Fram kemur á heimasíðu Geymslna að tryggingar séu ekki innifaldar í leigu, en Guðni á Haraldsson hæstaréttarlögmaður er ekki viss um að það leysi fyrirtækið undan allri ábyrgð. Tjónið fyrir leigjendur var bæði fjárhagslegt og tilfinningalegt, enda misstu margir hluti sem hafa mikið tilfinningalegt gildi.
„Lögin um þjónustukaup þau gilda um geymslu á lausafjármunum og lögin eru óundanþæg neytendum, það er að segja, það má ekki víkja frá þeim neytenda í óhag. Í lögunum er tekið fram að farist munir sem eru í geymslu að tilviljun eða vegna þjófnaðar eða eldsvoða, þá sé það á ábyrgð rekstraraðila geymslunnar af því að hann getur tryggt sig fyrir slíku,“ sagði Guðni Haraldsson hæstaréttarlögmaður í samtali við fréttastofu í hádeginu.
„Þannig að þarna er ábyrgðinni velt yfir á rekstraraðilann og það er óheimilt að undanþiggja sig slíkri ábyrgð vegna þess að lögin eru neytendum í hag.“

Leigjendur láti reyna á hvort skilmálar haldi gagnvart lögum
Varðandi textann á heimasíðu Geymslna um að trygging sé ekki innifalin í leigu segir Guðni:„Þá myndi reyna á það hvort að sá skilmáli eða sá fyrirvari, hvort hann héldi gagnvart lögunum. Vegna þess að það er óheimilt að víkja frá ákvæðum laganna neytendum í óhag.“
Aðspurður hvort skilyrði Geymslna teljist frávik frá lögum segir Guðni að hann ætli ekki að fullyrða það.
„En það er alveg vel þess virði að skoða það. Það hafa fallið svona úrskurðir í úrskurðarnefndum um neytendamál þar sem að geymsluaðili hefur verið talin bera ábyrgð á svona hlutum. Það er vel þess virði, af því að þetta eru kannski miklir hagsmunir fyrir einstaklinga, að láta skoða þetta og taka ekki svona fullyrðingar án þess að skoða það nánar.“
Lögregla hóf í dag sína rannsókn á brunanum og verður meðal annars farið yfir upptökur úr eftirlitsmyndavélum. Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, sagði í samtali við Vísi í dag að talið sé að eldurinn hafi kviknað á lager Icewear, sem er í miðri byggingunni í Miðhrauni 4, við hlið geymslnanna á vegum fyrirtækisins Geymslur. Slökkviliðið mun rannsaka hvort brunavarnir hafi verið fullnægjandi en ekkert vatnsúðakerfi var í húsinu.