Viðskipti innlent

Hefja hvalveiðar á ný

Gissur Sigurðsson skrifar
Hvalveiðar Íslendinga eru umdeildar í meira lagi.
Hvalveiðar Íslendinga eru umdeildar í meira lagi. VÍSIR/VILHELM
Hvalur hf. ætlar að hefja hvalveiðar á ný eftir tveggja ára hlé og eins og fyrr verða langreyðar veiddar.

Morgunblaðið greinir frá því að fyrirtækið hafi að undanförnu staðið fyrir þróun á járnríku fæðubótarefni og gelatíni úr beinum og spiki hvalanna, auk þess sem vonir séu bundnar við að markaður fyrir kjötið opnist í Japan á ný.

Sjá einnig: Engar hvalveiðar í sumar: „Ef við hefðum vitað hvað var í vændum í Japan hefðum við aldrei byrjað aftur“

Blaðið segir að þessar tilraunir hafi verið gerðar í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóla Íslands en járnnæringaskortur er talinn útbreiddasta og alvarlegasta heilbrilgðisvandamál í heiminum.

Leyft verður að veiða 161 dýr í sumar auk þess sem leyft verður að nota hluta ónotaðs kvóta frá því í fyrra.

Ekki kemur fram hvort til stendur að veiða öll þessi dýr, en veiðarnar hefjast 10. júní.

Hvalveiðar fyrirtækis Hvals hf., sem er það eina sem stundað hefur hvalveiðar við Íslandsstrendur síðastliðin ár, hafa verið í meira lagi umdeildar. Bandaríkjaforseti hefur gagnrýnt þær og erlendir tölvuþrjótar ítrekað gert árásir á íslenskar vefsíður í mótmælaskyni við þær.

Sjá einnig: Ekki hægt að merkja teljandi áhrif vegna hvalveiða

Árið 2014 var Íslandi ekki boðið að taka þátt í hafráðstefnunni Our Ocean, sem utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna stóð fyrir, þrátt fyrir að vera ein stærsta fiskveiðiþjóð í Norður-Atlantshafi og hafi sóst eftir að taka þátt. Var ákvörðun Bandaríkjastjórnar rakin til hvalveiða Íslendinga.

Utanríkisráðuneytið gaf út skýrslu árið 2016 um áhrif hvalveiða á samskipti Íslanda og annarra ríkja. Niðurstaða hennar var m.a. að ekki væru unnt að sjá að ákvarðanir Bandaríkjaforseta, í tengslum við hvalveiðar Íslendinga, hafi haft nokkur teljandi áhrif á viðskiptalega hagsmuni eða diplómatísk samskipti ríkjanna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×