Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Haukar 24-22 │ÍBV tók forystuna eftir spennutrylli

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Leikmenn ÍBV fagna.
Leikmenn ÍBV fagna. vísir/anton
ÍBV vann tveggja marka sigur á Haukum, 24-22, í Vestmannaeyjum í kvöld. Mikilvægur sigur Eyjamanna sem leiða nú undanúrslita einvígið 1-0. Haukar fengu tækifæri á sigri en spennandi lokamínútur skiluðu ÍBV sigrinum.

Það var augljóst að í kvöld væru tvö hörkulið að fara að berjast. Jafnræði var með liðunum á upphafs mínútunum en eftir fyrsta stundarfjórðunginn tóku heimamenn að leiða leikinn. Þriggja marka munur var þegar 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, 8-5. Gunnar Magnússon náði þá eftir leikhlé að koma sínum mönnum inní leikinn sem minnkuðu hann niður í eitt mark en það stóð stutt við og leiddi ÍBV með fjórum mörkum þegar flautað var til hálfleiks, 12-8. 

ÍBV hóf síðari hálfleikinn á marki og voru fyrstu mínúturnar í eigu Eyjamanna og staðan á 35. mínútu 15-10. Heimamenn fengu tækifæri á að komast í sex marka forystu en í staðinn misstu þeir forskotið niður. Gestirnir úr hafnarfirði snéru þá leiknum við og eftir frábæran 5-0 kafla var staðan jöfn 15-15. Leikurinn var jafn það sem eftir var, mikil læti voru í leiknum meðal leikmanna, þjálfara og stuðningsmanna sem létu vel í sér heyra í kvöld. 

Þegar 10 mínútur voru til leiksloka var staðan 18-19, Haukum í vil. Magnús Stefánsson, varnarmaður ÍBV og fyrirliði liðsins fékk þá beint rautt spjald fyrir að slá Daníel Þór Ingason í andlitið. Gestirnir náðu tveggja marka forystu 18-20 eftir að Magnús fór útaf, meðbyr var með gestunum og hætt við því að Eyjamenn væru að missa hausinn en þeir voru ekki tilbúnir að tapa fyrsta leik þessa undanúrslita einvígis á heimavelli. 

Eftir spennandi loka mínútur náði ÍBV að tryggja sér tveggja marka sigur, lokatölur í Vestmannaeyjum 24-22, heimamönnum í vil. 

Af hverju vann ÍBV?

Heimamenn voru sterkari á lokakaflanum, héldu haus og létu mótlætið ekki ná yfirhöndinni. Þetta eru tvö jafn góð lið sem geta bæði unnið þessa leiki en ÍBV hafði betur í dag.

Hverjir stóðu uppúr? 

Róbert Aron Hostert var frábær í dag, stýrði leik Eyjamanna og átti góðan leik varnarlega en Sigurbergur Sveinsson var einnig góður. Uppaldni Haukamaðurinn steig upp á loka mínútunum og var stórkostlegur á lokakaflanum. Sigurbergur var markahæstur í liði ÍBV með 7 mörk, Róbert Aron þar á eftir með 5 mörk. 

Daníel Þór Ingason og Adam Haukur Baumruk skiptust á að leiða vagninn fyrir Haukana. Daníel Þór var atkvæðamestur með 9 mörk en Adam Haukur, 7 mörk.

Landsliðs markverðirnir Aron Rafn Eðvarðsson og Björgvin Páll Gústavsson áttu báðir góðan leik í dag. 

Hvað gekk illa?

ÍBV átti í erfiðleikum með að nýta færin sín, voru að skapa sér góð færi en Björgvin Páll varði hvert dauðafærið á fæti öðru. Eyjamenn reyndu eins og oft áður að finna Kára Kristján inná línunni en það gekk illa hjá þeim í dag. 

Hraðaupphlaup eru án efa styrkleiki þessara liða en það var ekki mikið um þau í dag, þeir Hákon Daði Styrmisson og Theodór Sigurbjörnsson aðeins með 3 mörk. 

Hvað er framundan?

ÍBV heldur til Rúmeníu á fimmtudaginn. Þeir mæta Potaissa Turda í undanúrslitum áskorendakeppni evrópu á sunnudaginn. Næsti leikur ÍBV og Hauka í undanúrslita einvígi Olís-deildar karla verður á Ásvöllum fimmtudaginn 3 maí.

 

 

Arnar: Væri ekki til í að sitja uppí stúku og horfa á aðra í okkar stöðu

Arnari Péturssyni, þjálfara ÍBV, var létt eftir leik en hann var ánægður með liðsheildina hjá sínum strákum í kvöld. 

„Ég er mjög ánægður með þá. Við létum mótlætið aðeins fara í taugarnar á okkur þegar Björgvin (Páll Gústavsson) var að verja nokkra eitraða bolta þarna í seinni hálfleik en ég er ánægður með að hafa komið til baka gegn vel sterku Hauka liði og klárað þetta.“ 

„Ég óttaðist aðeins á tímabili að strákarnir myndu missa haus. Þegar Björgvin er í þessum ham þá eru Haukarnir ekki þægilegir að eiga við. Við héldum ró og komum til baka. Svo spiluðum við af skynsemi og aga undir lokin.“ sagði Arnar sem þakkar góðum varnarleik og markvörslu sigurinn í dag.

„Það var frábær varnarleikur sem skóp sigurinn í dag, heilt yfir agaður og vel skipulagður sóknarleikur gegn sterkri Haukavörninni og Björgvini Páli. Varnarleikur og markvarsla var til fyrirmyndar hjá okkur allan leikinn.“

Magnús Stefánsson fékk beint rautt spjald í seinni hálfleik. Eftir smá umhugsun dómara álitu þeir að Magnús hefði slegið Daníel Þór Ingason beint í andlitið og ráku hann því upp í stúku. Arnar segist ekki vera sáttur við þann dóm

„Ég segi bara eins og Wenger, ég sá þetta ekki.“ sagði Arnar sem vildi helst ekki tjá sig um dóminn en bætti þó við að hann hefði séð svona brot áður í leiknum

„Mér fannst þetta keimlíkt broti í fyrri hálfleik þar sem dómarar leiksins tóku sér einnig umhugsnarfrest og gáfu svo tvær mínútur. Persónulega fannst mér brotið hjá Magga líka bara tvær mínútur, allavega þanngað til ég sé þetta aftur og þarf þá að taka það til baka.“

Eins og áður hefur verið nefnt heldur ÍBV til Rúmeníu á fimmtudaginn. Eyjamenn fara til Reykjavíkur á morgun og þeirra bíður langt ferðalag. Arnar segir þetta ekki kvöð heldur er þetta óskastaða og skemmtilegir leikir sem bíða þeirra en mun það hafa einhver áhrif á leikmenn, ferðalagið og álagið sem er framundan hjá ÍBV?

„Nei. Við vildum vera á þessum stað þar sem við erum í dag. Okkur finnst við vera öfundsverðir að vera í undanúrslitum bæði í evrópu og á íslandi. Við förum ekki að byrja að væla yfir því núna. Þetta er vissulega þétt og margir leikir úrslitaleikir sem bíða okkar. Ég myndi ekki vilja sitja uppí stúku og horfa á aðra spila í þessari stöðu sem við erum í, svo ég ætla ekki að kvarta yfir þessu.“ sagði Arnar að lokum.

Gunnar: Þetta verður stál í stál allan tímann 

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var ángæður með leik sinna manna í Vestmannaeyjum í kvöld en hann var þó svekktur með úrslitin.

„Ég er ánægður með drengina, fyrir utan smá kafla í fyrri hálfleik. Misstum aðeins hausinn og skipulagið en annars fannst mér við spila þetta frábærlega. Það er stutt á milli í þessu, stöngin inn - stöngin út, þetta féll með þeim í dag. Með smá heppni hefðum við alveg getað tekið sigurinn.“ sagði Gunnar, fyrrum þjálfari ÍBV, en hann þekkir lið Eyjamanna betur en margir. 

„ÍBV eru fljótir að refsa, það var ekki nema smá kafli hjá okkur í fyrri hálfleik þar sem við dettum niður og þá refsa þeir okkur. Seinni hálfleikurinn var frábær hjá okkur. Við vorum nálægt því að fá sigur í kvöld og ég er stoltur af strákunum eftir þessa frammistöðu. Við gáfum allt í þetta og ég er ánægður með margt úr þessum leik.“ sagði Gunnar en Haukar spilaði vel í kvöld og hefðu líkt og Gunnar sagði, með smá heppni getað unnið leikinn.

“Við vitum að þetta eru tvö frábær lið og vitum alveg hvað Eyjamenn geta svo þetta verður stál í stál allan tímann.“

Haukar fá nú 9 daga hvíld þar sem ÍBV heldur til Rúmeníu til að spila í evrópukeppninni. Þetta er ekki óskastaða fyrir hafnfirðingana sem hefðu heldur viljað spila þétt og keyra einvígið áfram. 

„Stundum er gott að spila þétt, svo ég veit ekki hvort það sé gott fyrir okkur að fá viku pásu núna. Við gerum allt til að styðja við íslenskan handbolta, við hefðum viljað spila þetta þéttar en styðjum auðvitað Eyjamenn í þessari evrópubaráttu.“ sagði Gunnar að lokum

 

Björgvin Páll: Þetta er skrítnasti derby leikur sem ég veit um

„Þetta var rosa leikur og skemmtilegur leikur“ var það fyrsta sem Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka, hafði um leikinn að segja. Björgvin Páll átti góðan leik og gerði ÍBV erfitt fyrir í kvöld. 

„Það voru allir all-in, hvort sem það voru dómararnir, leikmenn liðanna eða stúkan. Frábært að bjóða uppá svona veislu með æðislegum leik. En það var ömurlegt að tapa leiknum og vera undir 1-0 í einvíginu núna. Maður væri helst til í að spila bara eftir tvo daga aftur til að geta bætt fyrir þetta.“ sagði Björgvin Páll

„Ef við hefðum unnið væri fínt að fá pásuna en það er pirringur í okkur núna og væri gaman að framlengja þennann leik bara í geggjað einvígi, erfitt að fá þessa pásuna en við munum nýta hana vel. Við höfum lifað á því í allan vetur að spila góða vörn og vera harðir af okkur, við munum halda því áfram. Sóknarleikurinn hikstaði aðeins hjá okkur í dag og Aron (Rafn Eðvarðsson) var að reynast okkur erfiður en ef við fáum á okkur tveimur mörkum minna í næsta leik og skorum tveimur mörkum meira þá erum við góðir.“ sagði Björgvin Páll þegar hann var spurður út í það hvað mætti betur fara fyrir næsta leik.

„Þetta einvígi verður bara svona og er bara geggjuð auglýsing fyrir handboltann. Þetta er einhver skrítnasti „derby“ sem ég veit um, liðin eru svo langt frá hvort öðru á kortinu að það er bara djók.“ sagði Björgvin Páll, en það hefur skapast sú hefð að mikil stemning er í kringum leiki ÍBV og Hauka og engu líkara en að um nágrannaslagi eða „derby“ leiki sé að ræða.

„Menn eru að gefa allt í þetta núna og þá er svo gaman að spila handbolta, það er gaman að njóta sín og tala nú ekki um að mæta hingað til Eyja, þetta er það skemmtilegasta sem maður gerir.“ sagði Björgvin Páll að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira