Erlent

Eltihrellir Söndru Bullock látinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sandra Bullock á Óskarsverðlaunahátíðinni í vor.
Sandra Bullock á Óskarsverðlaunahátíðinni í vor. Vísir/Getty
Karlmaður, sem dæmdur var á síðasta ári fyrir að sitja um leikkonuna Söndru Bullock, lést eftir lögregluaðgerð við heimili hans í gær. Talið er að hann hafi svipt sig lífi.

Á vef People kemur fram að lögreglan í Los Angeles vilji lítið tjá sig um málið að svo stöddu. Heimildarmenn blaðsins segja þó að lögreglan hafi verið send að heimili Joshua James Corbett í gærmorgun vegna gruns um að maðurinn hafi rofið nálgunarbann.

Þegar lögreglan mætti á vettvang er Corbett sagður hafa birgt sig inni og haft í hótunum við lögreglumenn. Því var kallað á sérsveitina sem sat um hús Corbett. Skömmu síðar er maðurinn sagður hafa stytt sér aldur.

Corbett var í maí á síðasta ári dæmdur í fimm ára skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa brotist inn á heimili Söndru Bullock árið 2014 og fyrir að hafa setið um leikkonuna um langt skeið. Hann játaði brot sín og var gert að leita sér geðrænnar aðstoðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×