Í ályktuninni segir að skipuleggjendum og borgaryfirvöldum hafi ekki tekist að standa við gefin loforð hvað varðar umgengni í nærumhverfi tónleikasvæðisins, þar á meðal leikskólum og á skólalóðum. Lítið hafi breyst á milli ára.
„Íbúar eru því enn eitt árið tilneyddir til að halda börnum sínum í hálfgerðu stofufangelsi á meðan á hátíðinni stendur, vilji þeir ekki eiga það á hættu að börnin þeirra detti um ælupolla, áhöld til fíkniefnaneyslu, notaðar sprautunálar og hálftómar bjórdósir, á leiksvæðum sínum í hverfinu. Það er nokkuð ljóst að umfanga hátíðarinnar er algjörlega komin yfir þolmörk hverfisins."
Börnum niður í fimmtán ára afhent armbönd sem leyfa áfengiskaup
Foreldrafélagið segir vandamálið ekki eingöngu snúa að þeim börnum sem sækja þessa skóla. Börn niður í fimmtán ára aldur hafi fengið afhent armbönd sem gerði þeim kleift að kaupa áfengi og það hafi verið þvert á gefin loforð frá skipuleggjendum hátíðarinnar. Þá segir foreldrafélagið að ástandið í nærumhverfi hátíðarinnar hafi verið með öllu óásættanlegt, en þar höfðu ungmenni hópast saman alla þá daga sem hátíðin stóð yfir.„Þar hópast saman ungmenni niður í 15 ára og líkja foreldrar sem stóðu Foreldravaktina ástandinu við það stríðsástand sem skapaðist í miðborg Reykjavíkur fyrir nokkrum árum,“ segir í ályktuninni.
„Á þessum svæðum fer fram mikil vímuefnaneysla og eiturlyfjasala og er ástand umhverfisins í takt við það.“
Þá segir foreldrafélagið hátíðina ekki vera í takt við þau yfirlýstu markmið Reykjavíkurborgar að vera heilsueflandi borg og það séu mikil vonbrigði að hátíðin fari fram á íþróttasvæði Þróttar, sem eigi að vera forvarnaraðili í hverfinu á meðal ungmenna.