Skoðun

Veðurbarin hamingja

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Það rignir svo mikið að fólk á Suðvesturlandi stillir vekjaraklukkuna eftir veðurspánni til að geta slegið grasið. Og við sjáum ekki fram á að geta borið á pallinn þetta sumarið því ekkert útlit er fyrir tvo samfellda þurra sólarhringa. Ef hægt er að vera óþreyjufullur af sólarskorti þá er tíminn núna.

Maður mundi ætla að veðurfar hefði mikil áhrif á hugarástand – að fólkið á Spáni hefði það betra en við í grámyglunni og vætunni. Því lagðist ég yfir rannsóknir til að komast að því hvaða áhrif veðurfar hefur á geðheilsu okkar.

Ólíkt því sem ég bjóst við þá virðumst við búa við eðalaðstæður. Eini veðurþátturinn sem virðist hafa áhrif á sálarlíf okkar er hitastig (en ekki rok, rigning, raki, úrkoma eða sólskin). Vellíðan mælist hæst við 13,9°C og minnkar marktækt með hækkandi hitastigi. Þegar hiti hækkar yfir 21°C minnkar lífsgleði fólks ásamt því sem streita, reiði og þreyta eykst. Fjandsamlegar hugsanir, sambandsslit, glæpir, ofbeldi og andfélagsleg hegðun eykst sömuleiðis með hækkandi hitastigi. Þó svo að þeir sem búa við rok og rigningu kvarti meira undan veðrinu eru þeir jafnlífsglaðir og þeir sem búa í sólarlandi.

Þegar á heildina er litið hefur veðurfar lítil áhrif á lundarfar okkar enda sýna niðurstöður Alþjóðahamingjurannsóknarinnar (World Happiness Report) að Íslendingar eru meðal fimm hamingjusömustu þjóða heims.

Ef þið sjáið í hillingum að flytja til Spánar í sólina skuluð þið hugsa ykkur tvisvar um – því við virðumst skapa okkar eigið sólskin. Ef þið viljið auka lífsgleði ykkar skuluð þið borða vel af grænmeti og ávöxtum, sofa vel og hreyfa ykkur úti – veðurbarin en með sól í hjarta.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×