Selfyssingurinn Haukur Þrastarson skoraði þrjú mörk í fyrsta landsleiknum sínum í gær þegar Ísland mætti Noregi í Gulldeildinni.
Haukur verður ekki sautján ára fyrr en í næstu viku og er því orðinn landsliðsmaður áður en hann fær bílprófið.
Margir voru að velta því fyrir sér hvort að Haukur væri sá yngsti frá upphafi enda allt annað en algengt að leikmenn sem eru enn gjaldgengir í sautján ára landsliðið fái tækifæri með A-landsliðinu.
Við fyrstu athugun leit út fyrir að Haukur væri ekki sá yngsti sem hefur opnað markareikninginn sinn fyrir íslenska handboltalandsliðið. Eftir
Samkvæmt fyrstu upplýsingum um fæðingardag Héðins Gilssonar (sjá hér) þá átti hann að vera tveimur mánuðum yngri þegar hann skoraði fyrir íslenska landsliðið á móti Sovétríkjunum á Friðarleikunum í Moskvu í júlí 1986.
Héðinn, var hinsvegar ekki 16 ára, 9 mánaða og 21 dags gamall heldur í raun einu ári eldri. Héðinn er ekki fæddur 22. september 1969 heldur 22. september 1968. Vísir fékk ábendingu um þetta og hefur leiðrétt fréttina.
Héðinn skoraði þrjú mörk í leiknum en hann hafði spilað sína fyrstu deildarleiki með meistaraflokki FH á tímabilinu á undan, 1985-86
„Gils kom mjög á óvart. Hann skoraði fyrsta mark Íslands en síðan varð hann að fara af leikvelli vegna meiðsla, en kom aftur inná í lokin og skoraði þá tvö mörk. Sannarlega framtíðarleikmaður,“ hafði Morgunblaðið eftir Jóni Hjaltalíni Magnússyni, þáverandi formanni HSÍ, sem var fararstjóri liðsins í Sovétríkjunum.

Samkvæmt upplýsingunum sem undirritaður hefur nú undir höndum þá eru þetta þeir yngstu sem hafa skorað fyrir landsliðð. Haukur var ekki að bæta met Héðins Gilssonar í gær heldur met Bjarna Guðmundssonar frá 1974.
Óstaðfestur topplisti yfir yngstu markaskorara landsliðsins:
16 ára, 11 mánaða og 22 daga
Haukur Þrastarson - 3 mörk á móti Noregi 2018
17 ára, 9 mánaða og 18 daga
Bjarni Guðmundsson - 1 mark á móti Lúxemborg 1974
17 ára, 9 mánaða og 21 dags
Héðinn Gilsson - 3 mörk á móti Sovétríkjunum 1986
18 ára, 3 mánaða og 10 daga
Aron Pálmarsson - 2 mörk á móti Belgíu 2008
18 ára, 4 mánaða og 17 daga
Patrekur Jóhannesson - 1 mark á móti Tékkóslóvakíu 1990
18 ára, 5 mánaða og 5 daga
Gísli Þorgeir Kristjánsson - 6 mörk á móti Japan 2018
18 ára, 5 mánaða og 11 daga
Árni Friðleifsson - 3 mörk á móti Ísrael 1986