ÍBV er úr leik í Áskorendakeppni Evrópu eftir fjögurra marka tap gegn rúmenska liðinu Potaissa Turda en leikið var ytra í dag. Eyjamenn unnu fyrri leikinn með þremur mörkum, 31-28 þegar liðin mættust í Vestmannaeyjum um síðustu helgi.
Leikurinn í dag var sveiflukenndur en munurinn fór mest í fimm mörk. Heimamenn höfðu frumkvæðið framan af og leiddu í leikhléi með tveimur mörkum, 13-11.
Eyjamenn voru betri í upphafi síðari hálfleiks og voru tveimur mörkum yfir þegar sextán mínútur lifðu leiks, 18-20. Heimamenn tóku hins vegar leikinn yfir á lokakaflanum og unnu að lokum fjögurra marka sigur. Lokatölur 28-24 fyrir Turda og samtals 56-55 sigur Rúmenanna.
Sigurbergur Sveinsson var markahæstur Eyjamanna með sex mörk og næstur kom Theodór Sigurbjörnsson með fimm.
Eyjamenn hafa verið afar sigursælir í vetur; unnið bikarmeistaratitil, deildarmeistaratitil og eru 1-0 yfir í undanúrslitaeinvígi gegn Haukum en nú er Evrópudraumurinn úti.
Potaissa Turda leikur því til úrslita í þessari keppni annað árið í röð en í fyrra slógu þeir Valsmenn út í undanúrslitum.
ÍBV úr leik eftir tap í Rúmeníu
Arnar Geir Halldórsson skrifar

Mest lesið






Ratcliffe þekkti ekki fyrirliða kvennaliðsins
Enski boltinn




Jón Dagur í frystiklefa í Berlín
Fótbolti