Valsmenn hafa bætt við sig varnarmanni í Pepsi-deild karla en Sebastian Starke Hedlund hefur skrifað undir samning við Íslandsmeistarana.
Hedlund er 23 ára gamall miðvörður sem var síðast á mála hjá Mjöndalen í Noregi en hann er frá Svíþjóð. Einnig hefur hann leikið með GAIS og Varbergs BoIS í Svíþjóð.
Ungur að árum fór hann til Schalke þar sem hann lék alla leið upp í varaliðið en náði ekki að leika með aðalliði félagsins. Hann fór svo frá Schalke aftur til Svíþjóðar, til GAIS.
Hann á að baki yngri landsleiki með Svíum en einnig var hann í leikmannahóp liðsins sem spilaði á Ólympíuleikunum í Ríó sumarið 2016.
Hedlund er ætlað að fylla skarð Rasmus Christiansen sem fótbrotnaði illa í leik gegn ÍBV fyrr á tímabilinu en Valur er á toppi Pepsi-deildarinnar.
Svíinn verður löglegur fimmtánda júlí en hann er væntanlegur til landsins í byrjun júlí.
