærri allt það landsvæði sem þau sölsuðu undir sig á undanförnum árum eru þau enn fær um að valda gífurlegu tjóni.
ISIS-liðar lýstu yfir ábyrgð á tveimur árásum sem gerðar voru í gær. Önnur þeirra var gerð í norðurhluta Íraks og hin í afgönsku höfuðborginni Kabúl. ISIS-liðinn Talha al-Bishawri sprengdi sig í loft upp í Kabúl þar sem sjíamúslimar voru að fagna nowruz, íranska nýárinu.
Íslamska ríkið, sem og önnur hryðjuverkasamtök, telja að íranska nýárið stangist á við íslam. Í ábyrgðaryfirlýsingu samtakanna segir að um hundrað hafi farist en afganskir miðlar segja að 26 hafi fallið hið minnsta. Ashraf Ghani, forseti Afganistans, fordæmdi árásina harðlega í gær. Sagði hana glæp gegn mannkyninu.
„Forsetinn hefur skipað viðeigandi aðilum að gera allt sem hægt er til að græða sár þeirra særðu og vottar aðstandendum fórnarlamba samúð sína,“ sagði í yfirlýsingu. Samtökin réðust einnig á sjíamúslima í Írak, nánar tiltekið á veginum á milli Bagdad og Kirkuk í norðurhluta landsins.
ISIS-miðillinn Amaq greindi frá því að skotið hafi verið á fórnarlömbin með sjálfvirkum rifflum á meðan þau voru um borð í rútu sinni og dóu 35 eða særðust í árásinni.
ISIS felldi tugi í tveimur árásum í Írak og Kabúl

Tengdar fréttir

Tugir indverskra verkamanna myrtir af ISIS
Mennirnir voru handsamaðir í skyndisókn ISIS árið 2014 og hafa Indverjar ávalt haldið í vonina um að þeir væru á lífi.