Íbúar á Suður- og Vesturlandi hafa alveg losnað við það vesen í vor að þurfa að vökva garðana sína, eins og þeir á Vopnafirði neyðast til að gera. Vopnfirðingar hafa líka haft lítil not fyrir regngallana sína, þeir þurfa að eyða peningum í stuttbuxur og stuttermaboli.
„Þetta er bara dásamlegt sumar, mjög gott. Við kvörtum allavega ekki“ sagði Unnur Unnsteinsdóttir, kennari í fæðingarorlofi, þegar við hittum þau Sigurð Donys Sigurðsson, knattspyrnuþjálfara og skólaliða. Með þeim voru dæturnar Hrafney Lára Einarsdóttir, sjö ára, og Helena Rán Einarsdóttir, 12 ára, og fjögurra vikna óskírður drengur í barnavagninum.

Hjá Vopnfirðingum er himininn blár flesta daga um þessar mundir og ef fólk ætlar að sitja lengi fáklætt í görðunum þá kostar sólarvörnin sitt.
„Já, það hefur yfirleitt verið gott í vor, - ekki alltaf 20 stiga hiti náttúrulega,“ sagði Alexander Árnason, rafvirki, sem við hittum léttklæddan í garðinum ásamt eiginkonu sinni, Ragnhildi Antoníusdóttur.
Fimm daga bæjarhátíð, Vopnaskak, hefst um miðja viku og kveðst Unnur vonast til að veðurblíðan haldist að minnsta kosti fram yfir hana, með 20 stiga hita og sól.

„Það er voða leiðinlegt fyrir þau að hafa rigningu allt sumarið. En þá er gott hjá okkur,“ segir Ragnhildur.
„En við notum þá tækifærið og reynum að stríða þeim aðeins. Það finnst mér nú vera alveg lágmark, sko. Því að þeir eru búnir að hafa svo mörg góð ár,“ segir Alexander.
„Nei, við erum örugglega ótrúlega leiðinleg. En við finnum ekkert voða mikið til með þeim. Þeir mega koma hingað,“ segir Unnur.
„Koma í sveitina. Það er fallegt hérna og margt að skoða ,“ segir Sigurður.
„Þannig endilega koma í heimsókn,“ segir Unnur og þau minna á að það sé ekkert lengra að fara til Vopnafjarðar heldur en fyrir þau að fara suður.
En halda þau að sumarið verði allt svona?
„Það skulum við bara vona, - okkar vegna,“ svarar Alexander.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: