Innlent

Næturfrost torveldaði slökkvistarf í nótt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá slökkvistarfi í gærkvöldi.
Frá slökkvistarfi í gærkvöldi. Vísir/Egill
Slökkvilið er enn að störfum í Miðhrauni í Garðabæ eftir stórbrunann í gær. Næturfrost gerði slökkviliðsmönnum starfið í nótt erfiðara fyrir.

Vinna hefur staðið yfir á vettvangi í alla nótt og voru tólf til fimmtán slökkviliðsmenn á vettvangi þangað til klukkan fimm í morgun er fækkað var í hópi slökkviliðsmanna að sögn Sigurbjarnar Guðmundssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Fækkað var örlítið í mannskapnum þá en nú er unnið að rífa húsið og slökkva í glæðum og hefur því slökkvistarf staðið yfir um í einn sólarhring. Enn er notast við krabbann sem aðstoðaði við slökkvistarf í gær.

„Um leið og er opnað og rifið upp blossa upp smáeldar hér og þar,“ segir Sigurbjörn. Allt að fjögurra gráðu frost var í nótt og torveldaði það slökkvistarf.

„Um leið og lokað er fyrir þá bara frýs í lögnunum, það gerir allt starf erfiðara,“ segir Sigurbjörn.

Senn líður að vaktaskiptum hjá slökkviliðinu og mun dagvaktin þá taka við og meta stöðuna en segir Sigurbjörn að svo líti út fyrir að farið sé að sjá fyrir endann á slökkvistarfi í Miðhrauni.

Eftir að því líkur mun lögregla taka við vettvangi og hefja rannsókn á brunanum en eldsupptök eru enn óljós.


Tengdar fréttir

Margir í áfalli eftir stórbruna

Slökkviliðsstjóri segir brunann í Miðhrauni líklega þann stærsta frá Skeifubrunanum 2014. Tjón er talið hlaupa á hundruðum milljóna og húsnæðið talið nær ónýtt. Leigjendur geymslurýma margir í áfalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×