Fótbolti

Fyrrum lærisveinn Hamrén: „Gef honum toppeinkunn“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Atli Sveinn Þórarinsson, fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu, ber Erik Hamrén, næsta þjálfara karlalandsliðs Íslands, vel söguna. Atli lék undir stjórn Hamrén frá 2000 til 2003 hjá Örgryte í Svíþjóð.

Hamrén verður kynntur sem næsti landsliðsþjálfari Íslands í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Íslands á morgun en þetta varð endanlega ljóst í gær er fyrrum vinnuveitandi Hamren staðfesti þetta.

„Hann er virkilega faglegur og góður þjálfari, einnig sem persóna. Hann náði vel til leikmanna og var með góðar æfingar,” segir Atli Sveinn og bætir við: „Hann var góður taktískt. Ég gef honum toppeinkunn.“

„Ég þekki Lars ekki neitt en ég gæti trúað því,” svarar Atli þegar hann er spurður hvort að Hamren sé harðari í horn að taka en Lars.

„Hamrén er með sín prinsipp. Hann setur reglur og trúir á sína taktík. Ég á erfitt með að bera þá saman þar sem ég þekki Lars nánast ekki neitt.”

„Hann var með skýrar reglur. Það var hæfilega mikill agi. Mönnum leið vel undir hans stjórn en menn vissu alveg hvar línan var.”

Allt innslagið úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir

Freyr líklegur aðstoðarþjálfari Hamren

Freyr Alexandersson er í viðræðum við Knattspyrnusamband Íslands um að taka við stöðu aðstoðarþjálfara karlalandsliðsins. Fótbolti.net greindi frá þessu í dag.

Hver er þessi Erik Hamrén sem er að taka við Íslandi?

Svíinn Erik Hamrén er að fara að taka við íslenska landsliðinu en á því leikur enginn vafi ennþá þótt að KSÍ sé ekki búið að staðfesta ráðninguna. Sú staðfestning og blaðamannafundurinn koma líklega seinna í þessari viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×