Erlent

Stephen Hawking jarðsettur við hlið Darwin og Newton í dag

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Hawking lést í mars, 76 ára að aldri eftir áratugabaráttu við hreyfitaugungahrörnun
Hawking lést í mars, 76 ára að aldri eftir áratugabaráttu við hreyfitaugungahrörnun Vísir/Getty
Minningarathöfn fyrir raunvísindamanninn Stephen Hawking verður haldin í Westminster Abbey í dag. Við athöfnina verður aska Hawking grafin á meðal annarra merkra vísindamanna eins og Charles Darwin og Isaac Newton. Hawking lést í mars, 76 ára að aldri eftir áratugabaráttu við hreyfitaugungahrörnun. Jarðarför hans fór fram í Cambridge í lok mars. 

Kóngafólk og nokkrir mikilvægustu einstaklingar í sögu Bretlands eru grafnir í Westminsterklaustrinu. Síðustu vísindamennirnir sem voru grafnir í Westminster voru þeir Ernest Rutherford, frumkvöðull í kjarneðlisfræði árið 1937 og Joseph John Thomson árið 1940. Thomson uppgötvaði rafeindir.

Meðal þeirra sem munu halda erindi við athöfnina eru leikarinn Benedict Cumberbatch, sem lék Hawking í þáttum fyrir Breska ríkissjónvarpið, og geimfarinn Tim Peake.

Stjörnufræðingurinn Martin Rees mun einnig halda erindi sem og samstarfsmaður Hawking og nóbelsverðlaunahafinn Kip Thorne. Tónskáldið Vangelis hefur samið tónverk við orð Hawking sem hin fræga tölvurödd hans flytur og verður verkinu varpað upp í geim, nánar tiltekið að næsta svartholi, eftir athöfnina.

Þúsund manns frá meira en hundrað löndum hefur verið boðið að vera viðstaddir athöfnina


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×