Conor var kærður fyrir bræðiskast sem hann tók í byrjun apríl á þessu ári þar sem að Írinn veittist að öðrum bardagamönnum sem sátu inn í rútu. Reiði hann beindist að Rússanum Khabib Nurmagomedov.
Áðurnefnt samkomulag felur í sér að Conor játar sök fyrir óspektir og fer hann ekki í fangelsi. Þá mun hann áfram geta ferðast til Bandaríkjanna og verður atvikið ekki á sakaskrá hans.
Conor hafði ekki mikið að segja um málið þegar að hann steig út úr dómshúsinu í morgun en þar beið urmull fjölmiðlamanna eftir að heyra hann tjá sig um málið.
Vanalega þarf ekki að draga orðin upp úr írska vélbyssukjaftinum sem lét alveg vera að halda mikla ræðu heldur talaði hann aðeins í tíu sekúndur sléttar.
„Ég vil bara segja að ég er þakklátur saksóknaranum og dómaranum fyrir að leyfa mér að halda áfram með líf mitt. Einnig vil ég þakka vinum mínum, fjölskyldu og aðdáendum fyrir stuðninginn. Takk fyrir,“ sagði Conor McGregor og var fljótur í burtu.