Erlent

Hröð meðferð vörumerkja Ivönku í Kína vekur spurningar um spillingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Ivanka Trump.
Ivanka Trump. Vísir/EPA
Ivanka Trump, dóttir Donald Trump forseta Bandaríkjanna, hefur fengið þrettán vörumerki samþykkt í Kína á einungis þremur mánuðum. Átta vörumerki til viðbótar hafa fengið hraða meðferð á tímabilinu og verið samþykktar tímabundið. Sérfræðingar segja þennan hraða vera óeðlilegan og AP segir þessar upplýsingar vekja frekari spurningar um hagsmunaárekstra í Hvíta húsinu.



Upplýsingarnar voru opinberaðar af eftirlitsaðilunum Citizens for Ethics and Responsibility in Washington

Á sama tíma hefur Donald Trump skipað Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna að bjarga kínverska fyrirtækinu ZTE frá gjaldþroti, en þvingunum og refsiaðgerðum var beitt gegn fyrirtækinu fyrir að brjóta bandarísk lög og að eiga í viðskiptum við Norður-Kóreu og Íran.

Þar að auki hafa öryggisstofnanir Bandaríkjanna varað við því að ógn stafi af ZTE og yfirvöld Kína noti það til njósna.

Yfirvöld Bandaríkjanna meinuðu fyrirtækinu að eiga í viðskiptum í Bandaríkjunum í sjö ár og ZTE stefndi í gjaldþrot. Þann 13. maí tilkynnti Trump óvænt að hann hefði skipað Viðskiptaráðuneytinu að hjálpa ZTE.

Þar að auki hefur Trump hótað því að setja tolla á innflutning frá Kína. Tollum þessum er þó ekki ætlað að ná yfir fatnað en Ivanka flytur mikið af fötum sem framleidd eru fyrir hana í Kína.



Í samtali við AP segir Noah Bookbinder, yfirmaður Citizens for Responisbility and Ethics in Washington, að það að Ivanka slíti sig ekki frá fyrirtæki sínu og að það sé að stækka á erlendri grundu sé áhyggjuefni. Það veki upp spurningar um spillingu og opni á þann mögulega að hún græði á stöðu sinni í Hvíta húsinu og því að faðir hennar sé forseti. Sömuleiðis gæti það haft áhrif á opinber störf þeirra og utanríkisstefnu Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×