Viðræðufundi Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lauk í dag klukkan 16.00 en flokkarnir halda áfram þar sem frá var horfið í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti klukkan 13.00 á morgun. Dagskráin riðlast vegna borgarstjórnarfundar í fyrramálið.
Aðspurður hvort niðurstöður kosninganna séu ákall um breytingar og hvort Viðreisn ætli sér að knýja á um breytingar í Reykjavík svarar Pawel: „Við komum klárlega inn með nýjar áherslur.“
„Hvað mig varðar er maður fyrst og fremst að setjast niður með hópi fólks og að reyna að búa til samstarfsvettvang til næstu fjögurra ára sem á eftir að ganga vel og það er það sem vakir fyrir mér: Að gera sem best,“ segir Pawel sem vildi að öðru leyti ekki tjá sig um samningsmarkmið Viðreisnar.
