Þátttaka í almennum bólusetningum á Íslandi í fyrra var svipuð og árið á undan, ef marka má nýja skýrslu sóttvarnarlæknis. Það þykir landlæknisembættinu ákveðið áhyggjuefni, enda var þátttaka yngstu árganganna í bólusetningum það árið lakari en áður hefur verið.
„Ef þátttaka minnkar enn frekar má búast við að hér á landi fari að sjást sjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil,“ segir í frétt á vef landlæknis sem rituð er vegna útgáfu skýrslunnar.
„Sérstaklega eru mislingar áhyggjuefni en þeir hafa nú geisað af krafti víða í Evrópu um nokkurra ára skeið. Mikil flugumferð um Ísland gerir það að verkum að sóttvarnalæknir fær reglulega spurnir af því að einstaklingur með smitandi mislinga hafi verið í flugvél með viðkomu á Íslandi,“ eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum að undanförnu.
Meðgöngutími sjúkdómsins er um 10-14 dagar en getur verið allt að 3 vikur „og með dvínandi þátttöku yngstu árganganna í bólusetningum er hætt við að faraldur geti komið upp ef smit berst inn á leikskóla hér á landi,“ segir í fréttinni.
Þar er þó tekið fram að höfnun bólusetninga sé fremur sjaldgæf hér á landi. „Miklu algengara er að skoðun í ung- og smábarnavernd falli niður af óljósum orsökum,“ eins og það er orðað.
Skýrslu sóttvarnarlæknis má nálgast hér

