Ætla má að sólin, eða skortur á henni, hafi áhrif á áfengisneyslu Íslendinga miðað við tölur frá ÁTVR. Salan á áfengi í júlímánuði dróst saman um 4 prósent frá sama mánuði í fyrra, á sama tíma og sólskinsstundirnar voru um 50 prósent færri og meðalhiti einni gráðu lægri í Reykjavík. Þetta kemur fram á vef Íslandsbanka.
Sala á áfengi í júlí árið 2017 dróst einnig saman frá sama mánuði árið 2016. Í júlí í fyrra var hitinn einni gráðu lægri en í júlí 2016 og sólskinsstundirnar voru 20 prósent færri. Á síðustu tveimur árum hefur því salan á áfengi hjá ÁTVR í júlí dregist verulega saman. Þegar að júlímánuður var með skásta móti árið 2016 jókst sala á áfengi hins vegar um 4% frá fyrra ári.
Veðrið hefur ekki beint leikið við íbúa á sunnan- og vestanverðu landinu þetta sumarið. Samkvæmt Veðurstofu Íslands var júlímánuður víða sá úrkomusamasti um áratugaskeið og var meðalhiti í Reykjavík aðeins 10,6 stig.
