Innlent

Ógnuðu húsráðanda með járnkylfum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ofbeldismál voru fyrirferðamikil hjá lögreglunni í nótt.
Ofbeldismál voru fyrirferðamikil hjá lögreglunni í nótt. VÍSIR/VILHELM
Lögreglan var send að húsi í Austurbænum í nótt eftir að tilkynning barst um að menn vopnaðar járnkylfum hafi reynt að komast þar inn. Þegar lögreglumenn komu á vettvang voru mennirnir á bak og burt en þeir eru ekki taldir hafa beitt kylfunum.

Skömmu síðar er lögreglan sögð hafa haft hendur í hári eins hinna grunuðu, en talið er að sést hafi til hans „henda frá sér ætluðum fíkniefnum,“ eins og það er orðað í skeyti lögreglunnar. Hann var fluttur á Hverfisgötu þaðan sem hann var svo látinn laus að lokinni yfirheyrslu.

Þá óskuðu dyraverðir á skemmtistað í miðbænum eftir aðstoð lögreglunnar skömmu eftir miðnætti. Þar hafði einstaklingur tvívegis reynt að slá til dyravarðanna og var hinn erfiðasti. Þegar lögreglan kom á staðinn er viðkomandi sagður hafa róast - en að hann hafi jafnframt orðið æfur aftur eftir að inn í lögreglubílinn var komið.

Þegar flytja átti manninn til síns heima hafi maðurinn orðið „hinn versti“ og veittist að lögreglumanni sem sat við hlið hans. Var honum því haldið þangað til komið var í fangamóttöku Hverfisgötu en þá var hann færður í fangaklefa. Ætla má að hann verði yfirheyrður þegar af honum rennur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×