Innlent

Gæsluvarðhaldsúrskurður vegna hnífsstungu á Akranesi felldur úr gildi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Akranesi.
Frá Akranesi. Vísir/Arnar Halldórsson
Landsréttur felldi í gær úr gildi úrskurð Héraðsdóms Vesturlands um framlengt gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um að hafa stungið bróður sinn í hálsinn á Akranesi. Maðurinn hafði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 29. ágúst.

Árásin var gerð aðfaranótt 23. júlí síðastliðinn. Þolandi árásarinnar er á batavegi en var í lífshættu fyrst eftir að ráðist var á hann. Maðurinn sem grunaður er um verknaðinn var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald til 2. ágúst. Þann dag var úrskurðurinn svo framlengdur um fjórar vikur, eða til 29. ágúst eins og áður sagði, á grundvelli almannahagsmuna.

Í úrskurði Landsréttar segir að ekki verði talið nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að hinn grunaði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Því verði að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Lögreglu á Vesturlandi barst tilkynning frá Sjúkrahúsinu á Akranesi aðfaranótt 23. júlí vegna manns sem hafði leitað þangað og lét ófriðlega. Síðar sama kvöld barst lögreglu tilkynning um að maður hefði verið stunginn með hnífi í heimahúsi í grenndinni, og var það sá hinn sami og látið hafði ófriðlega á sjúkrahúsinu skömmu áður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×