Sjúkrahúsið Vogur, Landspítali og embætti sóttvarnarlæknis vinna saman að því að lækna lifrarbólgu C hérlendis.VÍSIR/VILHELM
Átak gegn lifrarbólgu C sem starfrækt hefur verið hérlendis frá árinu 2016 skilar góðum árangri en alls eru á sjöunda hundrað manns læknuð eða á batavegi fyrir tilstilli þess. Átakið hófst í byrjun árs 2016 í kjölfar baráttu Fanneyjar Bjarkar Ásbjörnsdóttur fyrir því að hljóta meðferð. Fanney Björk var hafnað um meðferð við sjúkdómnum á grundvelli kostnaðar meðferðarinnar en kostnaður við lyfjagjöf hvers sjúklings getur numið allt að tíu milljónum króna.
Fanney Björk höfðaði í kjölfarið mál gegn íslenska ríkinu. Úrskurður var kvaddur í máli hennar í september árið 2015 og tapaði Fanney málinu. Þrátt fyrir að tapa málinu fyrir héraðsdómi náði barátta hennar rækilega á kortið og veittu Eyjafréttir henni titilinn Eyjamaður ársins.
Barátta Fanneyjar var þó alls ekki til einskis því þremur vikum síðar var tilkynnt var að sjúklingum með lifrarbólgu C myndi bjóðast lyfjagjöf. Fanney er í dag ein af fjölmörgum sem læknast hafa af lifrarbólgu C.
Fanney Björk læknaðist fyrir tilstilli átaksins.Visir / StefánValgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, kynnti niðurstöður átaksins á alþjóðlegri ráðstefnu í París í síðustu viku. Niðurstöðurnar ná yfir fyrstu 15 mánuði átaksins. Tekist hefur að lækka um 72% algengi lifrarbólgu C meðal þeirra sem leggjast inn á Vog með sögu um neyslu vímuefna um æð. Árið 2015 var algengi smits hjá þessum hópi 43% en var komið niður í 12% árið 2017.
Árangurinn hér á landi hefur vakið athygli utan landsteinanna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur sett sér markmið um að fækka þeim sem smitast af lifrarbólgu C um 80% fyrir árið 2030. Líklegt þykir miðað við gengi átaksins hérlendis að Ísland muni fyrst landa ná markmiðinu, alls tíu árum á undan áætlun.
Einstaklingum sem smitaðir eru af lifrarbólgu C og njóta sjúkratrygginga á Íslandi mun bjóðast meðferð með nýjum lyfjum sem geta læknað sjúkdóminn í allt að 95 til 100 prósent tilvika.