Innlent

Stórtækir sjóplokkarar í Nauthólsvík

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Kristbjörg Rán Helgadóttir, Kristín Helgadóttir og Ragnheiður Valgarðsdóttir hafa stundað sjósund í níu ár og hafa allan þann tíma hafa týnt rusl úr sjónum. Þær hafa bætt um betur uppá síðkastið í takt við átakið Plokk á Íslandi og nýttu daginn í dag í sjóplokkun í Nauthólsvík.

Þar var nóg  af alls kyns drasli, einkum á strandlengjunni þar sem kenndi ýmissa grasa. Það tók þær ekki nema um tíu mínútur að finna plast, spýtur, vír og klóakrör sem reyndist hins vegar of þungt til að taka með sér.

Það er sjóplokkað á og við ströndinaVísir/Egill Aðalbjörnsson
„Við höfum fundið allt frá golfkúlum og matardiskum uppí hjólbörur, dekk og ónýtar krabbagildrur. Þetta höfum við allt reynt að bera í land, það er reyndar gríðarlegt magn af golfkúlum sem berst hérna inn, ég veit ekki afhverju. Það er viss áskorun að kafa eftir þeim og við eigum nokkrar körfur af golfkúlum sem við höfum fundið, “segir Ragnheiður Valgarðsdóttir.

Sjóplokkararnir komu svo ruslinu fyrir í gámi í NauthólsvíkVísir/Egill Aðalsteinsson
„Ætli þær komi ekki bara með golfstrauminum,“ bætir Kristín Helgadóttir við.

Þær fundu stóran plastrenning í sjónum í gær og hafa nú komið honum fyrir í gám við Nauthólsvík ásamt öðru rusli sem þær hafa fundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×