Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa tjáð nágrönnum sínum í suðri vilja sinn til þess að afkjarnorkuvæða Kóreuskaga alfarið. Engin ósanngjörn skilyrði hafa verið sett fram fyrir afkjarnorkuvæðingunni. Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, greindi frá þessu í gær en einræðisríkið hefur unnið að því undanfarin ár að koma sér upp kjarnorkuvopnabúri.
„Ég held að við leggjum nákvæmlega sama skilning í orðið afkjarnorkuvæðing,“ sagði Moon. Aukinheldur sagði hann að það ætti ekki að vera erfitt að ná samkomulagi um frið, afkjarnorkuvæðingu og bætt samskipti Kóreuríkjanna á leiðtogafundi sem hann sækir ásamt Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, í lok mánaðar.
„Þeir hafa ekki sett fram nein skilyrði fyrir afkjarnorkuvæðingu sem Bandaríkin gætu ekki samþykkt. Til að mynda hafa þeir ekki krafist þess að bandarískir hermenn fari frá Suður-Kóreu.“
![Fréttamynd](/static/frontpage/images/kvoldfrettir.jpg)